Texti: Svava Jónsdóttir
Gísli Gíslason segist vera búinn að vera næmur varðandi hinn andlega heim síðan hann var barn en ekki gert sér grein fyrir því lengi vel. Eftir að hann missti allt sitt í hruninu, sem var mikið áfall, segist hann hafa opnast meira og hafi eftir það talað við Guð. Hann segir að Jeremía spámaður fylgi sér og að hann hafi í kjölfarið beðið sig um að skrifa bók. Gísli segist hafa skrifað bókina á tímabili þar sem Jeremía birtist honum og sagði það sem ætti að koma fram í bókinni og Gísli skrifaði niður jafnóðum. Bókin kom út í fyrravetur og heitir Sannleikurinn sem er hulinn en allir sjá.
„Ég hef alltaf verið skyggn. Ég bara vissi það ekki. Sem krakki skynjaði ég eitt og annað. Ég fór til dæmis úr líkamanum og flaug á nóttunni allt í kringum húsið heima.“
Einu sinni var hann að hjóla með vinum sínum fram hjá húsi og sagði að þar ætti hann eftir að eiga heima. Nokkrum mánuðum síðar flutti hann þangað með fjölskyldunni. Nokkrum árum eftir það var hann svo einhverju sinni rétt hjá öðru húsi og sagði að þar ætti hann eftir að eiga heima. Það stóðst. Í hvorugt skiptið höfðu foreldrar hans minnst á að þau væru að skoða húsnæði á þessum stöðum.
„Þetta hefur alltaf búið í mér en ómeðvitað. Ég var næmur en ég fattaði það ekki en þegar maður horfir til baka skilur maður það.“
Gísli Gíslason segist ekki hafa verið trúaður sem barn en að móðir sín og ömmur hafi verið trúaðar og hafi stundum farið með bænirnar með honum. Uppáhaldsbænin var Vertu, Guð faðir, faðir minn.
Gísli ólst upp á Akranesi þar sem stutt er niður í fjöru og upp í fjall og hann segir að áhugamálin hafi verið fjaran og fjallið. Hann talar um veiðar á bryggjunni, trillukarlana, sem komu í land og hann sníkti stundum í soðið.
„Það var dásamlegt að alast þarna upp. Maður átti mikið af vinum og við vorum ýmist í fjöru, að veiða síli á bryggjunni eða upp til fjalla á vorin að tína egg.“
Svo var það fótboltinn, bófaleikur og „yfir“. „Það var nú ekki lítið verið í bófaleik. Maður vildi helst alltaf vera kúrekinn en svo óx maður upp úr þessu.“
Árin liðu og drengurinn var fermdur og komst í fullorðinna manna tölu. „Mér þótti vera mjög sérkennilegt að þegar ég kom inn í kirkjuna settist ég í stól og steinsofnaði og hrökk svo upp. Þetta var mjög skrýtin stund. Ég held að enginn hafi tekið eftir þessu. Þarna gerðist eitthvað en ég veit ekki hvað.“
Hafið hefur alltaf heillað og Gísli var strákur þegar hann dreymdi um að verða sjómaður.
Hann fór að læra rafvirkjun en örlögin ætluðu honum annað áður en hann kláraði það nám. Hann fór á sjóinn og var sjómaður í um þrjátíu ár. Hann var háseti á togurum í rúman áratug en keypti síðan nokkrar trillur og fór á veiðar.
Einn daginn var hann einn á báti og leit næstum því í augun á háhyrningi sem stökk upp úr sjónum og stefndi beint á bátinn. „Þá brá háhyrningnum mikið og mér brá enn meira. Háhyrningurinn fór í keng og fór undir bátinn.“ Gísli var í töluverða stund að jafna sig.
„Málið með sjóinn er að hann veitir mér hugarró og þegar ég fer á sjóinn – hvort sem það er á kajak, togara eða hvað það er – þá finn ég frið. Það eru hreinar línur að sjórinn kallaði á mig vegna þess að þar fann ég frið. Svo voru tekjurnar góðar og vinnutíminn þægilegur.
