fbpx
Miðvikudagur 10.september 2025
Eyjan

Stefnuræða forsætisráðherra: Biður fólk um að gæta orða sinna

Eyjan
Miðvikudaginn 10. september 2025 19:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helstu áherslur ríkisstjórnarinnar í vetur verða tiltekt, verðmætasköpun og aðgerðir til að styrkja öryggi og vinnviði Íslands.

Þetta kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur, sem flutt var í kvöld. Kristrún segir að ríkisstjórnin muni láta verkin tala og að hún gangi samstíga til verka.

Í lok ræðu sinna minnti Kristrún landsmenn á að orðum fylgir ábyrgð: „Hér hafa allir fullt málfrelsi – en gætum orða okkar. Því orðum fylgir ábyrgð. Og tónn skiptir máli.“

Ræðan er eftirfarandi í textaútgáfu:

I.

Frú forseti – háttvirtir þingmenn.

Helstu áherslur ríkisstjórnarinnar á nýju þingi – sem birtast meðal annars í þingmálaskrá og fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar – eru tiltekt, verðmætasköpun og aðgerðir til að styrkja öryggi og innviði Íslands.

Ríkisstjórnin gengur samstíga til verka. Sem fyrr munu verkin tala. Og í þessari stefnuræðu hyggst ég stikla á stóru um helstu verkefni vetrarins.

 

II.

En áður en lengra er haldið vil ég ávarpa störf þingsins og samstarf okkar sem erum kjörin á Alþingi

Það er heiður að sitja á Alþingi Íslendinga. Og því fylgir ábyrgð.

Þegar þjóðin kýs – þá verður þingið að virka.

Það er undirstaða lýðræðis í landinu.

Í Alþingiskosningum síðastliðið haust urðu verulegar breytingar í hinu pólitíska landslagi. Sem leiddu af sér hrein stjórnarskipti, nýja ríkisstjórn, nýja stefnu og nýtt verklag. Sömuleiðis urðu breytingar á starfsháttum í stjórnarandstöðu sem eftir var tekið.

Við getum öll verið sammála um það að þingstörfin hefðu átt að ganga betur síðastliðið vor. Þar er ábyrgðin bæði hjá meirihluta og minnihluta. Því að þingið verður að virka.

Ríkisstjórnin hefur verið sögð ganga heldur hratt til verka, fremur en hitt. Og sem forsætisráðherra get ég sagt að við tökum þá gagnrýni til okkar.

Því þó að stjórnkerfið hafi virkað vel síðasta vor – og þingmál ríkisstjórnarinnar skilað sér betur og hraðar til þingsins en áður – þá er nauðsynlegt að Alþingi og nefndirnar hérna inni ráði vel við hraðann. Þannig að mál séu afgreidd með skilvirkum hætti, jafnt og þétt yfir veturinn.

Þess vegna hefur ríkisstjórnin nú brugðist við ábendingum forseta Alþingis og þingflokksformanna: Við höfum stillt upp sterkri þingmálaskrá sem vissulega er stórpólitísk – en trúverðug og takmörkuð að umfangi til að tryggja skilvirka afgreiðslu á Alþingi.

Til að undirstrika það,  þá inniheldur þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 157 mál – samanborið við 217 mál á sama tíma á síðasta ári, hjá fyrri ríkisstjórn. Og af þessum 157 málum eru 41 mál endurflutt frá fyrra þingi, eftir ítarlega umfjöllun, og ættu því að geta fengið fljóta meðferð í þinginu í haust.

Ég höfða til ábyrgðar þingmanna allra þingflokka: Látum lýðræðið virka. Ræðum málin og greiðum svo atkvæði og leiðum þau þannig til lykta. Það er skylda okkar gagnvart þjóðinni og lýðræðinu í landinu.

 

III.

Forseti.

Á öllum heimilum kemur sá tími að það þarf að staldra við og taka svolítið hressilega til. Og þar er ríkisheimilið engin undantekning.

Tiltekt ríkisstjórnarinnar á sér ýmsar birtingarmyndir:

Við erum að laga ríkisfjármálin – með því að taka til í kerfinu, hagræða og skrúfa fyrir skattaglufur. Og með því að ná betri stjórn á starfsemi ríkisins heilt yfir. Þetta er mikilvægt.

