Stundum þurfum við ekki nema smá hvatningu til að gera róttækar breytingar á lífi okkar og það er nákvæmlega það sem Michael Hearn þurfti til að gera nauðsynlegar lífstílsbreytingar í átt að betri heilsu.
Michael, sem er í dag tæplega sextugur, sagði tímaritinu Men‘s Health sögu sína fyrir skemmstu en hann var orðinn allt of þungur þegar hann ákvað að gera eitthvað í sínum málum. Kvöld eitt horfði hann á heimildarmynd um ofurhlaupara og eftir það varð ekki aftur snúið. Michael varð heltekinn af hlaupum og í dag fer hann leikandi létt með hálfmaraþon, rúman 21 kílómetra í einu.
„Þegar ég var 55 ára var ég orðinn 200 kíló. Hver einasta hreyfing, sama hversu léttvæg hún átti að vera, reyndist mér erfið og ég eyddi eiginlega öllum tíma mínum heima eða á skrifstofunni. Það var áskorun að fara út úr húsi enda vildi ég ekki að fólk sæi ástandið á mér.“
Michael fer ekki leynt með það að það er erfitt að glíma við offitu í nútímasamfélagi þar sem dómharkan er mikil. Þá sé auðvelt að verða sér úti um hitaeiningaríkan mat og bendir hann á að stórt gosglas á veitingastöðum á borð við McDonalds kostar nánast það sama og lítið glas.
Michael segir að þegar hann fagnaði 55 ára afmæli sínu í nóvember 2018 hafi hann áttað sig á því að tíminn væri að renna út.
Michael hafði samband við lækni og eftir nokkrar heimsóknir og viðtöl var hann metinn hæfur til að gangast undir hjáveituaðgerð. Hann missti í kjölfarið 25-30 kíló og byrjaði að stunda létta hreyfingu. Nokkrum mánuðum eftir aðgerðina sá hann heimildarmynd um ofurhlaupara sem veitti honum mikla hvatningu til að fara sjálfur út að hlaupa.
„Myndin gerði það að verkum að ég setti pressu á sjálfan mig með því að setja mér markmið – markmið sem mér á einhverjum tímapunkti hefði þótt ómögulegt að ná.“
Michael segir að í fyrstu hafi hann getað hlaupið nokkur hundruð metra í senn. Með æfingu og réttum búnaði, góðum hlaupaskóm og stuðningssokkum þar á meðal, fóru vegalengdirnar að lengjast hægt og rólega.
Þá setti hann félagslegan þrýsting á sig, ef svo má segja, og setti upp Instagram-síðu þar sem hann leyfði vinum og vandamönnum að fylgjast með hlaupunum. Bendir hann á að það sé auðveldara að fara á fætur klukkan fjögur að morgni til að fara út að hlaupa ef maður er búinn að segja sínum nánustu frá því að það sé á dagskránni.
Það er skemmst frá því að segja að um tveimur árum eftir aðgerðina var Michael búinn að léttast um 90 kíló og kominn í hlaupaform sem sumir geta aðeins látið sig dreyma um.
„Í dag er ég allt önnur manneskja en á sama tíma meðvitaður um að ég var heppinn að offita mín olli engum alvarlegum skaða,“ segir hann og bætir við að hann sé einnig meðvitaður um að hann þurfi að halda áfram að hreyfa sig til að halda þyngdinni í skefjum.
Michael hefur þegar lokið við 28 hálfmaraþon og þá lauk hann sínu fyrsta heila maraþoni í fyrrahaust. „Markmið mitt á næstu fimm árum er að klára 100 hálfmaraþon í 50 ríkjum Bandaríkjanna,“ segir hann að lokum en í fyrrahaust hafði hann lokið við 28 slík hlaup í 18 ríkjum.