Árni Árnason hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum með stuttum sketsum sínum, þar sem hann leikur Uglu Tré, sem er ekkert óviðkomandi í stjórnsýslunni.
Ugla Tré og samstarfskona hennar Gógó, sem aldrei sést í mynd eða hljóði, eru í flestum sketsunum að vinna hjá einhverri ríkisstofnun. Um ádeilu á kerfið er að ræða og sýnir Árni hvernig það er oft ekki að virka. Grínið, sem er með sannleiksundirtón, hefur eins og áður segir slegið í gegn.
Í nýjasta myndbandinu finnur kona óboðinn gest í heita pottinum heima hjá sér. Þar er Ugla tré mætt í ákveðnum tilgangi.
„Hvað er í gangi hérna? Hver ert þú eiginlega?“ spyr konan óboðna gestinn.
Svarar hann til að hann heiti Ugla tré og sé nágranni.
„Ég sá að þú varst með heitan pott og ég tók hann svona eiginnámi bara tímabundið í kvöld. Ég þarf nefnilega að æfa mig. Ég er að taka að mér ýmis verkefni fyrir ríkisstjórnina og þessir norsku kafarar eru allt of dýrir.“
Spyr Ugla tré hvort konan hafi séð að stýrivextir voru ekki lækkaðir.
„Það er allt of mikill kostnaður hjá ríkinu þannig að það er verið að þjálfa mig upp. Þeir halda að sé að koma eldislax í Selá við Vopnafjörð, dýrustu laxá landsins. Og ég á að fljóta þar og veiða eldislax á morgun því að breski auðkýfingurinn er brjálaður. Þannig að ég verð hérna eitthvað fram eftir kvöldi.“
Aðspurð hvort hún ætli að vera þarna í allt kvöld:
„Ég er bara með þetta uppáskrifað frá Kristrúnu Frosta. Vertu ekki að æsa þig yfir þessu.“