Tillögur um hagsýni í ríkisrekstri – frá almenningi, atvinnurekendum, stéttarfélögum, stjórnendum og starfsfólki hins opinbera – hafa nú skilað sér í yfir 100 milljarða uppsafnaðri hagræðingu á tíma nýrrar fjármálaáætlunar. Þetta sést strax í fjárlögum fyrir árið 2026 – sem verða fyrir vikið mun nær sjálfbærum rekstri en áður stefndi í. Og þannig færumst við líka nær settu marki um að fjárlög ársins 2027 verði fyrstu hallalausu fjárlög ríkisins í áratug.

Ný stöðugleikaregla er strax farin að hafa áhrif.

 

* * *

En forseti – og þetta er lykilatriði – ef við þurfum að gera meira hraðar til að vinna niður vexti og verðbólgu. Þá gerum við meira hraðar. Svo sem í ríkisfjármálum og aðgerðum í húsnæðismálum.

Það er alveg á hreinu. Þessi ríkisstjórn tekur ábyrgð á stjórn efnahagsmála í landinu – fulla ábyrgð. Og við munum aldrei hlaupast undan eða benda fingri á alla aðra. Ekki á minni vakt.

Hins vegar er rétt að halda því til haga að stýrivextir hafa lækkað um 1,5% – frá því að fyrri ríkisstjórn boðaði til kosninga. Sem hefur lækkað kostnað meðalheimilis um allt að 50 þúsund krónur í hverjum mánuði. Það er meiri lækkun fyrir marga – minni fyrir suma – en þetta eru upphæðir sem skipta miklu máli í bókhaldi heimila og fyrirtækja sömuleiðis.

Við þurfum að halda tiltektinni áfram – til að verðbólgan fari niður í markmið Seðlabankans og vextir haldi áfram að lækka. Og það munum við gera.

* * *

Dæmi um tiltektarmál á þingmálaskrá eru til að mynda:

Afnám handhafalauna fyrir handhafa forsetavalds – samkvæmt frumvarpi sem ég mun leggja fram – ásamt frumvarpi um eitt nefndahús fyrir nefndir ríkisins, að norrænni fyrirmynd. Þá verður lagt fram frumvarp sem skýrir viðmið við launabreytingar þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna sem unnið er með aðilum vinnumarkaðarins.

Sameining sýslumanna er umbótamál sem verður endurflutt. Til viðbótar við sameiningu stofnana á sviði safnamála og húsnæðis- og skipulagsmála og sameiningu ýmissa samkeppnissjóða.

Ráðist verður í tiltekt í heilbrigðismálum – til að draga úr skriffinnsku og gera þjónustuna skilvirkari.

Tiltekt í útlendingamálum verður ofarlega á blaði. Með afturköllun á alþjóðlegri vernd fyrir fólk sem fremur alvarleg eða síendurtekin brot. Með afnámi á séríslensku 18 mánaða reglunni sem hefur veitt fólki sjálfkrafa dvalarleyfi þegar tafir verða á afgreiðslu mála. Farið verður í sameiningu atvinnu- og dvalarleyfa með hertum skilyrðum, innleiðingu nýjasta hælispakka Evrópusambandsins og byggingu á brottfararstöð – til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Schengen-samningnum. Um leið verður hætt að vista útlendinga í gæsluvarðhaldi sem á að brottvísa.

Félags- og húsnæðismálaráðherra leggur fram frumvarp um breytingar á atvinnuleysistryggingum – þar á meðal styttingu bótatímabils samhliða styrkingu á virkniúrræðum fyrir atvinnulausa.

* * *

Svona mætti lengi telja. Það verða ekki allir sáttir við allt – sumt verður erfitt – en við ætlum áfram. Því það er betra að vera með ríkisstjórn sem tekur ákvarðanir og framkvæmir – þó að margir verði ósáttir með einstök mál – frekar en ríkisstjórn sem getur ekki tekið ákvarðanir og gerir alla ósátta.

