Texti: Svava Jónsdóttir
Kristinn Jósep Gíslason er verkfræðingur á eftirlaunum sem í áratugi hefur aðstoðað fólk varðandi heilun, dáleiðslu og fyrrilífsdáleiðslu. Í æsku lék hann sér stundum við strák sem aðrir sáu ekki og hann hefur séð álfa og skyggnst yfir móðuna miklu. Hann talar meðal annars um endurholdgun og að hver og einn sé á mismunandi tíðni og að misindismenn séu meðal annars á lágri tíðni. Góðmennskan er mikilvæg og hún einkenni þá sem eru á hærri tíðni. Öll berum við ábyrgð á lífi okkar.
„Ég var alinn upp af móður minni sem var ein með stóran barnahóp. Faðir minn skildi við hana og fór til annarrar konu og mamma sat ein uppi með börnin. Ég þekkti aldrei föður minn. Ég var yngstur af nokkrum systkinum og pabbi hafði aldrei samband við mig allt mitt líf en hann hafði lítillega samband við eldri systur mínar tvær. Ég spurði oft mömmu af hverju ég ætti ekki pabba eins og aðrir krakkar. Ég spurði líka af hverju ég fengi ekki afmælisgjafir og jólagjafir frá pabba mínum og af hverju hann hringdi ekki í mig. Mamma var mjög þroskuð sál og útskýrði þetta allt saman vel fyrir mér,“ segir Kristinn Jósep Gíslason, verkfræðingur, heilari og dáleiðari.
Hundsun föðurins hafði áhrif á barnssálina. „Ég fann fyrir einhverri skömm en á móti kom að mamma var hetja lífs míns. Hún var stórkostleg manneskja og ástin og kærleikur hennar yfirgnæfði þetta allt saman. Þannig að þetta hafði aldrei þannig áhrif á mig að ég færi að leiðast út í eitthvað leiðinlegt en sem ungur krakki skildi ég þetta ekki.“
Hann var mömmustrákur.
„Við mamma vorum meðal annars tengd út af fyrri lífum okkar.“
Fjölskyldan bjó rétt hjá móðurömmunni og -afanum og var um sitthvorn braggann að ræða við Suðurlandsbraut. Kristinn segir að einstæð móðirin með börnin hafi búið við þröngan kost og mikla fátækt og það hafi bjargað heilmiklu að afi og synir hans voru sjómenn og þeir gáfu fjölskyldunni oft fisk. „Það var mikið borðað af saltfiski á okkar heimili,“ segir Kristinn og kímir. Hann minnist þess að nokkrum sinnum tíndu systkinin hundasúrur til að mamman gæti búið til hundasúrusúpu.
Trúin skipti máli og börnin lærðu bænir. „Ég var varla byrjaður að tala þegar mamma kenndi mér bænirnar og um trúna.“
Hann er spurður um uppáhaldsbænina og nefnir hann Faðirvorið. Hann nefnir líka Vertu guð faðir, faðir minn, Vertu guð yfir og allt umkring og Láttu nú ljósið þitt.
Kristinn segir að bænir geti breytt öllu og ef þær eru beðnar í innileik og með hreinu hjarta þá rætist þær.
Drengurinn átti sér sína drauma og dreymdi hann um að verða smiður þegar hann yrði fullorðinn. Hann sá stundum menn smíða hús og ímyndaði sér að það væri skemmtilegt starf.
Þegar lóan byrjaði að syngja sitt dirrindí á vorin og sóleyjarnar að láta sjá sig var drengurinn sendur í sveit og hann var í sveit nokkur sumur. „Bændurnir áttu lítið af tækjum og tólum og vildu fá krakka til að hjálpa til með heyskap og fleira.
Á Dyrhólum í Mýrdal, þar sem ég var í sveit, var kirkjugarður við hliðina á íbúðarhúsinu og sneri glugginn á herberginu mínu út að honum. Það magnaði stundum upp hjá mér ótta, en sem betur fer var þetta sumartími þannig að það var aldrei myrkur, en alltaf þegar ég gekk fram hjá kirkjugarðinum hrópaði á mig öll orkan sem kom þaðan. Ég var alltaf skíthræddur og það varð til þess að ég varð myrkfælinn af því að ég skildi þetta ekki.“
Hann bar út Morgunblaðið í hús við Hverfisgötu sem krakki, var jú í sveit á sumrin og sumarið sem hann var fimmtán ára gamall fór hann á sjóinn en hann var aðstoðarmaður bryta á hafrannsóknarskipum í tvö sumur og part úr vetri. „Ég var sennilega einn af lélegustu sjómönnum Íslandssögunnar því ég var sjóveikur alla daga og ældi nokkrum sinnum á dag.þ Mér var ekki ætlað að verða sjómaður.“
Og drengurinn fékk borgað fyrir vinnuframlag sitt.
