Melinda French Gates, fyrrverandi eiginkona Bill Gates, segist hafa neitað að fjárfesta í nýju fyrirtæki dóttur sinnar. Hún vilji ekki ala upp forréttindabarn og það sé mikilvægt að dóttir hennar kynnist viðskiptalífinu með raunsæjum hætti.
Melinda ræddi málið við t ennisgoðsögnina Billie Jean King í pallborði á ráðstefnunni Power of Women’s Sports Summit á dögunum.
Phoebe, dóttir Melindu og Bill, stofnaði nýverið gervigreindar-tískuforritið Phia ásamt herbergisfélaga sínum úr Standford-háskóla, Sophia Kanni. Forritið notar gervigreind til þess að bera saman verð á fötum úr yfir 40 þúsund netverslunum um gjörvallt internetið.
Melinda stendur hins vegar föst á því að hún muni ekki styðja við dóttur sína með fjárgjöfum. „Við viljum ekki að þetta sé fjármagnað af fjölskyldu minni. Við viljum að þetta sé raunverulegt fyrirtæki,“ sagði hún.
Melinda hefur lengi verið talskona jafnréttis og kvenréttinda og segir mikilvægt að dóttir hennar kynnist raunveruleikanum í viðskiptum. „Ef þetta er raunverulegt fyrirtæki, þá munu aðrir styðja það. Ef ekki, lærir hún að takast á við höfnun,“ sagði Melinda.