Það ríkir alla jafna mikil stemning á kvöldin í Húsi Máls og menningar á Laugavegi. Þar sem fólk handfjatlaði áður bækur og skrifföng af list hafa nú tekið við hljóðfæri og hljóðnemar.
Öll kvöld vikunnar stígur húshljómsveitin The Honky Tonks á stokk milli kl. 20-23, syngur og spilar af list og býður gestum upp á að biðja um óskalög. Þeim djörfustu býðst að stíga á svið og taka lagið með hljómsveitinni.
Hljómsveitin endar kvöldið oftast á laginu Shallow úr kvikmyndinni A Star is Born, sem Lady Gaga og Bradley Cooper sungu eftirminnilega, lag sem er ekki á allra færi. Býður sveitin jafnan konu úr áhorfendahópnum að taka lagið með þeim. Á miðvikudagskvöldið fyrir viku steig ung stúlka á sviðið, söng lokalag kvöldsins með sveitinni og gerði það listavel. Strákarnir höfðu þó ekki hugmynd um hver unga stúlkan væri, nema að hún væri erlendur ferðamaður.
Stúlkan gerði sér hins vegar lítið fyrir og birti myndband af söngnum á Instagram hjá sér og taggaði húshljómsveitina, kom þá í ljós að söngfuglinn er Carys Zeta Douglas, 19 ára gömul dóttir leikarahjónanna heimsfrægu Catherine Zeta-Jones og Michael Douglas.
View this post on Instagram
„Gaman að þessu,“ segir Ingólfur Sigurðsson trommuleikari sveitarinnar.
Catherine Zeta-Jones, móðir Carys, skrifar athugasemd undir myndbandið. „Carys!!!!! Frábært! Vildi að ég væri þarna. Elska þig. Skemmtu þér konunglega.“
Sigurbjörn Dagbjartsson söngvari sveitarinnar svarar athugasemdinni og segir dótturina hafa verið einn besta gestasöngvarann sem sungið hefur með þeim. „Ég fór á hnén og bað hana að koma aftur kvöldið eftir.“
Carys er með um 188 þúsund fylgjendur á Instagram og má því ætla að margir hafi séð myndbandið af henni með íslensku sveitinni. Carys er greinilega hæfileikarík þrátt fyrir ungan aldur. Hún er fædd og uppalin í sviðsljósinu, en móðir hennar hefur sagt í viðtölum að hjónin hafi lagt áherslu á að börnin væru jarðbundin og sjálfstæð. Carys hefur ástríðu fyrir tónlist, syngur og spilar á píanó. Hún hefur mikinn áhuga á tísku líkt og móðirin, og sátu þær mæðgur fyrir á forsíðu Town and Country árið 2018 og Vanity Fair árið 2019. Carys hefur sýnt áhuga á leiklistinni líkt og albróðir hennar, Dylan Michael sem er þremur árum eldri en hún, en hún hefur þó enn ekki leikið opinberlega. Hver veit nema þriðja kynslóð Douglas fjölskyldunnar verði bráðum á hvíta tjaldinu?