Staðreyndin er að ég held að það sé eitthvað til í því þegar sagt er að það sé salt í blóðinu. Þetta bara kallar á mann.“
Hann segist oft hafa lent í hættu á sjónum og þá sérstaklega á trillunum sem hann átti. Hann talar um ótrúlega vond veður en segir að hann hafi aldrei orðið hræddur. „Eftir því sem verra veðrið var því betra skapi var ég í.“
Hann hefur dottið á milli skips og bryggju. „Það var á trillu sem lá við bryggju í Ólafsvík. Þá var ég að flýta mér upp í sjoppu og endaði á bakinu á milli. Ég var mjög fljótur upp úr. Það var stutt og gott bað.“
Hann, sem segist vera næmur, er spurður hvort hann hafi einhvern tímann upplifað eitthvað óútskýranlegt á hafi úti og Gísli segir að hann hafi aldrei upplifað sig einan á sjó. Hann segist aldrei hafa séð neitt óútskýranlegt en þó fundið fyrir nærveru. Hann hefur séð eitthvað skjótast út undan sér en þó var þar enginn.
Gísli reri á tímabili með föður sínum. Í eitt skiptið lágu þeir undir stórum netabáti og þá opnaði skipverji þar kýraugað og sagði að þeir væru ekki einir á bátnum. Svo lokaði hann kýrauganu. Faðir Gísla hafði heyrt að maðurinn væri skyggn. Feðgarnir fóru stuttu síðar að leggja grásleppunet í blankalogni. Á netaborðinu lá bauja sem átti að fara í næstu trossu. Allt í einu datt hún í hafið sem átti ekki að geta gerst þar sem það var blankalogn. Gísli kallaði á föður sinn að snúa bátnum við og beygði báturinn fram hjá gömlu netatrolli sem var á floti. Hann segir að báturinn hefði farið í það og fest það í skrúfuna og stoppað ef baujan hefði ekki farið í sjóinn. Hann vill meina að „sá sem var um borð“, en þó ekki, hafi ýtt baujunni í sjóinn.
„Ég var einu sinni á sjónum og vissi að það væri að koma snarvitlaust veður. Við urðum að hafa hraðar hendur til að draga og komast heim áður en veðrið skylli lá. Og ég dró frekar hratt. Ég teygði fram aðra höndina sem ég notaði til þess að stjórna spilinu og í því fór krókur á kaf í hendina og ég gat ekki stoppað spilið og hendin dróst að því. Svo heyrðist smellur og slitnaði taumurinn áður en hann fór í slítarann. Ég get ekki útskýrt þetta en þetta gerðist og ég held að einhver hafi lagt mér lið. Þetta var mjög skrýtið af því að ef ég hefði farið í spilið þá hefði hendin farið mjög illa út úr því.“
Talið berst að orkunni á hafi úti og segir Gísli að um leið og hann stígur í land byrji allt ruglið. Orkan verði öðruvísi. „Ég get nefnt þér dæmi. Ég byrjaði að reykja út af asnaskap. Ég reyndi mikið að hætta að reykja. Við vorum einu sinni á togara í fimm daga túr og mér tókst að hætta að reykja. Um leið og ég steig upp á bryggjukantinn helltist yfir mig löngunin í sígarettu og ég byrjaði aftur að reykja. Þetta var eitt tilfelli en reykingasagan er langloka.“
Það eru stormar í náttúrunni og stundum í lífinu sjálfu og þekkir Gísli það en hann fór illa í hruninu og missti allt sitt. Það var auðvitað mikið áfall sem hefur haft áhrif.
„Ég seldi trilluna rétt fyrir hrun og langaði til að fara að gera eitthvað annað en vissi ekki hvað. Þegar maður er búinn að vera lengi í einhverju þá langar mann að breyta til; að horfa til dæmis á fréttirnar. Ég lét glepjast af svokallaðri einkabankaþjónustu. Ég gerði mér enga grein fyrir því hvað ég var að gera þar af því að ég hef ekki nokkurt vit á þessum markaði. Ég ætla ekki að segja annað um þá einstaklinga sem unnu þar en að Guð blessi þá af því að ég myndi ekki vilja vera þeir. Að fara svona illa með fólk er gríðarleg ábyrgð.
