Spænskur maður, Marc, að nafni sem heldur úti TikTok rás er gapandi hissa á hversu mikla peninga er hægt að fá fyrir flöskur og dósir á Íslandi. Hann greinir frá því hversu mikið hann fékk fyrir 486 dósir.
Marc heldur úti TikTok rásinni McFingers og sýndi fylgjendum sínum hvernig endurvinnslu dósa og flaska væri háttað hér á Íslandi. Marc, sem hefur búið á Íslandi í um tvo mánuði, er afar hrifinn af kerfinu.
„Sjáum hversu mikla peninga ég get fengið fyrir að endurvinna dósir á Íslandi,“ segir Marc í myndbandinu.
Fór hann með dósirnar sem hann hafði safnað frá því að hann flutti til landsins fyrr í sumar. „Ég hlýt að vera með í kringum 400 dósir,“ segir hann. Fjóra stóra smekkfulla plastpoka fulla af dósum af ýmsu tagi.
Þá keyrir hann á endurvinnslustöð og sýnir hvernig hann hellir dósunum í móttakarann þar sem þær fara með færibandi í gegnum teljara. Eftir örfáar mínútur klárast talningin og Marc fær upplýsingar um hversu margar dósir hann skilaði. Ágiskun hans reyndist vera aðeins undir réttri tölu.
@mcfingersNo me imagino esto en España 😅 💰♬ sonido original – MarcFingers
„Samkvæmt pappírsstrimlinum komu 486 dósir,“ segir Marc. Þetta gefur vel í aðra hönd. „Niðurstaðan er 74 evrur,“ segir hann í lok myndbandsins. En það eru um 10.600 krónur.
Þó að þetta ferli virðist vera nokkuð venjulegt og sjálfsagt fyrir okkur þá kemur þetta mörgum útlendingum á óvart. Það er kerfi sem hvetur með svo jákvæðum hætti til endurvinnslu drykkjaríláta.
Það sést meðal annars á viðbrögðum sem Marc hefur fengið við myndbandinu. En á aðeins tveimur sólarhringum hafa um 500 manns skrifað athugasemdir við það og Marc sjálfur tekur þátt í umræðunum.
„Ég get ekki ímyndað mér svona kerfi á Spáni,“ segir hann og flestir taka undir það. „Þessar vélar koma aldrei til Spánar, það er ekki möguleiki.“
Aðrir benda á að Ísland sé ekki eina landið sem geri þetta. Norðurlöndin séu fremst í flokki hvað þetta varðar.
„Þetta hefur verið gert í Danmörku í mörg ár líka og þetta er góð leið til að fá fólk til þess að sleppa því að henda dósum á götuna,“ segir einn netverji. „Það væri gott ef við hefðum sömu endurvinnslumenningu hér á Spáni svo að fólk myndi ekki henda flöskum og dósum í görðum eða út í vegkanta.“