Leikarinn dáði Tim Curry hefur ekki sést á hvíta tjaldinu í langan tíma. Ástæðan er heilablóðfall sem hann varð fyrir árið 2012. Curry lýsti áfallinu á 50 ára afmælis sýningu Rocky Horror Picture Show, myndinni þar sem hann lék sjálfan Frank N Furter.
„Ég hafði verið mjög heppinn, í rauninni,“ sagði Curry, sem hefur gert garðinn frægan í bíómyndum á borð við Clue, Home Alone 2 og It þar sem hann lék trúðinn ógnvekjandi Pennywise. „En svo snerist lukkan á föstudeginum 13. júlí árið 2012 þegar ég fékk heilablóðfall.“
Eftir áfallið hefur Curry verið í hjólastól og hefur að mestu aðeins talað inn á teiknimyndir. Á föstudag var haldin 50 ára afmælissýning Rock Horror Picture Show og Curry mætti á staðinn og ræddi um áfallið og hvernig það bar að.
„Ég var mjög veikur og fór á spítala,“ sagði Curry. „Ég hafði verið í nuddi og tók ekki eftir neinu. En maðurinn sem var að nudda mig sagðist hafa áhyggjur af mér. Hann vildi hringja á sjúkrabíl. Og hann gerði það. Ég sagði að það væri svon kjánalegt.“
En það var eins gott að hringt var á sjúkrabílinn.
„Þeir settu mig í bílinn og mjög ljúfur sjúkraflutningamaður sagðist ætla að gefa mér morfín og ég sagði: Koddu meðða,“ sagði Curry. „Ég get enn þá ekki gengið og þess vegna er ég í þessum kjánalega stól. Og það hamlar mér mjög.“