„Þegar ég fékk fyrstu útborgunina mína þá var það umslag með peningum í og ég, bláfátækur 15 ára krakkinn, trúði því ekki að ég ætti þessa peninga svo ég píndi mig til að vera á sjó í tvö sumur og hluta af einum vetri og þá gat ég safnað peningum fyrir skólaárinu þannig séð.“
Svo lauk sjómennskunni og 21 árs fór Kristinn að læra smíðar hjá Snorra Halldórsyni í Húsasmiðjunni. Þar vann hann svo í tíu ár en síðan fór hann í Meistaraskólann og varð húsasmíðameistari og vann sem slíkur í þrjú ár. „Ég hætti að smíða þegar ég var 33 ára. Ég ákvað að fara til Danmerkur að læra byggingatæknifræði sem ég gerði í Horsens. Ég tók þar BS-gráðu og fór síðan heim og vann í nokkur ár, aðeins sjálfstætt, og fór svo aftur til Danmerkur og tók þá í Álaborg MS-gráðu í rekstrarverkfræði.“
Kristinn vann síðan sem verkfræðingur til dæmis hjá Reykjavíkurborg auk þess að reka um árabil eigin verkfræðistofu. Hann er kvæntur og á frá fyrra hjónabandi tvær dætur en þrjú börn með núverandi eiginkonu sinni, Elísabetu Maríu Erlendsdóttur ljósmóður. Barnabörnin eru tólf og barnabarnabörnin eru fjögur.
Kristinn segir að móðir sín hafi verið skyggn. „Hún var talsvert að spá í bolla fyrir fólk og hún bæði sá og heyrði. Við mamma vorum dálítið sérstök að því leyti að við vöknuðum bæði alltaf nánast á mínútunni sex alla morgna og ég hef gert það allt mitt líf. Og þegar hinir voru allir sofandi sátum við mamma frammi í eldhúsi og vorum að spjalla. Sem smástrákur sagði ég henni að ég hafi einu sinni verið indíáni og að einu sinni hafi ég átt heima í Ameríku og hafi alltaf verið á hestbaki. Ég sagði henni að ég hafi líka búið einu sinni í Frakklandi. Ég var að segja henni frá fyrri lífum mínum. Og í staðinn fyrir að slá á puttann og segja mér að hætta þessu bulli bað hún mig um að segja sér meira. Mamma sagði mér frá sínum fyrri lífum og andlegri reynslu sinni. Þannig að ég var lánsamur að fæðast inn í þessa fjölskyldu og fékk mikla hvatningu.“
Kristinn segir að sálir fjölskyldumeðlima í þessu lífi haldi líka hópinn í öðrum endurholdguðum lífum. Sá sem er kannski sonur konu í þessu lífi gæti orðið afinn í næsta lífi. „Sömu sálarmengin halda oft saman.“
Og samkvæmt honum dvelja sálirnar í andaheimum áður en þær koma aftur til að fæðast í mannlegu barni. „Efnislíkaminn er bara tímabundið hulstur fyrir sálina.“
Kristinn segir að móðuramma sín, Helga Soffía Bjarnadóttir, hafi verið skyggn, miðill og heilari, og að fólk hafi komið heim til hennar í meðferð. „Í stofunni í bragganum hjá ömmu var stórt málverk eftir Kjarval sem hann gaf henni fyrir að heila sig.“
Þess má geta að Ólafía Þórunn golfari er ein dóttir hans. „Þegar Ólafía var táningur kenndi ég henni grunnþætti sjálfsdáleiðslu og um staðfestingar og hún var fljót að læra. Ólafía er um margt lík mér, gömul sál og fór snemma að lesa sér til um andleg mál, algerlega af eigin hvötum. Hún kom sér upp sínu eigin kerfi til að takast á við andlega þátt golfsins. Þegar við vorum að fylgja henni á LPGA sáum við iðulega að hún fór afsíðis til að hugleiða helst inn í skóg um 10 mínútum áður en hún fór á teig.“
Kristinn og systkin hans áttu stjúpföður. „Hann var að mörgu leyti góður maður en hann var áfengissjúklingur og hann var skelfilegur þegar hann var undir áhrifum. Hann var mikið á sjó og það hjálpaði okkur aðeins.
Fyrsta upplifun mín af heilun var þegar við þrjú – ég, mamma og stjúpi minn – vorum í heimsókn hjá ömmu og afa. Amma spurði stjúpa hvort hann langaði ekki til að hætta að drekka og hann sagði hálfaumur að það vildi hann en hann gæti það bara ekki. Fólk sem kom í heilun til ömmu settist í stól hjá henni og sagði amma honum að setjast á stólinn sem hann gerði. Hún labbaði síðan aftur fyrir hann, fór með bænir og lagði síðan hendurnar á axlirnar á honum. Ég horfði á þetta 10 ára gamall. Stjúpi minn stóð upp eftir fimmtán til tuttugu mínútur og drakk ekki í fjörutíu ár.“
Kristinn segir að öll börn séu skyggn þegar þau fæðast og að í flestum tilfellum fjari það smátt og smátt út. Kristinn nefnir að sum börn eigi sér „ósýnilega“ leikfélaga og vini sem enginn annar sér. Kristinn átti slíkan vin og léku þeir sér saman og upplifðu ýmis ævintýri. Hann segir að þessir krakkar, sem séu annars heims, séu ósköp svipaðir og krakkar þessa heims.
„Ég get tekið eitt dæmi um samskipti mín við álfa. Ég var 25 ára gamall að veiða með vini mínum í Stóru-Laxá í Hreppum og á efsta svæðinu í ánni þar sem eru stórir og fallegir klettar. Ég settist niður í grjótið og kom mér fyrir. Svo byrjaði ég að slaka á og hugleiða en þegar það er gert fer maður niður á alfa-vitundarsviðið og þá getur allt gerst og opnast. Klettarnir opnuðust og kom kirkja í ljós og var fólk inni í henni. Þar söng álfkona sálm sem ég hafði aldrei heyrt. Ég magnaðist allur upp en þá fór egóið að draga úr þessu og þá hvarf þetta. Ég hugsaði með mér að þetta hefði verið ímyndun. Ég fór aftur að slaka á og þá birtist þetta aftur. Ég prófaði þetta þrisvar sinnum. Þarna lærði ég að egóið/rökhyggjan getur verið mikill flöskuháls í bæði dáleiðslu og heilun, sérstaklega dáleiðslunni. Því menntaðra sem fólk er sem hefur komið til mín eins og verkfræðingar þá er rökhyggjan svo sterk að erfitt getur verið að dáleiða viðkomandi. En listamenn eru langauðveldasta fólkið að dáleiða.“
Dejlige Danmark. Haverne. Slottene. Soldaterne. Eventyrene. H. C. Andersen.