Það fór allt. Allar mínar eignir fóru. Ég stóð uppi eftir þetta bara með fötin mín.
Ég hafði átt hús en ég tók rangar ákvarðanir. Ég var sjómaður og var góður í því en svo var ég plataður í þessa einkabankaþjónustu. Ég lét glepjast af því. Þar er skömmin mín. Þeir hreinlega stálu peningunum. Það var bara svoleiðis. Ég viðurkenni að græðgin var náttúrlega að drepa mig fyrir hrun; ég féll svolítið á henni. Skynsamlegast hefði verið að leggja peningana inn á bók. Reyndar var mér ráðlagt það af góðum bankamanni á Akranesi en mér fannst meira spennandi að verða ríkari þannig að ég féll á græðginni.“
Gísli talar um reiðina.
„Ég varð reiður og reiðin hafði mjög neikvæð áhrif á mig í svolítinn tíma vegna þess að það komu upp hugsanir um að gera jafnvel eitthvað í þessu – láta þetta fólk finna fyrir því hvað það hafði gert. En af því að það er gott í manni þá gerði maður aldrei neitt. Það greri fyrir þessi sár með tímanum. Þetta tók tíma.
Ég þurfti svolítið að vinna í sjálfum mér til þess að fyrirgefa þessu fólki og ég gerði það fyrir rest. Í dag vorkenni ég þessu fólki af því að ég myndi ekki vilja hafa svona skuldir á bakinu og þá á ég við skuldirnar sem myndast þegar fólk brýtur á öðrum. Þeim hefur kannski liðið ágætlega og hafa grætt mikla peninga og komist vel frá þessu sjálf en staðreyndin er sú, og það er alveg skýrt, að það sem fólk gerir öðrum mun það taka út og þessi sæluvíma að græða peninga á annarra kostnað breytist í kvalir þegar fólk fellur frá. Þess vegna vorkenni ég þessu fólki. Ég get ekki annað.“
Þetta var mikið áfall. Það hefur eitthvað gerst en Gísli segist í kjölfarið hafa opnast hvað varðar andlega heiminn.
„Það gerðist ekkert með hausinn á mér.
Ég fór að hlæja um daginn. Ég var að hlusta í útvarpinu á viðtal við sálfræðing um að áföll geti opnað fólk. Hann átti við að þetta tikki oft inn þegar þeir sem eru næmir og skyggnir lenda í áföllum. Það gerist eitthvað. En það er ekki af því að við opnum fyrir það. Það er af því að teymi hinum megin hjálpar okkur og fylgist með okkur. Og þegar þeir sjá að við erum orðin mögulegt efni sem hægt er að nota, annaðhvort sem miðlar, heilarar eða bara til að hjálpa fólkinu í kringum okku, þá koma þeir inn. Ástæðan er að þegar fólk er langt niðri þá er það réttasti staðurinn til að byggja það upp.“
Gísli kannast ekki við að áfallið hafi líka haft áhrif á svefn og matarlyst.
„Ég er sjómaður. Ég er vanur alls konar rugli,“ segir hann og hlær. „Ég var bara ekki vanur því að vera svikinn svona. Ég var ekki vanur því að fólk myndi ekki missa svefn yfir því að taka heimilið af mér eða börnunum mínum. Taka framtíðina af mér eða börnunum.“
Hann segir að auðvitað fylgi því reiði og heift eins og þegar hefur verið minnst á en hann segir það ekki hafa verið vandamálið. „Ég þekkti ekkert fjármálageirann. Ekki neitt. Ég hafði ekkert vit á honum eða kannski smá. Og ég reyndi. Þegar mig var farið að gruna að ekki væri allt með felldu bað ég þá um að kaupa erlenda mynt eða dollara fyrir allan peninginn sem ég átti.
