fbpx
Mánudagur 01.september 2025
Fókus

Steindór segir að það sé byrjaður alvarlegur faraldur – „Ein fallegasta sál sem ég hef kynnst“

Fókus
Föstudaginn 29. ágúst 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steindór Þórarinsson, markþjálfi, segir að það sé að byrja alvarlegur faraldur sem þurfi að stoppa, strax í dag.

„Ég er orðinn þreyttur á að missa fólk sem mér þykir vænt um. Seint árið 2022 og fram á 2023 kom ég að tilraun vinar. Mánuði síðar keyrði náinn samstarfsmaður út í sjó. Tveimur mánuðum eftir það missti ég annan vin vegna neyslu,“ segir Steindór í pistli á Vísi og heldur áfram:

„Eitthvað brast. Kerfið greip mig ekki. Ég fékk aðstoð frá fólki sem ég vann fyrir og gat borgað með vinnuframlagi. Það geta ekki allir. Við verðum að grípa þetta strax. Ég er þreyttur. Mjög þreyttur. En ég neita að gefast upp. Við verðum að grípa fólkið sem stendur frammi fyrir lokuðum dyrum alls staðar. Og hefur ekki bakland eins og ég sem styður mig þegar ég þarf. Minning sem verður ekki þögguð.“

Nýlega fékk Steindór erfiðar sorgarfréttir. „Að vinkona mín, ein fallegasta sál sem ég hef kynnst, tók eigið líf. Til minningar um hana setti ég færslu á Facebook þann 26. ágúst,“ segir Steindór.

Færsluna má lesa hér að neðan.

„Það rignir ennþá inn skilaboðum. Færslan fór hratt yfir hundrað og fimmtíu þúsund eftir hádegi daginn eftir. Um kvöldmatarleyti sama dag fór hún yfir tvö hundruð þúsund. Daginn þar á eftir var hún komin í tvö hundruð þrjátíu og fjögur þúsund síðdegis og rúm tvö hundruð fjörutíu og þrjú þúsund um kvöldið. Nú er hún í um tvö hundruð fimmtíu og eitt þúsund þegar ég skrifa þennan pistil. Ég starfa í markaðssetningu á netinu og hef unnið með greidda dreifingu. Ég hef ekki séð svona dreifingu áður. Það segir mér eitt. Ég er ekki einn. Það eru fleiri orðin þreytt,“ segir hann og útskýrir af hverju hann er að skrifa um málið núna.

„Þessi pistill er svar til mannsins sem skrifaði í athugasemdum hjá mér og spurði beint af hverju við grípum ekki fyrr, af hverju biðlistar eru endalausir og hvað við gerum strax í dag. Ég spyr sömu spurninga.“

Erfitt að fá hjálp

Steindór segir að hann þurfi faglega aðstoð og hafi ekki efni á einkaleiðinni. „Ég borgaði hundrað og fimmtíu þúsund krónur fyrir sálfræðimat sem staðfesti það sem ég vissi, að ég væri með ADHD, án leiðsagnar og stuðnings, bara skilaboðin að á netinu væri lesefni,“ segir hann.

„Ég var 42 ára þegar ég fékk þessa greiningu. Síðan þarf mat geðlæknis og biðin er löng. Ég ákvað að hjálpa mér sjálfur með stuðningi aðstandenda og þrjósku að vopni. Ekki allir hafa þann stuðning eða þorið. Sumir þurfa meira. Á meðan talað er um viðmið upp á þrjátíu daga getur raunveruleg bið mælst í mánuðum og árum.“

„Þetta eru börn“

„Á sama tíma kemur fólk til Íslands úr stríðum og glímir við áfallastreitu. Þjónustuþörfin vex. Í ársskýrslu Umboðsmanns barna 2024 er dregin upp alvarleg mynd af stöðu barna í miklum vanda, þar á meðal um bið og brotakennda þjónustu. Þetta eru ekki Excel línur. Þetta eru börn. Að laga þetta er ekki bara mannúð. Þetta er líka skynsemi. Færri sjálfsvíg, minni falinn kostnaður, minna álag á heilbrigðis og réttarkerfi, meiri þátttaka í námi og vinnu. Þegar fólki líður betur sparast fé og líf verða betri,“ segir hann.

Steindór spyr þau sem bera ábyrgð hvort „[við séum] bara tölur á blaði í ykkar augum. Hver er manneskjan á bak við línuna í Excel?“ og „hvað heitir barnið sem er í bið á degi númer hundrað sjötíu og þrjú og hver hringir í það í dag?“

Hann spyr fleiri spurninga í pistlinum.

„Þú ert ekki einn“

„Það er svo sárt að fá fréttir af ungu, hæfileikaríku fólki sem fellur frá alltof ungt. – Elsku þú, þín verður sárt saknað,“ segir Steindór og bætir við að lokum:

„Ef þú lest þetta og ert þreyttur þá vil ég að þú vitir að ég sé þig. Þú ert ekki einn. Stundum þurfum við ekki ráð heldur bara að finna að einhver standi með okkur. Ég bið kerfið um svör og ábyrgð. Ég bið samfélagið um samkennd og nærveru. Og ég bið þig sem ert að lesa að halda í vonina þótt hún sé lítil í dag. Hún er samt til. Ég ætla ekki að gefast upp.“

Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Í veiði með afa og afa – „Þú ert afi 1 og hann er afi 2“ – Myndband

Í veiði með afa og afa – „Þú ert afi 1 og hann er afi 2“ – Myndband
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gordon Ramsay fékk krabbamein

Gordon Ramsay fékk krabbamein
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur konungsfjölskyldunnar kætast – Karl og Harry ætla að hittast í fyrsta sinn í tæp tvö ár

Aðdáendur konungsfjölskyldunnar kætast – Karl og Harry ætla að hittast í fyrsta sinn í tæp tvö ár
Fókus
Fyrir 3 dögum

Upplifði ofsóknaræði eftir svakalegt þyngdartap

Upplifði ofsóknaræði eftir svakalegt þyngdartap
Fókus
Fyrir 6 dögum

Rithöfundur og prófessor selja fallegt einbýlishús á þremur hæðum

Rithöfundur og prófessor selja fallegt einbýlishús á þremur hæðum
Fókus
Fyrir 6 dögum

Leikari óþekkjanlegur á nýrri mynd – „Þetta var óvænt“

Leikari óþekkjanlegur á nýrri mynd – „Þetta var óvænt“