Þegar Íslendingurinn Kristinn var við meistaranám í verkfræði í Danmörku, hann sem hafði leikið sér við börn annars heims og séð álfa, fann hann að námið og rökhyggjan sem því fylgdi drógu úr næmninni. Í verkfræðinni þurfti nú að vera hægt að reikna allt út. „Það var eins og tíðnisvið mitt lækkaði. Ég var í þessu meistaranámi frá morgni til kvölds í tvö og hálft ár og ég fann að næmnin og skynjunin byrjuðu að fjara út og það gerðist nánast ekkert á þessum tíma. En síðar kom þetta allt aftur.“
Þrátt fyrir minni skynjun á þessum tíma hefur Kristinn frá því í kringum tvítugt ekki lesið eina einustu skáldsögu heldur eingöngu bækur um andleg mál, heimspeki, hugleiðslu, heilun og dáleiðslu.
Svo opnaðist eitthvað á ný. Fyrir þrítugt byrjaði Kristinn að „fikta“ við heilun og í gegnum árin hefur hann lært reiki og dáleiðslu í þar til gerðum skólum og var hann tæplega fertugur þegar hann fór í reikinám I og II og um sextugur þegar hann fór í dáleiðslunámið. Hann lærði til dæmis fjarheilun hjá Guðrúnu Ólafsdóttur sem hann segir að hafi verið frægasti reikimeistarinn á Íslandi. Fjarheilun hann notar nánast eingöngu í dag í gegnum heimasíðu sína.
Hann nefnir eitt af fyrstu dæmunum þegar hann var að prófa sig áfram í heilun.
„Mágur minn kom í heimsókn og sagðist vera að farast af verkjum í annarri hlið líkamans og bað mig um að athuga þetta. „Varst þú ekki eitthvað að kukla við heilun?“ segir Kristinn að hann hafi spurt. „Jú,“ sagði ég og sagðist ætla að fara inn í herbergi og kalla á hann eftir smástund. Svo fór ég inn í herbergið og gerði það sem ég kunni þá en ég kann auðvitað meira í dag. Svo sagði ég honum að koma inn og setjst á stól. Og í um tuttugu mínútur til hálftíma hélt ég um svæði þar sem verkirnir voru og verkirnir hurfu strax að meðferðinni lokinni Hann hefur ekki fundið fyrir þessum verkjum síðan. Þarna varð ég meðvitaður um að þetta smellvirkaði.“
Kristinn segir að þeir sem heila þurfi að hafa gott hjartalag, vera góðar manneskjur og fara reglulega með bænir sem hann hefur alla tíð gert. „Ég aðvara að það er til talsvert af fólki sem eru loddarar í þessari grein eins og öllum öðrum. Oft er það samnefnari að þetta fólk tekur oft mest fyrir „þjónustu“ sína. Þetta er „fansí“ fólk sem kemur vel fyrir og platar fólk til þess að borga sér stórfé fyrir og svo er kannski ekkert á bak við þetta. Oft þegar fólk er platað svona þá finnur það fyrir skömm og vill ekki segja frá. Ég held að slæmar manneskjur, sem hafa illt innræti, geti seint orðið heilarar nema til komi vitundarvakning síðar í lífinu.“
Kristinn segir að hann hafi farið að heila vegna þess að hann hafi haft staðfasta trú á að það væri hægt. „Trúin spratt fyrst og fremst af því að hafa séð ömmu gera þetta eins og hún gerði með stjúpa. Og trúin hefur algerlega hjálpað mér til þess að átta mig á því að ég geti gert þetta,“ segir Kristinn og minnir á söguna í Biblíunni um Jesú þegar kona sem vildi heilun átti erfitt með að komast að honum í mannþrönginni en snerti klæði hans og þá á Jesú að hafa sagt: „Kona, trú þín hefur læknað þig.“
Kristinn er trúaður og hann talar um verndarengil sinn eða leiðbeinanda eins og oft er sagt en hann er reyndar með nokkra þótt einn sé aðalleiðbeinandinn. „Ég gerði talsvert af því að hafa samband við hann ef ég lenti í einhverjum krísum og ég bað líka bæna. Bænin er eitt sterkasta aflið. Ég hef alltaf verið duglegur að fara með bænir alveg frá því ég var smástrákur og ég kenndi börnunum mínum bænir þegar þau voru lítil.“
Þegar fólk fór að koma til Kristins í heilun þá gerði hann eins og amma hans hafði gert við sömu aðstæður. Hann fór með bæn, hann segist hafa tengt sig við almættið og svo hélt hann höndunum yfir öxlum viðkomandi. „Amma gerði þetta og þetta snarvirkaði hjá henni.“ Og eins og áður sagði þá lærði hann bæði reiki og dáleiðslu á sínum tíma og segir hann að ef viðkomandi glímir við sjúkdóm haldi hann höndunum við rétta staðinn á líkamamum. Hann segir að koma þurfi jafnvægi á hinar sjö aðalorkustöðvar líkamans. Hann hefur líka lært heilun þar sem ekki þarf að koma við viðkomandi heldur halda einungis höndunum rétt fyrir ofan líkamann. „Í QHHT-meðferð er engin snerting, skjólstæðingurinn liggur í rúmi með ábreiðu yfir sér og heilarinn situr á stól við hlið rúms skjólstæðingsins. Sá hluti QHHT þar sem skjólstæðingurinn er kominn í fyrra lífið sem hann „þurfti“ að heimsækja er tekinn upp og upptakan er síðan send á viðkomandi.“