Við erum að einfalda regluverk. Það er tiltekt sem styður við aukna verðmætasköpun. Þar má nefna:

Stórfellda einföldun leyfisferla í orkumálum. Mestu einföldun í eftirlitsumhverfi fyrirtækja í áratugi – með niðurlagningu heilbrigðiseftirlita, sem fækkar eftirlitsaðilum úr 11 í 2. Ráðist verður í einföldun regluverks um erlenda fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtækjum. Létt á jafnlaunavottun. Og okkar ágæti félags- og húsnæðismálaráðherra mun í vetur ganga í það verk – loksins – að snareinfalda og létta á byggingarreglugerð. Sem oft var lofað en aldrei efnt – fyrr en núna.

* * *

Við erum að móta atvinnustefnu fyrir Ísland – vaxtarplan til 2035. Sem lýsir hvernig stjórnvöld vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun. Það er tiltekt. Til að leggja grunn að betri hagvexti á Íslandi, meiri hagvexti á mann – sem er lykilatriði – með minna álagi á samfélag, umhverfi og innviði.

Á næsta ári verða hafnar framkvæmdir við stækkun fjögurra verknámsskóla vítt um land – sem hafa nú verið fjármagnaðar. Það er stórmál fyrir menntun og atvinnulíf í landinu.

Atvinnuvegaráðherra mun leggja fram frumvarp í haust um auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Og eftir áramót ætlum við að lögfesta nýjan ramma fyrir lagareldið. Loks mun innviðaráðherra mæla fyrir frumvarpi um framtíðarfyrirkomulag strandveiða og byggðakvóta í sjávarútvegi.

Og áfram göngum við rösklega til verka í orkumálum. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mun í haust mæla fyrir frumvarpi sem felur í sér fulla jöfnun á dreifikostnaði raforku um land allt. Þetta eru stór tíðindi fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu – mál sem við getum verið stolt af og undirstrikar það að auðlindir Íslands eru sameign þjóðar.

Af öðrum orkumálum má nefna nýtt 10 ára orkuöflunarmarkmið sem verður til hliðsjónar við vinnslu rammaáætlunar. Fluttar verða tvær rammaáætlunartillögur, nærsamfélagi tryggðar tekjur af öflun raforku og settar reglur um vindorkunýtingu – sem kveða meðal annars á um takmörkun á tilteknum svæðum og neitunarvald sveitarfélaga.

Ný heildarlög um loftslagsmál verða lögð fram á þinginu í haust. Sem fela í sér tiltekt og taka betur mið af raunverulegri stöðu mála – styttri listi, með raunhæfum markmiðum og aðgerðum til að ná settu marki.

 

* * *

Forseti – samhliða áherslu ríkisstjórnarinnar á tiltekt og verðmætasköpun – þá munum við um leið hefjast handa við að styrkja öryggi og innviði Íslands:

Öryggi á vegum – með 7 milljarða viðbót í vegabætur strax á næsta ári. Og með stofnun innviðafélags, samhliða samgönguáætlun, til að byrja aftur að bora jarðgöng í þessu landi.

Öryggi borgaranna aukum við – með því að fjölga lögreglumönnum um 50, styrkja Landhelgisgæslu og stofnanir fangelsismála og útlendingamála. Og með því að veita loksins heimild til að framfylgja nálgunarbanni með notkun ökklabands. Síðast en ekki síst má nefna nýtt úrræði til öryggisvistunar fyrir ósakhæfa einstaklinga – sem lengi hefur verið kallað eftir og nú verður komið á fót.

Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum verða tekin – með því að fjölga áfram hjúkrunarrýmum og efla úrræði vegna fíknisjúkdóma og geðþjónustu barna og aldraðra svo dæmi séu tekin. Þá munu framkvæmdir hefjast við byggingu legudeildar Sjúkrahússins á Akureyri.

Og tekin verða markviss skref til að bæta afkomuöryggi öryrkja og eldra fólks – lífeyrir mun nú fylgja launaþróun, við hækkum almennt frítekjumark ellilífeyris í skrefum upp í 60 þúsund krónur á mánuði og greiddur verður jólabónus til öryrkja og tekjulægra eldra fólks.

 

IV.

Forseti.

