Ragna Hlín Þorleifsdóttir og Jenna Huld Eysteinsdóttir, húðlæknar á Húðlæknastöðinni og Húðvaktinni, skrifa um málið í Morgunblaðinu í dag.
„Notkun ljósabekkja hefur aukist á Íslandi, einkum meðal ungmenna. Þrátt fyrir skýrt lagabann við notkun þeirra hjá börnum undir 18 ára vitum við að sumir rekstraraðilar hunsa lögin,“ segja þær og bæta við að: „Samfélagsmiðlar ýta enn fremur undir hugmyndir um hina „fullkomnu“ sólbrúnku og margir unglingar keppast um að ná sem mestu „tanfari“. Þetta er verulegt áhyggjuefni því staðreyndin er að ljósabekkir eru krabbameinsvaldandi.“
Ragna og Jenna benda á að ljósabekkir séu skaðlegri en sólbað. „Engin ljós eru örugg, hver ljósatími veldur erfðaskemmdum sem safnast upp yfir lífaldurinn og börn og ungmenni eru sérstaklega viðkvæm þar sem húð þeirra er þynnri og móttækilegri. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) flokkaði ljósabekki sem krabbameinsvaldandi árið 2009, í sama flokk og sígarettur, og síðan þá hafa bæði krabbameinsfélög og húðlæknasamtök um allan heim endurtekið varað við notkun þeirra.“
Húðkrabbamein eru meðal algengustu krabbameina heims.
„Sortuæxli (melanoma) eru sú tegund sem veldur flestum dauðsföllum og nýgengi þeirra hefur farið vaxandi víða á undanförnum áratugum. Þó nýgengið sé enn lágt á Íslandi (3% allra krabbameina), er þetta alvarlegur sjúkdómur með háa dánartíðni miðað við önnur húðkrabbamein. Meira en 80% allra húðkrabbameina má rekja til útfjólublárrar geislunar (sólin eða ljósabekkir) og fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á skýr tengsl við ljósabekkjanotkun, sérstaklega ef hún hefst fyrir 35 ára aldur, en þá aukast líkur á sortuæxli verulega. Ljósabekkir valda nú fleiri húðkrabbameinum en sígarettur valda lungnakrabbameinum.“
Ragna og Jenna segja að það sé kominn tími til að banna notkun ljósabekkja á Íslandi. „Margar þjóðir hafa þegar bannað ljósabekki, þar á meðal Ástralía, Brasilía og Íran. Bandaríkin hafa lagt sérstakan 10% skatt á ljósabekkjatíma og í Wales er rætt um svokallaðan „tan-skatt“ til að fjármagna forvarnir gegn húðkrabbameinum.“
„Reynslan af tóbaks- og áfengissköttum sýnir að verðhækkun dregur úr notkun og sama ætti að gilda um ljósabekki. Ef íslensk stjórnvöld treysta sér ekki til að stíga skrefið til fulls með algjöru banni, er næsta skynsamlega skref að leggja sértækan lýðheilsuskatt á þessa starfsemi og banna jafnframt auglýsingar, líkt og nú þegar gildir um áfengi og tóbak. Slíkt gæti fjármagnað fræðsluherferðir, eftirlit og stuðning við þá sem greinast með húðkrabbamein.“
Þær segja að ljósabekkir séu tímaskekkja. „Sönnunargögnin um skaðsemi þeirra eru ótvíræð og kostnaður heilbrigðiskerfisins vex stöðugt vegna meðferðar húðkrabbameina. Kominn er tími til að við stöndum vörð um heilsu framtíðarkynslóða – annaðhvort með algjöru banni eða með skattlagningu sem tryggir að hættan kosti það sem hún raunverulega kostar.“