Í Bandaríkjunum fór Kristinn á vikulangt námskeið í Quantum II-fyrri lífs dáleiðslu og bauð þá skjólstæðingum sínum upp á slíka tíma. „Ég rak verkfræðistofuna á þessum tíma og tók fólk frítt í dáleiðslu og heilun sem og fyrri lífs dáleiðslu. Þá var álagið orðið svo mikið að ég byrjaði að taka fyrir þetta og þá snarfækkaði þeim sem komu til mín en árangurinn varð miklu betri vegna þess að þá hætti fólkið að koma sem aðrir höfðu sent til mín svo sem í von um að viðkomandi myndi hætta að drekka eða reykja.“
Kristinn segir að í heilunar- og dáleiðslukennslu sé kennt að það eigi að rukka fyrir þjónustuna og að með því skapist „orkujafnvægi“. „Sá sem gefur heilun miðlar inn mikilli orku og sá sem þiggur þarf að mæta með einhvers konar orku til baka. Ef ekkert er gefið á móti skapast ójafnvægi sem getur meðal annars dregið úr lækningarmættinum.
Þó að ég í dag taki sjálfur ekki krónu fyrir þjónustuna þá renna allir styrkir sem ég fæ til góðgerðarmála og þannig næst að ég tel enn betra orkujafnvægi en ella sem gerir árangurinn meiri.“
Það er góður andi á heimili Kristins þar sem viðtalið er tekið. Og við tölum um orkuna. Hvernig skynjar hann orkuna?
„Þegar ég er búinn að slaka mér niður á alfavitundarsviðið, þegar ég er bæði að heila og dáleiða, þá skynja ég raunverulegan frið, ró og kyrrð og kærleiks- og heilunarorkan kemur og flæðir í gegn.“
Við tölum líka um leiðbeinendur hans.
„Ég hef einu sinni farið til skyggnrar konu sem gaf mér upp að ég væri með fimm leiðbeinendur og þar af einn aðalleiðbeinanda. Þetta eru til dæmis Indverji, Kínverji og indíáni. Ég hef fengið að vera dálítið í sambandi við þennan eina sem er mér tengdastur og sem er aðalleiðbeinandi minn. Ég spurði um nafn á honum og þá fékk ég nafnið Emanuel. Það er í raun og veru samheiti á Guði.“
Þögn.
Kristinn segist aldrei hafa séð hann. Hann segist þó skynja hann og segir að hann tali við sig í raun og veru á sinn hátt. „Það er eitthvað sem er án orða. Ég fæ bara tilfinninguna og er viss um ákveðna hluti. Það kemur fyrir að talað er beint til mín. Þegar ég var til dæmis í Orlando á QHHT-námskeiðinu voru þar 45 manns alls staðar að úr heiminum, allt mjög andlegt fólk. Þar fann ég mjög vel fyrir mikilli orku. Þegar ég var nýsestur við borðið mitt með kaffibolla í hönd var sagt við mig: „Hættu að drekka kaffi.“ Ég svaraði „já“, fór og hellti niður kaffinu og fékk mér te. Þegar ég settist aftur við borðið sagði kúbversk kona sem sat við hliðina á mér: „Ertu hættur að drekka kaffi?“ „Já.,“ svaraði ég, „mér var sagt að hætta að drekka kaffi.“ Þá sagði hún: „Ég trúi þessu ekki.“ Þetta er alveg satt, ég er ekki að búa þetta til,“ segir Kristinn. „Þá sagði hún: „Hann Jeff, sem situr hinum megin í salnum, var að hella niður kaffinu sínu áðan þegar ég var að fá mér kaffi og sagði að sér hafi verið sagt að „hætta að drekka kaffi!“ Þetta fannst okkur nokkuð merkilegt.“
Heilarinn segist halda að í fáum löndum í heiminum sé eins mikil og góð orka eins og er á Íslandi. „Við búum í harðbýlu landi og veður er oft slæmt og trú á andleg málefni og álfa er á fáum stöðum eins mikil.“
Árin liðu. Það var nóg að gera í vinnunni, börnin stækkuðu, tengdabörn komu inn í fjölskylduna og barnabörn fæddust. Og Kristinn Jósep Gíslason verkfræðingur hélt áfram að taka á móti fólki í heilun í frítíma sínum.
„Þegar ég var verkefnastjóri hafði ég mikil samskipti úti á vinnusvæðunum og jafnvel við tugi manna og svo líka á fundum. Ég stýrði oft fundum og þar voru oft verkfræðingar, arkitektar og verkkaupar. Ég var mjög fljótur að finna orkuna frá fundarmönnum og maður þurfti stundum að meðhöndla fólk á mismunandi hátt.“
Svo gerðist eitthvað árið 2010.
