„Ég sat í kvikmyndahúsi með eldri strákum sem ég leit upp til. Í sakleysi mínu kallaði ég af innlifun: „Passaðu þig!“ þegar hetja myndarinnar lenti í hættu. Þögn kom yfir salinn og einn af þeim sem ég hafði litið upp til sagði: „Haltu kjafti, auminginn þinn.“ Það var eins og tíminn stöðvaðist, augun fylltust af tárum en enginn fékk að sjá þau. Þarna skelltist hurð sem hefur ómað innra með mér í áraraðir. Viðkvæmnin var lokuð inni í herbergi hugans, og slagbrandur settur fyrir. Kaldhæðni, fjarlægð og afneitun tóku við. Ég taldi mig ekki lengur særanlegan eða þannig sannfærði ég mig.“
Sigurður segir að hann hafi litið stórt á sig á skólaárunum og ekki látið segja sér fyrir verkum. „En undir yfirborðinu bjó ótti. Ótti við að mistakast, við að bregðast. Betra að virðast kærulaus en að reyna og falla. Smám saman fór ég að trúa því sjálfur að þetta væri einfaldlega minn eðlilegi karakter,“ segir hann.
Unglingsárin voru tími flótta hjá Sigurði. „Ég fann félaga sem hugsaði svipað og við grínuðumst með allt sem var raunverulegt og heiðarlegt. Svo komu drykkirnir, fyrst áfengi og svo sterkara. Á meðan áhrifin stóðu yfir fannst mér eins og hurðirnar opnuðust, eins og líf kæmi aftur í herbergi hugans. En þegar allt grín þagnaði var ég fastari en áður,“ segir hann.
Sigurður segir að hegðun sem átti að veita honum frelsi hamlaði honum enn frekar.
„Ég valdi aðstæður sem héldu mér í sömu gömlu mynstrunum og uppreisnin sem eitt sinn verndaði mig, varð að fjötrum. Ég hélt áfram að klæðast grímunni ekki vegna styrks, heldur vegna ótta,“ segir hann og heldur áfram:
„Í gegnum lífið og með tímanum kviknaði innsýn. Ég áttaði mig á því að stærsta fangelsið var ekki heimurinn í kringum mig, heldur það sem ég ól innra með mér. Fangelsi hugans, byggt úr ótta, skömm og bældum minningum sem ég hafði ég sjálfur smíðað, múrstein fyrir múrstein.“
Sigurður segir að einlægni hafi hjálpað honum að finna leiðina til frelsis. „Með því að segja: „Ég get þetta ekki lengur, viltu hjálpið mér.“ Að leita hjálpar og horfast í augu við sársaukann og snúa aftur inn í herbergin sem höfðu verið læst svo lengi að ég hafði gleymt þeim. Þar leyndust minningar, mistök og missir, en líka dýrmæt innsýn, tenging og styrkur.“
Sigurður hefur hitt ótal manns sem hafa gengið í gegnum svipað og hann. „Ég sé sársaukann í augum þeirra, stífleika í líkamsstöðunni og þungann á herðum þeirra. Ég sé hann líka í ungmennum sem eru að stíga sömu skref og ég, jafnvel áður en þau hafa fengið raunverulegt tækifæri spreyta sig í lífinu.“
Að lokum segir hann að stærsta skrefið sem hann tók hafi líka verið það einfaldasta: Að segja það orð sem opnaði fyrstu hurðina. Hjálp!“
Lestu pistilinn hans í heild sinni hér.