Þá sögðu þeir við mig að þetta væri vitleysa af því að það væri ekkert að en þeir gætu gert annað fyrir mig; þeir gætu sett mig í að veðja á krónuna. Ef hún myndi hækka þá myndi ég græða og ég væri í betri málum þar. Þá settu þeir mig inn í veðbanka sem óreyndur maður mátti ekki fara í. Eingöngu fagfjárfestar mega fara í þetta en þeir gerðu hvað sem er til að hafa fé af fólki. Ef þeir hefðu hlýtt mér þá hefði ég ekki misst allt. Ég segi að þegar fólk ástundar það að hafa fé af öðrum og er óheiðarlegt þannig að það kostar aðra eigur eða eitthvað annað og gengur á aðra sál þá er það að brjóta gegn Guði og það hefur afleiðingar. Það er það sem ég er að reyna að segja fólki. Og eina leiðin fyrir þetta fólk er að snúa sér að Guði og bæta fyrir ráð sitt.“
Gísli var kvæntur maður og eiga hann og eiginkonan fyrrverandi saman tvo syni. Þau skildu og Gísli kynntist íslenskri konu sem bjó í Svíþjóð og flutti út og bjuggu þau saman í eitt og hálft ár. Svo tók það samband enda og bjó hann áfram í Svíþjóð í eitt og hálft ár en flutti þá heim.
Hann fékk starf í fyrirtæki dóttur sinnar, sem hann á úr fyrra sambandi, og tengdasonar við að þvo bíla. „Ég var hinn ánægðasti með það. Svo var mér boðið þar starf við að fara að undirbúa bíla undir málningu. Það er eitt af skemmtilegustu störfum sem ég hef verið í. Það er ofsalega gaman. Listamaðurinn í manni kemur upp vegna þess að maður fer í eitthvað sem er skakkt og skælt og það þarf að verða fínt. Ég vinn með ryð og beyglur.“
Gísli segir að eftir að hann opnaðist eftir hrun hafi hann meðal annars farið að skynja látna sem hann segist reyna að hafa sem minnst samskipti við.
„Þegar maður er búinn að vera í andlegum málum í kannski ákveðin mörg ár þá fer nýjabrumið af þessu og það má segja að ég hafi dregið mig út úr þessu síðastliðið ár. En að sjálfsögðu er það þannig að þegar maður er andlegur þá hættir maður ekkert að skynja. En ég hef meira vit á því að þegja en áður.“
Er Gísli með heilunarhæfileika? Hann segir að móðir sín segi að hann sé með heitar hendur. „Aðallega er það þannig að ég bið fyrir fólki.“
Hann er spurður hvernig þessi næmni hafi gert fyrst vart við sig eftir hrunið.
„Ég var í göngutúr og settist niður í hugleiðslu og allt í einu sat álfur á öðru lærinu á mér, blómálfur. Hann var kannski 10 til 15 sentímetrar á hæð. Upp frá því gerðist ansi margt.
Það sem gerðist í raun og veru er að það var unnið markvisst með mig að því að leiða mig á rétta braut. Ég gekk inn í andlega samfélagið, hitti þar mikið af góðu fólki og á þar marga góða vini. Smátt og smátt fóru að renna á mig tvær grímur með andlega samfélagið. Ég var ekki alltaf sammála því og dró mig smátt og smátt út úr því. Í þessum heimi er bæði ljós og myrkur. Ljósverurnar sækja í okkur en hinar gera það líka.“
Þögn.
„Það er vandamál. Og andaheimurinn er mjög flókinn af því að það eru örfáir sem í raun og veru ná að sjá í gegnum hver er ljós og hver er myrkur. Í hinu daglega lífi veit fólk ekki hvað býr með hverjum.