„Þá byrjuðu andlegir bakhjarlar mínir að vekja mig. Þeir vöktu mig klukkan þrjú, fjögur eða fimm á nóttunni, á hverri einustu nóttu í tvö ár, til að gera alheimsheilunarhugleiðslu. Hún kom af sjálfu sér til mín. Ég gerði raunverulega það sem ég geri alltaf þegar ég heila en þá tengi ég mig fyrst við orkustöð móður jarðar, ég sendi þráð neðan úr iljunum og niður og tengi. Svo bið ég þá um að senda mér orku, þeir opnuðu orkustöðvarnar, og sendu mér orku niður til móður allrar orku sem orkustöð móður jarðar þarf á að halda. Þá var komin sterk tenging þar. Síðan bað ég um tengingar við ljósið og þá niður hvirfilstöðina. Þá hóf ég alheimsheilunarhugleiðsluna en ég sendi stigvaxandi kúlu fulla af kærleika og heilunarkrafti á Ísland, jörðina, sólkerfið, vertrarbrautina okkar, allar vetrarbrautir alheimsins og heiminn eins og hann var fyrir miklahvell og svo aftur til baka til minnar eigin kærleiks- og heilunarkúlu.
Þegar ég var búinn að tengja mig svona get ég líka sent fjarheilun hvert sem er í heiminum og ég hef gert það – til Ameríku, Norðurlanda, Spánar og hvert sem er.
Ég er bara millistykki, orkan kemur ekki frá mér. Þessi orka kemur til mín og hún fer út um hendurnar á mér.“
Kristinn segist finna þegar orkan fer í gegnum hann og honum líður vel á eftir. Hann finnur sælutilfinningu, auðmýkt og þakklæti.
Hann talar um skjólstæðinga með andleg vandamál og segir þá oft uppfulla af hatri bæði í eigin garð og annarra. „Það spretta oft upp sjálfsvígshugmyndir þegar fólk fer að hata sjálft sig og í heiluninni tek ég fyrir fyrirgefningarferlið sem byrjar á því að ég fæ viðkomandi til þess að fyrirgefa sjálfum sér. Enginn á að ásaka sjálfan sig. Enginn er fullkominn. Við höfum öll gert eitthvað af okkur og við þurfum að byrja á því að fyrirgefa sjálfum okkur. Það tekst oftast nær. Síðan segi ég viðkomandi að við ætlum að fara í ferli til að fyrirgefa þeim sem viðkomandi hatar og hafa gert honum eitthvað. Ég kem inn á fyrirgefninguna í flestum meðferðum – að fyrirgefa bæði sjálfum sér og öðrum. Aðalkjarninn í fyrirgefningunni er að ef viðkomandi getur byrjað á því að fyrirgefa sjálfum sér þá getur hann fyrirgefið öðrum. Þá er viðkomandi á grænni grein og er strax kominn upp á hærra svið. Mikill léttir fylgir því að hafa fyrirgefið.“
Kristinn hefur aldrei auglýst sig sem heilara og í gegnum árin var það fólk sem hafði heyrt af honum sem leitaði til hans. Það var svo fyrir um þremur árum sem hann fór að skrifa um þetta starf sitt á Facebook og í maí 2024 setti hann upp heimasíðu: kristinnjosep.com Þar fjallar hann meðal annars um fjarheilun, hleðslu orkustöðvanna, mataræði og svo er hægt að opna myndband þar sem boðið er upp á sjálfsheilun. Og hann segir að í ársbyrjun 2024 hafi hann gert samning við almættið um að helga líf sitt þessu það sem hann á ólifað í þessu lífi.
Hann segist vinna í þessum málum helst á hverjum degi og stundum jafnvel á næturna en hann fer þá fram í herbergi á heimilinu og sendir fjarheilunina á skjólstæðinga sína. Þar sem hann er farinn að bjóða upp á fjarheilun koma mun færri til hans en áður sem var tilgangurinn með heimasíðunni, að reyna að hjálpa sem flestum.
Fólk hefur misjafnar skoðanir á hinum andlega heimi og til dæmis heilurum og þeir sem koma til Kristins í heilun eru ekki allir alveg sannfærðir í byrjun en mæta þó.
„Það kom til mín fyrir nokkrum árum læknir og hann varð fyrir andlegri vakningu ári áður en hann kom til mín. Hann sagði að kollegar sínir trúi ekki mikið á svona. Ég sjálfur geri aldrei lítið úr veraldlegum lækningum; við getum ekki án þeirra frábæra starfs verið. Það er alveg klárt mál. Ég veit að á sjúkrahúsi í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum geta sjúklingar valið hvort þeir vilji óhefðbundna lækningu með hefðbundnu lækningunni. Það er líka boðið upp á svipað á sumum sjúkrahúsum í Þýskalandi. Þar geta sjúklingar borgað heilara hluta af sjúkrasamlagspeningum.“
Lífið getur verið eins og náttúran sjálf. Sumir þurfa að klifra upp kletta og vaða ár og leggja sig í lífshættu á meðan aðrir virðast sigla báti á lygnum firði. Kristinn segir að hann sé lengst af búinn að vera „á sjálfstýringu“ og að hann hafi sjaldan lent í einhverju sem vert er að segja frá. Allt hafi almennt gengið upp.
„Við erum öll tengd í svokallaðri alvitund sem heitir Guð. Við erum hluti af Guði, hvert einasta mannsbarn eða sál. „Maðurinn er með sál“ eins og oft er sagt en það er eiginlega öfugt; sálin er með tímabundinn líkama. Sálin er eilíf. Líkaminn er hulstur í þessu lífi og svo endurfæðist viðkomandi í nýjan líkama í hvert skipti.
