O (Hringur), með Ingvar E. Sigurðsson í aðalhlutverki, hlaut um helgina tvenn verðlaun á DRIM SFF alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Norður-Makedóníu.
Dómnefndin var einhuga í niðurstöðu sinni og veitti myndinni annars vegar verðlaun sem besta mynd hátíðarinnar sem og besta mynd hátíðarinnar í alþjóðlegum flokki.
Úrskurður dómnefndarinnar var svohljóðandi: „Kvikmynd sem sker sig úr fyrir dýpt sögunnar, snilldarlega leikstjórn, frábæran leik og áhrifamikla myndatöku. Um er að ræða heilsteypt afrek á öllum sviðum kvikmyndagerðar, ekki aðeins tæknilega heldur líka tilfinningalega, mynd sem lætur engan ósnortinn.”