Kántrý-söngvarinn Gavin Adcock er ekki ánægður með tónlistarkonuna Beyoncé sem undanfarið hefur reynt fyrir sér í kántrý. Hann telur að Beyoncé ætti að halda sig við það sem hún þekkir frekar en að þykjast vera kántrýstjarna.
Myndband fór í dreifingu í vikunni sem er tekið upp á tónleikum Adcock en þar virðist hann vera nokkuð í glasi þegar hann tilkynnir aðdáendum: „Það eru bara þrjár manneskjur ofar mér á Apple Music-listanum fyrir kántrýtónlist og ein þeirra er Beyoncé. Þið getuð sagt henni að við ætlum að ná í fokking rassgatið á henni“
Áhorfendur fagna þessu og þá bætir Adcock við: „Þetta drasl hennar er ekki kántrý, hefur aldrei verið kántrý og mun aldrei verða kántrý.“
Eftir tónleikana birti Adcock færslu á Instagram þar sem hann útskýrir að hann beri virðingu fyrir Beyoncé og hafi heyrt helling af lögum með henni í gegnum árin, en hann var bara krakki þegar hún sló fyrst í gegn. Hins vegar finnst honum það móðgun að hún sé nú farin að markaðssetja tónlist sína sem kántrý.
„Hún hljómar ekki eins og kántrý, þetta er ekki með kántrý-tilfinninguna og mér finnst bara ekki að fólk sem hefur helgað líf sitt þessari tónlistarstefnu og þessum lífsstíl eigi að þurfa að keppa við hana, eða þola það að plötur hennar séu á metsölulistanum, bara því hún er Beyoncé.