Þær bækur sem ég las og hafa haft gríðaleg almenn áhrif á umræðuna um enduholdugun eru Lífið eftir lífið, sem kom út árið 1977, og er eftir Raymon Moody Jr., lækni geðlækni og heimspeking. Svo eru það þrjár bækur eftir Dr. Michael Newton. Þær heita Journey of the Souls, sem kom út árið 1994, Desinity of Souls, sem kom út árið 2000, og Life Between Lives sem kom út árið 2004.
Síðan hefur reynsla mín og frásagnir skjólstæðinga minn sem fóru í yfir 120 fyrri líf, þar sem hver meðferð endar á því að sálin yfirgefur lífið sem hún var að heimsækja og fer þá í andaheima, gefið mér staðfestingu á að er endgurholdgun er staðreynd.“
Hann talar um tíðni.
„Yngstu sálirnar hérna á jörðinni hafa lága tíðni og í þeim flokki er mikið af glæpamönnum og alls konar misindisfólki og það gerir mistök og miklu verri mistök heldur en kannski ég og þú. Það þarf að endurfæðast aftur og aftur,“ segir Kristinn og nefnir endurholdgun. Fyrri líf. „Ég var ekki að plata mömmu mína sem krakki þegar ég sagðist hafa verið indíáni og í Frakklandi. Þeim meira sem viðkomandi lærir því meiri tíðni fær hann. Þegar mamma kom til mín eftir að hún lést, spurði ég hvar hún væri og hvað hún væri að gera og þá sagði hún að hún væri komin á annað hærra tíðnisvið og væri að heila og kenna. Þetta kom mér ekki á óvart.
Í fyrri lífs dáleiðslu, QHHT, lærði ég að veikindi sem stafa af fyrri lífum koma oftast nær fram í vinstri hluta líkamans en úr núverandi lífi í þeim hægri.“
Samkvæmt heilaranum eru sálir misungar og hann segir, eins og stundum er sagt, að sálir velji sér foreldra og aðstæður sem þær þurfa að upplifa í næsta lífi til að losna við karma. „Allt hefur þetta tilgang. Af hverju eru sumir til dæmis með ákveðinn sjúkdóm? Sálirnar völdu það sjálfar því þær þurftu að upplifa þetta.
Tilgangurinn með lífinu hérna á jörðinni og lífi sálarinnar er að fæðast aftur og aftur og ná að trappa sig upp á hærra svið,“ segir Kristinn og talar um skala frá 0-1000 samkvæmt kenningu David R. Hawkins geðlæknis. „Þegar viðkomandi er búinn að ná það miklum andlegum þroska og lærdómi í gegnum þessi líf þá þarf hann ekki að fæðast aftur á jörðinni. Jörðin er einn versti bústaður í alheimi og sálirnar sem eiga erfiðast eru sendar hingað. Hin sviðin öll eru ekkert nema hamingja og himnaríki og dásemd. Horfðu bara í kringum þig og sjáðu hvað er að gerast í heiminum í dag; þetta er alveg skelfilegt.“
Nóbelsskáldið skrifaði um hinn hreina tón. Hvernig er hin hreina sál?
„Þessar hreinu sálir eru þær sem eru komnar á það svið að vera allavega komnar yfir 200 á skalanum; þær eru komnar á styrkjandi svið. Þær fara síðan á hærra vitundarstig og á 700 – 1000-skalanum ná þær uppljómun. Þar voru sem dæmi Jesús og Búdda. Það er í raun og veru kannski engin sál vond en hún getur samt sem áður haft mjög lága tíðni eins og ég sagði og hún getur leiðst út í miklu verri hluti í jarðlífinu heldur en hinar sálirnar sem eru með hærri tíðni.“
Kristinn segir að þeir sem eru með hreina sál hafi sterka þörf fyrir að vera góðir, gera vel og gott fyrir aðra og láta gott af sér leiða.
Er Kristinn með hreina sál?
„Ég tel að ég sé kominn yfir 200 á skala David R. Hawkins og sé því hrein sál en ég á eftir að læra ýmislegt til að komast hærra.“
Hann er spurður hvort hann hafi hitt hreina sál.
„Tvær af bestu manneskjum sem ég hef kynnst í þessu lífi og sem ég hef sjálfur umgengist eru dóttir mín, Ólafía Þórunn, og móðir mín og nafna hennar.“
Ghost Bursters. The Sixth Sense. Ýmsar kvikmyndir fjalla um draugagang. Sumir telja sig verða vara við draugagang og leita jafnvel til miðla í von um aðstoð til að losna við óboðna gestinn. Boðflennuna ef svo má að orði komast.
„Sumir framliðnir andsetja aðra. Þetta eru villuráfandi sálir sem hafa átt mjög bágt í jarðlífinu og vilja ekki fara yfir og vilja frekar hertaka aðrar manneskjur. Þessar villuráfandi sálir andsetja fólk með drykkju, fíkn og öðru slæmu.“
Kristinn nefnir ungan fíkil sem var nýkominn af skemmtistað og sá hann tíu svarta púka sem eltu hann. „Ég setti mig í sterkustu stellingar og sendi á hann kærleika og heilun og svo dofnaði þetta. Þannig að ég hef séð þetta. Ég hef séð púka sem fylgja fíklum og það er eitt það skelfilegasta sem maður sér.“
Það er almennt ekki haft samand við Kristin vegna draugagangs en hann vill segja frá dæmi þegar barnabarn hans eitt hafði samband við sig vegna barns síns.