Utanríkisráðherra mun í haust mæla fyrir nýrri öryggis- og varnarstefnu Íslands sem hefur verið unnin með fulltrúum þingflokka úr meirihluta og minnihluta á Alþingi. Ég vonast eftir áframhaldandi breiðri sátt um öryggi og varnir landsins.

Í utanríkismálum hefur meginverkefni ríkisstjórnarinnar verið að sinna hagsmunagæslu fyrir Ísland – og það gerum við áfram af fullum þunga. Með því að þétta raðirnar með bandalagsríkjum okkar, bæði vestan Atlantshafs og í Evrópu. Með kröfu um að alþjóðlög séu virt og landamæri standi. Og með því að berjast af alefli gegn tollum á íslenskan útflutning.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins (NATO) höfum við haldið styrkleikum Íslands kirfilega til haga – með góðum árangri. Aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin verða áfram grunnstoðir í utanríkisstefnu Íslands. Og það verður engin eðlisbreyting á sambandi okkar við NATO: Við verðum áfram herlaus þjóð en leggjum okkar af mörkum með öðrum hætti – svo sem með því að efla innviði hér heima sem styðja við öryggi og varnir landsins.

Af þessu öllu leiðir að Ísland stendur áfram þétt með Úkraínu gegn árásarstríði Rússlands – líkt og okkar nánustu bandalagsríki.

Sömuleiðis mun ríkisstjórnin áfram beita sér á alþjóðlegum vettvangi gegn framgöngu Ísraelsríkis í Palestínu sem er löngu gengin alltof langt. Afstaða okkar hefur verið sú að við náum mestum árangri í þessu máli með þrýstingi í samfloti með ríkjum sem deila okkar gildismati. En viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafa valdið vonbrigðum. Og við þurfum því að eiga opinskátt samtal um það hvernig er best fyrir Ísland að auka þrýstinginn á að árásum verði hætt svo hörmungunum linni.

 

V.

Forseti.

Ég vona að við vinnum gagn á þessu þingi – í þágu lands og þjóðar.

Þegar upp er staðið þá erum við sammála um býsna margt. Við viljum skapa fallegt samfélag frelsis og mannvirðingar á Íslandi.

Þá skiptir máli að við hlustum á hvert annað. Og reynum að skilja hvaðan fólk er að koma – þótt við séum ósammála. En það skiptir ekki síður máli hvernig við tölum hvert við annað.

Því að við komumst nokkuð langt með virðingu. Ef við leitum síðan lausna á þeim grunni. Með því að leiða fólk saman – í stað þess að ýta undir það sem sundrar og færast fjær hvert öðru.

Þessi ríkisstjórn mun standa vörð um mannréttindi allra landsmanna – að sjálfsögðu. Og ég geng út frá því að það eigi líka við um langflesta, ef ekki alla, þingmenn í stjórnarandstöðu.

Hér hafa allir fullt málfrelsi – en gætum orða okkar. Því orðum fylgir ábyrgð. Og tónn skiptir máli.

Gott fólk, virðum og elskum náungann. Og þá mun okkur farnast vel.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Algengir stjórnunarhættir

Óttar Guðmundsson skrifar: Algengir stjórnunarhættir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Hólmar skrifar: Tugir milljarða til Háskóla Íslands en aðeins örfáir fatlaðir fá inngöngu

Sigurður Hólmar skrifar: Tugir milljarða til Háskóla Íslands en aðeins örfáir fatlaðir fá inngöngu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Binni í Vinnslustöðinni spinnur fantasíu

Orðið á götunni: Binni í Vinnslustöðinni spinnur fantasíu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir að skipun Ólafs boði nýja tíma í vinnubrögðum á Alþingi – „Þarna fannst mér sleginn allt annar tónn“

Segir að skipun Ólafs boði nýja tíma í vinnubrögðum á Alþingi – „Þarna fannst mér sleginn allt annar tónn“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur tekinn við af Hildi

Ólafur tekinn við af Hildi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Ágúst Borgþór skrifar: Að anda ofan í hálsmál sakborninga

Ágúst Borgþór skrifar: Að anda ofan í hálsmál sakborninga