fbpx
Þriðjudagur 12.ágúst 2025
Fókus

Ferðamátar, tími og peningar: Hvað kostar korterið?

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 8. apríl 2018 12:00

Þessi uppfyllir nú ekki þessar kröfur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í eftirfarandi grein er gerður samanburður á því hversu langan tíma það tekur að koma sér á milli staða í höfuðborginni og hvað það kostar:

Eftir að vélin í hvítu súkkunni minni bræddi úr sér eftir mjög dygga þjónustu í rúmlega fimm ár ákvað ég að prófa aðrar leiðir til að koma mér á milli staða. Ég vil ekki tala um bíllausan lífsstíl, því ég nota stóran gulan bíl næstum alla daga, – en þess á milli reiðhjól, tvo jafnfljóta eða aðra bíla.

Merkilegt nokk hafa margir Íslendingar (ég segi margir því ég vil ekki alhæfa) mjög skrítið viðhorf til þeirra sem kjósa að eiga ekki bíl. Það liggur við að það sé einhver svona aumingjastimpill á þeim sem kjósa að nota strætó: „Æ greyið. Varstu að keyra full? Misstirðu prófið? Áttu lítinn pening?“ er gjarna viðkvæði þeirra fordómafullu.

Þessi viðhorf til þeirra sem velja almenningssamgöngur fram yfir það að eiga og reka einkabíl tíðkast ekki í öðrum borgum Evrópu, að mér vitandi. Í Kaupmannahöfn er það til dæmis undantekning fremur en regla að pör eða einstaklingar reki eigin bíl. Það er bæði dýrt og fyrirhafnarmikið og svo er líka afar einfalt að láta sig rúlla milli staða á reiðhjóli eða stökkva upp í næsta strætó. Ég bjó þar sjálf í rúm fjögur ár og keypti ekki bíl fyrr en ég flutti aftur til Reykjavíkur.

Í þessari samantekt er miðað við meðaltölur frá bílaleigum, rekstrarleigum og öðrum valkostum. Tryggingar, rekstrar- og viðhaldskostnaður er innifalinn í verði frá bíla- og rekstrarleigum og bensínkostnaðurinn er innifalinn í ZipCar, Strætó og einkabíl.

Slepp við útgjöld og streitu en fórna sirka korteri

En aftur að reynslusögunni. Eftir að hafa brunað um á einkabílum í mörg ár þótti mér kominn tími á nýjar aðferðir. Það er strætóskýli í einnar mínútu fjarlægð frá heimili mínu og þaðan tekur 14 mínútur að komast á Hlemm sem er, eins og allir vita, orðinn frábær viðkomustaður. Svo má líka fara með hjólið í strætó. Hví skyldi ég ekki láta á þetta reyna?

Fyrsta skrefið var að kaupa mánaðarkort í gegnum appið í snjallsímanum en slíkt kostar 12.300 krónur fyrir stakan mánuð (ein ferð kostar 460 kr.). Á meðan ég borða hafragrautinn og bíð eftir vagninum get ég samtímis fylgst með því hvar strætóinn minn er staddur í borginni og stokkið svo út þegar ég sé hann nálgast biðskýlið mitt. Nútíma tækni! Þvílík undur! Að komast til og frá vinnustaðnum á Suðurlandsbraut tekur svo um það bil hálftíma og á meðan mála ég mig, les fréttir, sendi tölvupóst … nú eða spila Tetris.

Það kom mér mjög ánægjulega á óvart hvað mér þótti afslappandi að sitja bara og stússast eitthvað í símanum mínum eða horfa út um gluggann á leiðinni. Kannski má líkja tilfinningunni við að losna allt í einu við ósýnilegan, þungan bakpoka sem maður er búinn að bera í nokkur ár, án þess hafa tekið eftir honum? Það er nefnilega lúmskt stressandi að setjast inn í kaldan bíl, berjast í gegnum umferðina, fram og til baka á hverjum degi, leita að bílastæði, borga fyrir það, taka bensín, kaupa rúðupiss, þrífa bílinn, láta smyrja, skipta um dekk, finna geymslupláss fyrir sumardekkin og svo framvegis og svo framvegis. Og þegar allt kemur til alls þá er þetta stúss ekki bara stressandi og kostnaðarsamt, – heldur líka tímafrek viðbót í annasama tilveru nútímakonunnar.