„Hún hringdi í mig og sagði að sonur sinn, sem þá var sex ára gamall, vaknaði alltaf á sama tíma á nóttunni grátandi og væri hræddur og sæi eitthvað. Hún spurði hvort ég gæti komið og skoðað þetta. Amma og afi barnsins mættu líka og við sátum við í hring og ég bað bæn. Svo fór ég einn inn í herbergi drengsins að gera það sem ég átti að gera sem ég geri líka í fjarheiluninni; ég tengdi mig og kallaði til mín andlega bakhjarla mína sem síðan fjarlægðu „óværuna“ í kærleika og blessun. Ég bað sem sagt um að viðkomandi sál yrði tekin í blessun og kærleika og færð í andaheima.“
Móðir drengsins hringdi svo í afa sinn, Kristinn, daginn eftir og sagði að drengurinn hafi ekki vaknað um nóttina. Fjögur ár eru liðin og segir Kristinn að drengurinn hafi ekki orðið var við neitt síðan og sofi vært á nóttunni.
„Allt í heimi er orka. Orka eyðist aldrei en hún umbreytist. Hún getur skipt um birtingarmyndir,“ segir Kristinn og segir að það geti vel gerst að húsgögn færist úr stað fyrir tilstilli framliðinna þó hann hafi sjálfur aldrei verið vitni að slíku. Hann segir að það sé örugglega öruggt með þessar villuráfandi sálir að þær geti framkallað orku til að hrinda einhverju niður.
„Ég var í Danmörku þegar móðir mín dó og var að fara að klára námið þar. Ég vaknaði við að húsið titraði. Krafturinn var rosalegur,“ segir Kristinn með áherslu. „Ég vakti konuna og spurði hvort þetta hafi verið jarðskjálfti. Það eru engir jarðskjálftar í Danmörku. Um tíu mínútum síðar var hringt í mig frá sjúkrahúsinu þar sem móðir mín lá og mér tilkynnt að hún væri nýlátin. Ég vissi að hún væri veik en skynjaði ekki að hún væri að deyja.“
Kristinn segist ekki oft hafa séð látna eða andaheima en nefnir þó dæmi. Móðir hans lést árið 1990 og segist hann oft hafa beðið hana í bænum og hugleiðslu að láta sig vita hvar hún væri og hann langaði til að sjá hana. Hann segir að hún hafi birst sér í djúpri hugleiðslu „Hún var svo falleg. Það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvað hún var falleg,“ segir hann með áherslu.
„Ég hef ekki fengið að skyggnast mikið inn í andaheima en litirnir þar eru ekki sambærilegir þessum litum sem við sjáum. Þeir eru bara svo mikið fallegri. Það er ekki hægt að lýsa því hvað þeir eru fallegir.“
Kristinn hefur í gegnum skjólstæðinga sína nefnilega fengið upplýsingar um það sem hann og þeir telja að sé heimurinn að handan og það sem þeir upplifa til dæmis í QHHT-rdáleiðslu. Þessir skjólstæðingar hans fóru að hans sögn samanlagt í yfir 120 fyrri líf. Hann nefnir tvö orð sem sameina það sem þeir sem hafa upplifað þann heim segja: Friður og kærleikur.
„Helvíti er ekki til. Helvíti er hérna á jörðinni. Það er ekki hinum megin. Horfðu í kringum þig. Það eru stríð út um allan heim. Grimmdin og hatrið er svo mikið. Þetta er siðlaust.“
Það er mikill hraði í nútímasamfélaginu íslenska og segir Kristinn að sér finnist að áhugi á andlegum málum hafi þó aukist ef eitthvað er. Hann segir að það geti raunverulega allir sem hafa gott hjartalag og góðan vilja fetað sömu leið og hann. „Því meira sem kemur af góðum skilaboðum til okkar mannkynsins því hærri verður tíðni alheimsvitundar okkar. Versti óvinur okkar er egóið og til dæmis það sem við sjáum í sjónvarpinu daglega í tengslum við stríð og glæpi lækkar tíðni okkar. Normið hefur breyst. Þegar ég var strákur að fara í fyrsta skipti á ball á Borg í Grímsnesi þá voru kannski bændur að slást með berum hnefunum. Í dag ræðst stundum fjöldi manns á einn aðila og það er farið að stinga fólk með hnífum. Ég trúi því að tölvuspil þar sem krakkar eru til dæmis að „skjóta“ og „drepa“ skemmi normið. Það hækkar og hækkar á neikvæðan hátt. Ég veit að það slæma mun á endanum líða undir lok. Það getur ekki haldið áfram að vaxa. Það er lögmál. Það er bara kærleikurinn og það góða sem heldur áfram að vaxa.“
Mannssálin er mishrein og sumir virðast njóta þess að pína aðra. Stríðni og einelti hefur alls ekki minnkað og er víða alvarlegt.
