Bresk pör virðast loksins vera farin að átta sig á fyrirkomulagi í svefnherberginu sem tryggir betri nætursvefn. Báðir aðilar sofi einfaldlega með sitthvora sængina.
Ætla mætti að þetta væri frekar augljóst en svo er þó ekki ef marka má umfjöllun Daily Mail. Þar er fjallað um nýtt fyrirkomulag, sem vinsælt sé á Norðurlöndum, en um er að ræða áðurnefnt tveggja sænga fyrirkomulag.
Það hefur nefnilega löngum verið vinsælt á Bretlandseyjum að pör sofi undir einni stórri sæng sem getur skapað allskonar pirring og vandamál. Til að mynda þegar annar aðilinn vefur sænginni um sig eins og lirfa!
Í umfjöllun breska miðilsins er vitnað í svefnsérfræðing sem lofar tveggja sænga fyrirkomulagið í hástert og segir það skila betri nætursvefni.
Þá vita Bretar það sem við Íslendingar vissum fyrir löngu!