Vegir liggja til allra átta – Frá Smáralind

Til að fá úr því skorið hversu hagkvæmt það er að eiga og reka eigin bíl í Reykjavík fórum við Ari Brynjólfsson blaðamaður, á stúfana. Við bárum meðal annars saman hvað það tekur langan tíma að koma sér á milli staða með strætó, bíl og/eða reiðhjóli og líka hvað það kostar.

Við byrjuðum á að gefa okkur þær forsendur að Smáralindin væri miðja höfuðborgarsvæðisins. Svo drógum við beina línu frá Smáralind í fjórar áttir. Áfangastaðirnir sem við völdum voru Egilshöll (10,8 km.), Lækjartorg (10,1 km.), Kórinn í Kópavogi (4,5 km.) og Fjarðarkaup í Hafnarfirði (4,7.).

Óhætt er að segja að niðurstöðurnar hafi komið mjög á óvart. Ef umferðarþunginn er venjulegur þá ertu bara korteri fyrr á staðinn með bíl meðan hjólaferðin og strætóferðin taka álíka langan tíma.

Það er að segja; ef ferðin tekur 15 mínútur með fólksbíl þá máttu reikna með að sama ferð taki um það bil 30 mínútur með strætó eða reiðhjóli! Og kostnaðurinn? Jú … ef tekið er mið af upplýsingum á vef FÍB, Félags íslenskra bifreiðaeigenda, þá kostar það um 1,5 milljónir að eiga og reka miðlungs stóran fólksbíl (1.250 kg.) á ári meðan dýrasta árskortið hjá Strætó kostar 72.000.

Beðið eftir Strætó

Flestar strætisvagnaleiðir ganga oftar þegar flestir halda til skóla eða vinnu, eða milli klukkan 7.00 og 9.00 á morgnana og svo aftur milli 15.00 og 17.00. Þá fara vagnar á 15 mínútna fresti og svo á 30 mínútna fresti þess á milli. Leið 1 (Hafnarfjörður – Hlemmur) og leið 6 (Spöng í Grafarvogi – Hlemmur) ganga aftur á móti á 10 mínútna fresti á háannatímum og síðan á 15 mínútna fresti á öðrum tímum.

Að meðaltali eru 122 strætisvagnar á ferðinni um höfuðborgarsvæðið yfir daginn en þeir fara eftir ýmsum leiðum sem stöðugt er unnið að því að bæta. Flestir nota vagnana til að komast til og frá vinnu og skóla en erlendum ferðamönnum sem nota strætó fjölgar líka jafnt og þétt. Á síðasta ári voru 16 prósent notenda erlendir ferðamenn.

Hvað með að hætta að sækja og skutla?

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi hjá Strætó, bendir á að strætó sé líka frábær valkostur fyrir upptekið fjölskyldufólk.

„Krakkakortin kosta til dæmis ekki nema 8.600 fyrir heilt ár og ungmennakortin eru á 21.700 krónur. Ef strætóleiðirnar milli skóla og tómstunda eru þægilegar ættu foreldrar hiklaust að kynna sér hvort strætó gæti ekki komið í staðinn fyrir að sækja og skutla enda oft mikill tími sem fer í það,“ segir hann og bendir á vef Strætó.is eða appið vilji fólk kynna sér frekari verð og valkosti.

„Einn þeirra er til dæmis samgöngustyrkurinn svokallaði sem fyrirtæki geta boðið þeim starfsmönnum sem nota strætó í staðinn fyrir einkabíl. Samgöngustyrkurinn, sem er hámark 7.500 skattfrjálsar krónur á mánuði, er mögulegur þegar fyrirtæki og launamenn gera skriflegt samkomulag um nýtingu vistvænna samganga til og frá vinnu. Fyrirtæki geta einnig gert samning við Strætó um Samgöngukort sem veitir starfsfólki árskort í Strætó á verði níu mánaða korts, 63.900 krónur. Ef starfsmaður kaupir Samgöngukort og fær einnig samgöngustyrk frá sínum vinnuveitanda upp á 7.500 geta sparast talsverðar fjárhæðir yfir árið,“ útskýrir Guðmundur en gera má ráð fyrir að um. 1.500 krónur verði þá afgangs af styrknum í hverjum mánuði, eða 18.000 á ári. Það er vel hægt að kaupa flugmiða fyrir þá peninga. Nú eða nýjan lúxus reiðhjólahjálm?

