Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake hefur greint frá því að hann glímir við Lyme-sjúkdóminn – bakteríusýkingu sem smitast með skógarmítlum og getur valdið langvinnum veikindum. Hann greindi frá veikindunum í einlægri færslu á Instagram þar sem hann sagði að hann hafi lengi þjáðst án þess að skilja hvað væri að.
„Ég segi þetta ekki til að fá vorkunn – heldur til að varpa ljósi á það sem ég hef verið að glíma við bak við tjöldin,“ skrifaði Timberlake, sem er nú 44 ára, í færslunni.
Lyme-sjúkdómur getur valdið flensulíkum einkennum, þreytu, taugaverkjum, liðbólgum og jafnvel lömun í andliti. Timberlake segir að einkenni hans hafi verið svo slæm að þau fóru að hafa áhrif á frammistöðu hans á sviði, sem varð tilefni harðrar gagnrýni í samfélagsmiðlum á meðan tónleikaferð hans stóð yfir.
„Ég var annaðhvort með mikla taugaverki eða bara algjörlega örmagna á sviðinu. En ég ákvað að halda áfram, gleðin sem fylgir því að koma fram vegur upp á móti álaginu á líkamann,“ skrifaði hann.
Lyme-sjúkdómurinn hefur farið vaxandi í Bandaríkjunum og hefur vakið sérstaka athygli að hann hefur greinst hjá fjölda fræga einstaklinga, þar á meðal Justin Bieber, Bella Hadid, Ben Stiller, Miranda Hart og Kelly Osbourne.
Hafa því sérfræðingar óneitanlega byrjað að spyrja sig hvort að frægð og ríkidæmi getur aukið líkurnar á fólk fái sjúkdóminn. Óvísindalegar niðurstöður eru á þá leið að efnaðir einstaklingar hafi betra aðgengi að skóglendi, sumarbústöðum og stórum görðum, þar sem mítlarnir leynast.
„Þeir sem hafa meiri tíma og peninga til að njóta náttúrunnar, og búa jafnvel í húsum sem liggja að skógi, geta verið útsettari,“ segir prófessor Paul Hunter við Daily Mail.
Að greina Lyme-sjúkdóm getur verið erfitt, sérstaklega ef einkennin eru langvinn. Sumar einkastofur bjóða upp á greiningar sem heilbrigðisyfirvöld viðurkenna ekki og greiningin getur verið dregin í efa.
„Sumir fá vissulega langvarandi einkenni, en það eru líka margir sem halda að þeir séu með Lyme þegar um er að ræða önnur heilsufarsvandamál,“ sagði Hunter. Einkenni eins og höfuðverkur, liðverkir, svimi, hjartsláttartruflanir og taugaverkir eru algeng í ýmsum sjúkdómum og aldurstengdum kvillum.