Næmnin hefur aukist nokkuð jafnt og þétt. Það er voðalega skrýtið með þetta andlega. Maður var voðalega forvitinn um þetta og svo vildi maður fara á alls konar námskeið. Ég reyndi það en þá átti ég annaðhvort ekki pening eða tíminn hentaði ekki. Ég var smástund að átta mig á því að þeir kenna mér allt sem ég á að kunna. Maður nær sínum þroska í gegnum lífið. Þegar fólk lendir í áfalli brotnar eitthvað í því og það fer niður á við sem veldur því að það spyrnir sér frá botninum og þá nær það ákveðnu þroskastökki. Þetta skeður aftur og aftur þar til það nær meiri þroska.“
Og Gísli segist vera að ná meiri þroska. Hann er spurður hvernig það lýsi sér.
„Hvað á ég að segja? Það er kannski best að lýsa því í sambandi við einn vinnufélagann. Hann hefur sagt að það sé svo merkilegt við mig að ég er alltaf í góðu skapi. Það er í raun og veru það sem gefur mér svo mikið og lætur mér líða vel og það er partur af því að fara í gegnum þetta andlega. En eftir að ég fór inn í trúna; biddu fyrir þér. Breytingarnar á manni! Og hvað manni líður betur! Maður finnur að maður er ekki einn. Þetta er bara allt annað líf fyrir mig. Ég reyni að fara í kirkju á hverjum einasta sunnudegi og mér líður mjög vel eftir messur 0g svo fer ég í hleðslu næsta sunnudag. Ég lít þannig á það þegar ég fer í kirkju að ég fari í hleðslu til að eiga í samskiptum við Guð í kirkjunni. Líkami minn hleðst og ég fæ meiri orku inn í vikuna en ella.
Og að sjálfsögðu á ég alla daga mitt samtal við Guð.“
Gísli, sem segist minna vera í þessum málefnum í dag og geta lokað fyrir næmnina, sagði að andaheimurinn sé flókinn og hann segir að hann sé ekki dans á rósum. „Maður gengur í gegnum ýmislegt til þess að þroskast svo að andaheimurinn hafi not fyrir mann. Af því að nái maður ekki þroska þá nær maður ekki að koma frá sér því efni sem maður þarf.“
Hann segir að þeir sem eru næmir finni fyrir meira áreiti en aðrir á meðal fólks og þess vegna sæki margir næmnir í einveru og út í náttúruna.
„Manneskjan hefur áru og þegar maður er næmur og gengur fram hjá manneskju þá er hennar basl allt í einu orðið manns eigið. Kannski ekki lengi en í einhvern tíma. Svo hittir maður fleiri og þetta getur verið svolítið snúið. Ég hef gert ýmislegt til þess að verja mig fyrir þessu en það er enginn hægðarleikur. Þetta er eins og ryksuga sem er alltaf í gangi. Hún bara tekur það sem er fyrir henni.“
Það getur líka verið misgott að vera innan um fólk.
„Sumir eru ekki vel innrættir og það er mjög erfitt að vera í kringum þá. Að sama skapi eru aðrir vel innrættir og er mjög gott að vera í kringum þá. Ég finn mikinn mun á því fólki sem er trúað og fer með bænir og hinum. Það er eitthvað svo gott sem fylgir þeim fyrrnefndu. Það er ekki góð orka þar sem áfengi er mikið haft um hönd. Svo getur verið „krípí“ fyrir næmt fólk að fara á staði þar sem slæmir atburðir hafa átt sér stað. Þar líður því ekki vel og þarf að fara. Það er ekkert einfalt að vera svona. Það er miklu þægilegra að vera bara einn af öllum og vera ekkert að spá í þetta. En mitt hlutskipti er ekki að ganga með fjöldanum. Það er víst ábyggilegt. Ég hef reynt að vera eins og hinir en það bara gengur ekki upp að vera ekki andlegur heldur bara venjulegur.“
Hann fann frið og ró á sjónum og hann finnur frið og ró úti í náttúrunni og fer stundum einn til fjalla.
