
Flesta dreymir um ást og rómantík sem þó er ekki auðfundin. Og þó hún finnist er það engin ávísun á að hún haldist, enda lýkur tæplega fjörutíu prósentum hjónabanda á Íslandi með skilnaði. Aftur á móti finnast enn sögur sem eru til þess fallnar að halda í trúna á ástina eins og sjá má á eftirfarandi viðtölum við hjón sem náðu að vera gift í yfir 80 ár.
Gáfum þessi ekki viku

Maurice og Helen Kay gengu í hjónaband árið 1933 og voru gift í tæp 84 ár. Aðspurð sagðist Helen aðallega hafa heillast af því að Maurice átti bíl, sem var sjaldséð á þessum árum. Maurice sagðist ekki hafa gefið sambandinu viku á sínum tíma, hvað þá yfir 80 ár, en þau hefðu lært að hlusta hvort á annað, gefa eftir og gera ekki of miklar kröfur. Maurice lést árið 2018 og að sögn dóttur þeirra var það Helen afar erfitt. ,,Henni líður eins og hún hafi misst útlim“.

Eiginkonan ræður
John og Ann Betar létust með 7 mánaða millibili árið 2019, John var 107 ára og Ann var 104. Þau höfðu gerið gift í 86 ár og eignast 5 börn, þar af tvö sem létust í hárri elli á undan foreldum sínum. Þau sögðu lykilinn vera vináttu, þolinmæði og skilning og að vera sáttur við sitt hlutskipti í lífinu.,,Og að leyfa eiginkonunni alltaf að ráða“ sagði John í viðtali rétt fyrir andlát sitt.
Samveran lykilatriði

Ralph og Dorothy Kohler voru 17 og 18 ára þegar þau reyndu fyrst að gifta sig en Dorothy hafði ekki aldur til. Þau gáfust ekki upp og löbbuðu á milli þar til þau fengu prest til að blessa hjónabandið. Dorothy lést í desember síðastliðinum, 102 ára gömul, og Ralph fylgdi henni eftir í upphafi þessa árs, 104 ára. Þau héldu því ávallt fram að lykillinn að góðu hjónabandi væri samvera og skilningur. Þau höfðu gjörólík áhugamál; Ralph var afar áhugsamur um skotfimi en Dorothy var heilluð af samkvæmisdönsum. Saman unnu þau aftur á móti hundruð verðlauna fyrir skotfimi og samkvæmisdansa meðan á hjónabandi þeirra stóð.
Hélt ég myndi missa vitið

Herbert og Zelmyra Fishcher gengu í hjónaband 1924. Á Valentínusdag árið 2011 opnuðu þau fyrir spurningar um hjónabandið á Twitter. Herbert sagði þar erfiðasta tíma lífs síns hafa verið þá tvo mánuði sem Zelmyra var á sjúkrahúsi þegar hún gekk með þeirra fimmta barn. ,,Ég hélt ég myndi missa vitið. Ég get ekki verið án hennar, ég kann það ekki“. Þau sögðu ekkert leyndarmál að baki löngu hjónabandi, þau hefðu einfaldlega alltaf tekið ákvarðanir sem væru þeim báðum og börnum þeirra fyrir bestu. Herbert féll frá 105 ára að aldri árið 2011 og Zelmyra fylgdi honum eftir tveimur árum síðar, einnig 105 ára.

Reynum að njóta lífsins
Karam og Kartari Chand voru búin að vera gift í 90 ár þegar bresku blöðin bönkuðu upp á og kröfðust svara um lykilinn að langlífi hjónabandsins. Karam taldi það af og frá fréttaefni. ,,Við þökkum hvern dag og reynum að njóta hans eins og við getum. Við höfum engan áhuga á að slá einhver met, okkur líður vel saman, hefur alltaf liðið vel saman og þangað til við verðum kölluð yfir, ætlum við að halda áfram að láta okkur líða vel saman. Þetta snýst allt um fjölskylduna og virðingu hvort fyrir öðru“. Karam féll frá 110 ára að aldri árið 2016 og sammæltust börn þeirra um að foreldrar þeirra hefðu aldrei hækkað róminn hvort við annað svo þau vissu til.