Sara gerði þetta að umtalsefni í pistli á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi, en greint var frá því í sumar að hún hefði komist inn í námið. Í færslunni segir hún að hún þurfi að leita þurfi býsna langt aftur til að finna viðlíka tilhlökkun. „Líklega aftur til jólanna sirka 7 ára,” segir hún.
Sjá einnig: Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“
„Ég sagði næstum engum frá því að ég ætlaði í inntökuprófið. Ákvörðunina tók ég í desember síðastliðnum þegar að ég, orðin þreytt á pólitík og látunum þar og eðli þess leiks að þurfa endalaust að vera að reyna að sannfæra aðra um ágæti sitt – núna vildi ég bara þurfa reiða mig á sjálfa mig,“ segir hún.
Sara segist hafa gert sér grein fyrir því að gaman yrði að byrja að læra aftur en ekki að það yrði svona gaman. „Algjör botnlaus nautn, gleði og lífsfylling. Þvílík forréttindi að læra um þennan heim, þessa tilveru, þetta magnaða líf!“
Hún segir að með árunum hafi hún öðlast meira og dýpra þakklæti gagnvart því að læra.
„Þegar að maður er ungur heldur maður að allt þurfi að gerast þá. Fara í nám, eignast börnin, giftast, koma yfir sig skjóli… Og að eftir það geti maður ekki breytt neinu stóru. En hvað ef að maður á sér ennþá óuppfyllta drauma? Eiga þeir bara að deyja drottni sínum? Mér finnst það ekki. Lífið og dagarnir í því er of dýrmætir til þess að reyna ekki að minnsta kosti á láta þá rætast.“
Sara er komin af læknafjölskyldu því faðir hennar er læknir sem og systir hennar og mágur.
„Ég dáist alltaf af samtölunum þeirra um þennan heim læknisfræðinnar. Verið forvitin um orðalagið og greiningar og ólík svið innan hans. Hvernig er hægt að hjálpa fólki í veikindum og fyrirbyggja.. Hugfangin.“
Sara segir að það hafi komið hennar nánustu í opna skjöldu þegar hún sagði frá því að hún hefði komist inn og ekki síður þegar hún sagði þeim að þetta hefði verið draumur hennar lengi. Þeir höfðu nefnilega ekki hugmynd um það.
„Ég hef verið nokkuð hugsi hvað þetta atriði varðar síðustu vikur og reynt að komast að því hvers vegna þetta er. Í gær fattaði ég hvers vegna: ég held a.m.k. að það sé vegna þess að mér finnst það bara svo sjálfsagt. Að allir bara hljóti að vilja verða læknar og það sé í raun draumur allra. En að sjálfsögðu er það ekki þannig. En það er minn og hann byrjar að rætast í fyrramálið. Ég get ekki beðið,“ sagði Sara að lokum.