„Nú ætla ég að segja þér svolítið skrýtið. Ári áður en eldsumbrotin á Reykjanesskaganum hófust tók ég eftir því að álfarnir og huldufólkið þar voru að pakka niður og fara. Þegar ég var að ganga í Heiðmörk og í kringum Reykjavík sá ég að bústaðir þeirra voru tómir. Huldufólkið var bara farið. Og þetta þótti mér vera skrýtið. Ég tók því svo þannig að þetta hefði verið undanfari umbrotanna á Reykjanesskaga. Flestar náttúruverurnar eru fluttar norður í land.“
Þögn.
„En mannfólkið er alsælt og heldur áfram að byggja og byggja þó að náttúruverurnar séu farnar af því að þær vilja ekki vera þarna.“
Hann segist vita fyrir víst að tíðnisviðin séu mörg. „Við skulum taka álfana sem dæmi. Við skulum bara halda okkur á jörðinni. Álfar eru kristnir. Þeir trúa á Guð. Um allt land eru kirkjur sem kallast álfakirkjur og margar þeirra hef ég séð og heimsótt. Ein af þeim fallegustu sem ég hef séð er inni við Þórsmörk, fyrir innan Bása. Hún stendur þar uppi á klöpp og gnæfir yfir allt. Hún er mjög stór. Þetta var svolítið merkilegt þegar ég uppgötvaði það að álfar eru kristnir. Finnst þér það ekki vera svolítið merkilegt? Þetta er ekki nýtt orð, álfakirkja. Ég er ekkert að finna þetta upp. Það er einhver annar sem fann þetta upp,“ segir Gísli og hlær.
Eru þá til álfaprestar?
„Væntanlega. Ég hef reyndar ekki séð þá. En það hlýtur að vera vegna þess að ég hef séð messu.“
Í hugleiðslu?
„Já. Hugleiðsla er mér svo eðlileg. Ég get verið í hugleiðslu hér og nú. Ég get verið í hugleiðslu þegar ég er að vinna. Hugurinn fer frá mér þangað sem ég beini honum.“
Gísli segir að leiðbeinendur sínir séu sendiboðar Guðs. Hann talar um Arnar sem sé ævaforn. Hann segir að miðill sem hann hafi einu sinni farið til hafi sagt frá honum. „Eftir það sýndi Arnar mér í hugleiðslu brot úr lífi sínu, meðal annars hvernig hann dó. Það hefur ábyggilega verið mjög sárt af því að hann fékk spjót í gegnum sig. Það eru villimenn til núna og það voru villimenn í gamla daga líka.“
Hann segir að látnir ættingjar fylgi sér líka.
„Ég átti hund þegar ég var unglingur sem hét Kátur og hann fylgir mér öllum stundum. Ég hef séð hann. Hann er sprelllifandi. Hann kemur stundum og leggst á mig eða liggur við hliðina á mér.“
Þeir eru þá enn þá góðir félagar.
„Hann passar mig.“
Gísli heyrir ekki lengur geltið í honum.
„Nei. Hann þarf ekki að gelta.“
Og Gísli segir að Jeremía sé einn af leiðbeinendunum. „Hann er nú þekktur sem spámaður. Hann er partur af Biblíunni og prestarnir tala reglulega upp úr hans ritum.“
Gísli sagði að hann hafi ekki verið trúaður sem barn.
„Ég var í raun og veru ekkert mjög trúaður sem fullorðinn þó að ég væri andlegur og það tók mig svolítinn tíma að finna trúna. Ég var eins og flestir aðrir; jú, ég trúði að það væri eitthvað þarna úti, eitthvað æðra, en leiddi hugann svo sem ekkert að því. En ég áttaði mig á því að andaheimurinn er heimur Guðs.“
Það gerðist eitthvað um þremur árum eftir áfallið og eftir að Gísli fór að upplifa hinn andlega heim.