(*Vextirnir af greiðsludreifingunni lækka alltaf með hverjum mánuðinum, en það er fínt að áætla að kostnaðurinn sé um 6.000 krónur á mánuði í greiðsludreifingu).

Ferðatími Fólksbíll Hjól Strætó
Frá – Smáralind
Fjarðarkaup 8 mín. 15 mín. 30 mín.
Lækjartorg 14 mín. 33 mín. 29 mín.
Kórinn 8 mín. 16 mín. 12 mín.
Egilshöll 14 mín. 33 mín. 33 mín.

Hvað með aðra valkosti?

Fyrir fólk sem getur ekki hugsað sér að setjast upp í strætisvagn er hægt að velja margar um aðrar leiðir til að komast á milli staða, fyrir utan hið augljósa, – að ganga.

Reiðhjól: Reiðhjól fást bæði notuð og ný á breiðu verðbili en meðalverð fyrir nýtt götureiðhjól er í kringum 80.000 krónur á meðan nýtt rafmagnshjól kostar í kringum 400.000 krónur. Viðhaldskostnaður á götuhjólum fer yfirleitt ekki yfir 5.000 krónur á ári.

Leigubíll: Gömlu góðu leigubílarnir eru svo að sjálfsögðu augljós valkostur í hvers konar skutl. Meðal biðtími eftir leigubíl er 3 til 10 mínútur og verðið fer eftir því hvert ferðinni er heitið og hvort farið er um kvöld og helgar eða á virkum degi. Færri vita að hægt er að taka leigubíl í klukkutíma í senn í hvers konar snatt og kostar þá fjögurra manna bíll 9.000 krónur.

Bílaleigubíll: Flestar bílaleigur landsins bjóða upp á hagstætt verð á langtímaleigu (mánuð eða lengur), – þá sérstaklega yfir veturinn þegar minna er um erlenda ferðamenn. Inni í verðinu eru allar tryggingar, viðhaldskostnaður og þess háttar en sjálfsábyrgðin er yfirleitt í kringum 100.000 krónur.

Rekstrarleiga: Þá er einnig hægt að fá bíla á rekstrarleigu hjá flestum bílaumboðunum en leigutímabilið er oftast einn, þrír, sex, níu eða tólf mánuðir og verður í sumum tilfelllum ódýrara eftir því sem bíllinn er tekinn lengur á leigu. Tryggingar og viðhaldskostnaður er á ábyrgð rekstrarleigunnar.

Zip Car: Leigðu bíl í klukkutíma

Í september hóf fyrirtækið Zip Car starfsemi sína á höfuðborgarsvæðinu en Zip Car er eins konar klúbbur í kringum bíla sem leigðir eru í nokkra klukkutíma í senn, oftast einn til tvo en hámark sólarhring. Zip Car-bílum er lagt á nokkrum stöðum í miðborginni og bíl skal skilað á sama stað og hann var upphaflega sóttur.

Vilji fólk prófa þetta fyrirkomulag er fyrsta skrefið að sækja um aðild í gegnum heimasíðuna eða appið hjá Zip Car og borga svo meðlimagjald á bilinu 500–2.500 krónur á mánuði, allt eftir því hve langur skuldbindingartími er valinn og hversu lengi og mikið fólk telur sig þurfa að nota bílana. Hámarks notkun er þó alltaf sólarhringur í senn en algengast er að fólk noti bílana um það bil þrisvar sinnum í mánuði í tvo klukkutíma í senn en við það er miðað í töflunni hér að neðan.

Leigðu bíl í nokkra klukkutíma. Bensín innifalið.

Algengast er að fólk velji leið sem kallast Zip Car Smart en þá fæst ókeypis klukkutími í hverjum mánuði gegn meðlimagjaldi upp á 1.500 krónur.

Með þessu má segja að meðlimagjaldið núllist út þar sem leiga fyrir meðalstóran bíl á klukkutíma er einmitt 1.500 krónur.

Ef miðað er við ofangreinda notkun, tvo tíma í senn, þrisvar í mánuði, má reikna með að útgjöldin séu í kringum 9.000 krónur mánaðarlega. Bensínverð er innifalið og hámarks akstur á klukkutíma er 55 kílómetrar. Ef óhapp skyldi eiga sér stað er sjálfsábyrgðin 100.000 krónur, svipuð og hjá flestum rekstar- og bílaleigum.