„Normið er að hækka; þetta verður grimmara og grimmara. Einhver er laminn í spað og svo er hlaupið hlæjandi í burtu. Ég hef séð það í gegnum andlegu heilunina og það sem fólk segir mér er að þeir sem leggja í einelti koma oft frá fjölskyldum þar sem er mikil áfengisdrykkja, eiturlyfjaneysla eða mjög slæmir foreldrar þannig að þeir sem leggja í einelti eru í rauninni sjálfir sjúkir. Þeir þurfa jafnmikla hjálp ef ekki meiri en þeir sem lagðir eru í einelti. Það getur verið erfitt að komast að því fólki af því að foreldrarnir eru jafnvel grimmir og skella bara hurðum ef einhver ætlar að reyna að koma og hjálpa. Samfélagið þarf að átta sig á þessu og það þarf að hjálpa gerendunum eins og ég sagði.“
Kristinn segir að fólk eigi helst að forðast þá sem koma leiðinlega fram. „Þetta er fólkið sem er á lægri sviðunum. Þetta er fyrsta stig af siðblindu. „Ég um mig frá mér til mín,“ segir hann og á við fólk sem talar endalaust um sjálft sig og þar sem egóið er alveg í botni. „Þetta snýst allt um viðkomandi en ekki aðra.“
Það hefur gefið Kristni mikið að aðstoða fólk á þennan hátt hvort sem það er heilun eða dáleiðsla.
„Ég erfði innrætið sennilega frá móður minni. Ég var alltaf að verja alla sem voru lagðir í einelti. Þetta er bara sjálfsprottinn eiginleiki þegar maður er kannski kominn á ákveðið svið í ferðalagi sálarinnar hérna á jörðinni og þá getur maður ekki annað en gert svona hluti. Ég upplifi svo mikla ánægju og mér líður svo vel þegar ég er búinn að gera eitthvað gott. Og mér líður svo vel þegar fólk sendir mér póst eða hringir til að þakka mér fyrir. Það hvetur mig líka til að halda áfram. Það koma tímabil þar sem maður fer aðeins í efasemdarlægðina en það kemur fyrir alla og það birtir alltaf til aftur.
Ég hef verið lánsamur með að reyna að sjá það góða í öllum og gera mitt besta og reyna að vera eins góður maður og ég get. Ég er ekki fullkominn frekar en aðrir og hef syndgað eins og aðrir.“
Kristinn Jósep Gíslason var drengurinn sem spurði móður sína um föður sinn sem aldrei kom. Svo fór faðir hans úr þessu lífi árið 1993.
„Gísli sendi mér skilaboð þegar hann var á dánarbeðinum um að hann vildi að ég kæmi og heimsækti sig. Þar kom fram að það væri búið að elta hann allt hans líf að hann hafði aldrei samband við mig. Ég svaraði ekki strax og hugleiddi málið áður en ég myndi svara. Ég tengdi mig og spurði hvort ég ætti að heimsækja Gísla. Og ég fékk svarið „nei“. Ég spurði af hverju ekki. Þá kom fram að ef ég myndi heimsækja hann þá næði hann ekki að klára karmað sem hann var að vinna í þessu lífi og þyrfti þá að fæðast aftur til að klára það. Ég bað þess vegna viðkomandi að færa honum þau skilaboð að ég kæmi ekki en ég var fyrir mörgum árum búinn að fyrirgefa honum. Þannig að hann dó og hitti mig aldrei. Samt verð ég að segja að þetta er svo mikill lærdómur. Ég var tæplega þrítugur þegar ég ákvað að fyrirgefa honum af öllu hjarta. Við það losnaði ég við einhvern ákveðinn pakka og ég hafði aldrei áhyggjur af þessu meira. Maðurinn var sjúkur. Í gamla daga voru menn eins og hann og stjúpi kallaðir fyllibyttur. En í dag vitum við betur. Þetta er fólk sem glímir við sjúkdóma.“
Kristinn heilari, sem aldrei hitti föður sinn, lifir lífinu lifandi í þessu lífi. Hann er kominn á eftirlaun, hjónin eiga hús á Spáni og eru að láta byggja sumarbústað þar sem álfurinn Þorlákur býr í nágrenninu og hann spilar á gítar og hefur síðasta árið verið að læra á píanó og semja tónlist og texta. Áður var hann í karlakórum. Hann söng 1. tenór í karlakórnum Stefni og karlakór Hreppamanna.
Tónlistin er stundum eins og úr öðrum heimi og það er eins og fólk falli stundum nánast í trans þegar það hlustar á fallega tónlist. „Tónlistin er andlegt fóður og fallegustu verkin hafa mikla, jákvæða orku.“
Það má segja að hljóðin í náttúrunni séu stundum næstum því eins og tónlist og má hér nefna fuglasönginn. Náttúran er góð fyrir sálina. Líkama og sál. „Ef fólk vill hugleiða er náttúran eiginlega besti staðurinn til þess. Það er gott að setjast einhvers staðar niður þar sem heyrist í fuglum syngja og helst í árnið. Það er það sterkasta. Árniðurinn er svo flókinn og þótt að undirvitundin sé öflug nær hún aldrei að halda neitt utan um hann sem einhverja reglu. Það gefur þessa miklu andlega og líkamlegu slökun.“
Sálin sækir í náttúruna í mörgum tilvikum og verkfræðingurinn og heilarinn, sem vann um árabil við verkefnastjórnun og eftirlit, nefnir að það albesta sé að vakna í sumarbústaðnum að morgni til og hlusta á fuglana syngja. „Snerting við náttúruna er mikilvæg.“
Kristinn á sér drauma. Hann gerði sjálfsheilunarmyndbandið sem er á heimasíðu hans og sem þegar hefur verið minnst á. Það hefur fengið um 2.900 hlustanir og hann langar til að gera meira af slíku þar sem hann sér að hann nær til margra á þennan hátt.
„Ég er ánægður með að hafa stigið það skref að helga mig þessum málum.“