„Það var þannig að ég var í hugleiðslu. Leiðbeinendur mínir, sem eru sendiboðar Guðs, sögðu mér að það væri náungi sem vildi hitta mig og báðu mig um að koma með sér þannig að ég fór í andanum með þeim. Þeir fóru með mig upp á ofsalega ferð og bara endalaust upp. Við nálguðumst rosalega mikið ljós og ég þurfti eiginlega að píra augun af því að það var svo skært. Þegar við komum að þessu mikla ljósi var það eins og ský, alveg svakalega mikið ský, og við fórum inn í það. Þá heyrði ég röddina hans. Hann sagði við mig: „Ég er drottinn Guð þinn.“
Þögn.
„Og það sem kom í kjölfarið verð ég að hafa fyrir mig af því að það voru persónulegar leiðbeiningar í lífinu. En röddin hans og styrkurinn; andalíkami minn nötraði þegar hann talaði. Ég hef aldrei upplifað svona áður, aldrei nokkurn tímann. En hann sagði mér að hann myndi fylgja mér og leiða mig í framtíðinni og ég myndi hjálpa honum að leiða mannfólkið. Koma skilaboðum til mannfólksins.“
Einhver tími leið og segir Gísli að í hugleiðslu einn daginn hafi Jeremía beðið sig um að skrifa bók. Gísli segist hafa heyrt huglægt í honum. „Ég bæði sé hann og heyri hann tala. Ég á bara samskipti við hann eins og ég á samskipti við fólk sem situr fyrir framan mig. Þegar ég er í þessu ástandi er hann jafnraunverulegur og lifandi fólk.“
Og hann segir hvernig bókaskrifin áttu sér stað.
„Þetta fór þannig fram að á ákveðnum tíma á hverjum degi settist ég niður og byrjaði á því að laga til í kringum mig. Ég lagaði sjálfan mig og var í góðu jafnvægi. Og þegar ég var búinn að gera allt klárt kom Jeremía og settist fyrir framan mig við eldhúsborðið og svo fór ég að skrifa. Ef ég ætlaði að grípa fram í eða fara eitthvað þá stóð hann upp og fór. Þannig að stundum skrifaði ég bara eina setningu og svo var hann farinn. Stundum skrifaði ég heila blaðsíðu. Þetta er gert til þess að það sem kemur í gegn sé hreint og sé eins og það á að vera. Þegar maður er skyggn er maður svolítið eins og útvarp. Maður verður að passa á hvaða rás maður stillir.“
Gísli segist hafa séð Jeremía.
„Hann var yfirleitt í mjög ljósum kufli. Hann er dökkhærður og með sítt skegg. Ég skil ekkert í að hann skuli ekki raka sig.“ Hann hlær. „Ég myndi ekki nenna að vera með þessar lufsur í andlitinu.
Þetta er miðluð bók. Ég skrifaði hana bara niður og skrifaði það sem mér var sagt. Það merkilega við bókina er að hún kemur svolítið eins og hvatning og áminning fyrir fólk, að það hugsi aðeins út í það hvert það er komið og hvert það ætlar að fara. Í dag sérstaklega hefur verið unnið markvisst í því að kasta trúnni fyrir borð. Við erum orðin svo klár að við þurfum engan Guð. Fólk hefur ekki tíma til að sinna sálinni sinni. Vandamálið er að þá er fólk ekki í góðum málum. Bókin kemur sem einhvers konar leiðsögn fyrir mannfólkið, ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir alla. Margir, jafnvel ókunnugt fólk, hafa haft samband og sagst núna skilja. Fólk sem hefur spáð og spekúlerað í lífinu. Fólk fær útskýringar á því sem það hefur verið að burðast með en ekki skilið.
Bókin er fyrir það fyrsta mannbætandi af því að hún gefur fólki. Það má segja að þetta sé tækifæri lífsins fyrir þá sem ekki trúa eða fyrir þá sem eru annarrar trúar. Þessi bók er náttúrlega mjög merkileg að því leytinu til.