Skutlararnir á Facebook: Ólöglega leiðin

Töluvert hefur verið fjallað um skutlaragrúppuna á Facebook í fjölmiðlum. Þó flestir nýti sér „harkið“, eins og það hefur löngum verið kallað, á kvöldin og um helgar er fjöldi fólks á rúntinum yfir daginn líka.

Blaðamaður DV prófaði að þiggja far hjá einum skutlaranum í vikunnni en þar sem ómögulegt reyndist að fá hana til að tjá sig undir nafni skulum við kalla hana Ölmu. Alma flautaði fyrir utan hjá honum rétt rúmlega 9 um morguninn og umsamið verð í einkaskilaboðum var 1.000 krónur.

„Við maðurinn minn búum rétt fyrir utan borgina. Ég byrja daginn á að keyra hann í vinnuna snemma á morgnana, sinni svo erindum og skutlast á meðan hann er í vinnunni. Svo sæki ég hann og við rúllum aftur heim,“ útskýrir Alma sem er búin að kynnast þessari jaðarmenningu nokkuð vel.

Til dæmis segir hún að mesta fjörið fari fram á nóttunni um helgar, þegar bíleigendur eru ekki í ástandi til að keyra eigin bíla. Svo vilji konur helst þiggja far með öðrum konum og að það kosti alltaf minnst þúsund krónur aukalega að fara í Mosfellsbæ því þangað vilji enginn fara (hennar orð, ekki blaðamanns). Hún segir verðið misjafnt hjá skutlurum, sumir rukki mikið, því skutlið sé hreinlega atvinnan þeirra, meðan aðrir noti skutlið til að niðurgreiða bensínkostnað því þeir séu hvort eð er á rúntinum.

„Sumir selja reyndar landa og eru þar af leiðandi alltaf á rúntinum á nóttunni um helgar,“ segir Alma en réttast er að benda lesendum á að bæði harkið og landasala eru refsivert athæfi svo velji nú hver fyrir sig, – á eigin áhættu og ábyrgð.

Matarinnkaupin á netinu

Á vefsíðunni (og appinu) aha.is er bæði hægt að kaupa í matinn og fá heimsenda tilbúna rétti frá ótal veitingastöðum í borginni. Bæði heilsufæðu og skyndibita. Ef þú vilt kaupa í matinn þá bjóða bæði Iceland og Nettó upp á heimsendingu en heimsendingin kostar 1.490 krónur. Vöruverð er það sama og í verslunum og framboðið svipað.

Þá hafa margir látið vel af þjónustunni hjá Eldum rétt sem bjóða einnig upp á að hráefni í fyrirfram ákveðnar uppskriftir séu send heim að dyrum. Greinarhöfundar hafa prófað hvoru tveggja og láta vel af. Flestar verslanir á höfuðborgarsvæðinu, t.d. Ikea, BYKO, Rúmfatalagerinn o.fl. bjóða einnig upp á heimsendingu gegn gjaldi.

Upplýsingar frá skattinum um samgöngustyrki: https://www.rsk.is/einstaklingar/tekjur-og-fradrattur/styrkir/.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Læknir segir að þessi algenga venja geti verið hættuleg eftir líkamsrækt

Læknir segir að þessi algenga venja geti verið hættuleg eftir líkamsrækt
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stofnaði OnlyFans um leið og hún varð 18 ára – Faðir hennar bregst við

Stofnaði OnlyFans um leið og hún varð 18 ára – Faðir hennar bregst við
Fókus
Fyrir 5 dögum

Segja fótboltastráka á Íslandi þjást af mikilmennskubrjálæði: „Þá sagði hann: „Þessi flaska er dýrari en mánaðarlaunin þín“

Segja fótboltastráka á Íslandi þjást af mikilmennskubrjálæði: „Þá sagði hann: „Þessi flaska er dýrari en mánaðarlaunin þín“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Hárígræðslan breytti algjörlega lífi mínu“

„Hárígræðslan breytti algjörlega lífi mínu“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vildi grennast fyrir brúðkaup sonar síns og stækkaði Ozempic skammtinn – „Þetta drap mig næstum því“

Vildi grennast fyrir brúðkaup sonar síns og stækkaði Ozempic skammtinn – „Þetta drap mig næstum því“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Dóttir Hulk Hogan útskýrir hvers vegna hún mætti ekki í jarðarförina hans

Dóttir Hulk Hogan útskýrir hvers vegna hún mætti ekki í jarðarförina hans