Jeremía varð tíðrætt um að í húsi föðurins séu mörg herbergi. Og þegar sálin fellur frá þá skipta gjörðir viðkomandi í lifanda lífi viðkomandi á ákveðin svið. Ég skal einfalda þetta og segja að það séu tíu heimar hinum megin og ef viðkomandi hefur hagað sér illa og til dæmis meitt fólk eða selt því fíkniefni og skemmt þar með líf annarra þá fer það allt á reikning viðkomandi. Ég get sagt þér það að þeir sem koma illa fram við aðra, dýr eða náttúruna eiga ekki bjarta framtíð hinum megin. Þeir fara á lægri svið. Þeir geta heimfært það þannig að það verður tíu þúsund sinnum verra en versti dagur sem þeir hafa lifað í lifanda lífi. Það er ekkert grín að koma illa fram við aðra.
Lífið er lærdómur. Maður gengur í gegnum eitt og annað og það að fara illa með aðra hefur afleiðingar fyrir þann sem kemur illa fram eftir að hann fellur frá.“
Bókin heitir Sannleikurinn sem er hulinn en allir sjá. „Heiti bókarinnar vitnar svolítið í það að mannfólkið veit en það kýs að horfa ekki. Þannig að það er svolítið hulið. Nú er svo komið að fólk verður að fara að átta sig á því að það er mikið í gangi. Og þeim liggur mikið á að koma fólki í skilning um það að það þurfi að fara að sinna andlega hlutanum. Það er ágætt að hafa veraldlega hluti í kringum sig en við komum öll til með að fara yfir móðuna miklu og það verður allt eftir.
Málið er að maðurinn er líkami, hugur og sál. Og sálin er það sem fer áfram. Það er hennar hagur að við mannfólkið förum að sinna trúnni. Jörðin er frekar lítil og það er bara einn Guð en mannfólkið hefur búið til fullt af guðum. Kristur kom til jarðarinnar eins og við vitum og fyrir þá sem ekki vita var Kristur Guð. Hann var Guð í líkama. Það hefur engin manneskja getað það sem hann gerði. Hann hafði fulla stjórn á efninu. Hann gat læknað fólk á augabragði. Hann gat stillt ofsaveður. Það er engin manneskja sem getur þetta nema Guð.“
Gísli segir að bókarskrifin hafi breytt sér. „Bókin breytti því að ég sannfærðist í trúnni. Trúin á Guð er mjög erfið af því að samfélagið reynir að ýta trúnni út af borðinu eins og við þurfum ekkert á henni að halda. Og flestir sem ég þekki í daglega lífinu og eru ekki í andlega heiminum telja að það sé ekkert eftir dauðann og að það eigi bara að njóta og svo sé þetta búið. En fólk hefur svo rangt fyrir sér að það hálfa væri nóg.
Bókin er tækifæri. Hún er tækifæri til að breyta rétt.
Ég ætla að biðja fólk um að lesa bókina með opnum hug og setja hana í samhengi við það sem það hefur heyrt í kirkjunum. Og ég ætla að biðja fólk um að lesa þessa bók og skoða hvað er í gangi og átta sig á að heimurinn er að breytast hratt. Það þarf ekki nema að horfa á fréttirnar til að sjá hvað er í gangi. Ég ætla að biðja fólk sjálfrar sín vegna að endurskoða hlutina. Það er ekki mikið að kynna sér trúna, mæta í kirkju einu sinni eða fjórum sinnum í mánuði og sinna guði.
Ég ætla að segja þér í lokin í sambandi við þessa bók og það sem ég er að gera núna. Ég skrifaði þessa bók og komst í mikið uppnám vegna þess að ég gerði mér grein fyrir því að ef ég myndi láta þetta þetta efni frá mér þá myndi ég annaðhvort fá á mig skít eða meiri skít vegna þess að þeir sem ekki trúa vilja ekkert með þetta hafa. Ég hef verið þar að trúa ekki. Og ég skil það. Ég gerði mér grein fyrir að ég myndi kannski vekja á mér athygli sem mig langar ekki til. En á móti kemur að þegar maður er beðinn um eitthvað svona frá himnum þá gerir maður það. Sama hvað. Vegna þess að þegar upp er staðið og ég kem til með að skilja við líkamann þá ætla ég að hafa gert mitt.“