Í pistli hér á þessum vettvangi fyrir viku komst Óttar Guðmundsson geðlæknir svo að orði að fengi fræðasamfélagið að slá eigni sinni á Njálu og Njálurannsóknir dæi bókin „hægum og kyrrlátum“ dauðdaga. Tilefnið var einkar glæsileg Njáluhátíð á Rangárbökkum sem nýstofnað Njálufélag undir forystu Guðna Ágústssonar, fyrrverandi ráðherra, stóð að. Ég var fjarri góðu gamni en að sögn þeirra sem sóttu setningarhátíðina var hlut Hallgerðar haldið mjög á lofti, hún hafi verið „sterk og sjálfstæð kona í miskunnarlausu karlaveldi“ eins og Óttar geðlæknir orðar það.
Slíkar túlkanir sem sumir kalla „femiskar“ eru síður en svo nýjar af nálinni en sá er galli á þeim hversu grunnt þær rista. Njála og aðrar helstu Íslendingasögur eru það margslungin bókmenntaverk að félagsfræðikenningar seinni tíma duga engan veginn sem tæki til að greina þær til hlítar.
Ég las Njálu seinast í fyrra haust þegar við félagar í Stúdentafélagi Reykjavíkur efndum til samdrykkju (gr. symposium) um Njálu. Þar var hart tekist á um Hallgerði, í hugum sumra var hún beinlínis kvendjöfull aðrir sögðu hana fórnarlamb karlaveldis. Raunar eru rómverskar réttarhugmyndir að ryðja sér rúms hér í nyrst í álfunni á ritunartíma sögunnar, þar á meðal meginreglan um að hjúskapur sé frjáls (l. libera sunt matrimonia). Það merkti í raun að kaþólska kirkjan krafðist þess að brúðurin yrði spurð álits — ekki mætti þvinga nokkurn mann í hjúskap. Og við sjáum hvernig fer með hjónabönd Hallgerðar.
Ég las fyrr í sumar nokkur ágæt fornrit í fyrsta sinn, þar á meðal Alexanders sögu í útgáfu Halldórs Kiljan Laxness frá árinu 1945 en á titilsíðunni segir að þar fari saga Alexanders mikla eftir hinu forna kvæði meistara Philippi Galteri Castellionæi sem Brandur Jónsson ábóti sneri á íslensku á þrettándu öld og síðan er klykkt út með þessum orðum: „Útgefin hér á prent til skemmtunar íslenskum almenningi árið 1945“.
Kiljan var hvatamaður að útgáfunni og kvaðst hafa ráðist í það verk svo allir þeir sem ynnu íslensku máli fengju hennar notið því í sögunni mætti heyra niðinn af uppsprettum tungunnar. Kvæðið franska hefði verið þýtt á merkilegum tímamótum í sköpunarsögu íslensks ritmáls þegar „hinn forni málmur tungunnar er … hitaður, smíðaður og lagður í deiglu þeirrar formtísku, sem þá var uppi með suðrænum forustuþjóðum menningar, og undir beinum áhrifum hins samþjóðlega menntamáls aldarinnar, latínunnar“. Og sá „hreinleiki og tignarbragur“ hins norræna máls sem birtist í Alexanders sögu í samhæfingu við erlent efni væri nútímamönnum til eftirdæmis.
Ég nefni Alexanders sögu hér því þar er rætt um „bleika akra“ líkt og í Njálu. Á leiðinni til Asíu lítur Alexander aldrei aftur til föðurlandsins en í sögunni segir að hann hafi gengið á fjall eitt hátt og séð vítt yfir landið, „fagra völlu, bleika akra, stóra skóga, blómgaða víngarða, sterkar borgir. Og er konungur sá yfir þessa fegurð alla, þá mælir hann svo til vildarliðs síns: „Þetta ríki, er nú lít ég yfir ætla ég mér sjálfum. En Grikkland, föðurleifð mína, vil ég nú gefa yður upp.““
Einar Ólafur Sveinsson bendir á þessi líkindi Alexanders sögu og Njálu í inngangi sínum að Njáluútgáfu Fornritafélagsins. Brandur Jónsson, sem álitinn er þýðandi sögunnar, var ábóti í Þykkvabæjarklaustri 1247–1262 og síðar biskup á Hólum en Njála mun dómi flestra fræðimanna hafa verið rituð suðvestalands nokkru eftir lát Brands 1264. Og séu þetta allt réttar tilgátur má svo gott sem gefa sér að höfundur Njálu hafi þekkt Alexanders sögu eins og sænski norrænufræðingurinn Lars Lönnroth benti á í grein í Skírni árið 1970.
Kvæðið sem Brandur íslenskaði er saga til eftirbreytni og aðvörunar af manni sem yfirvann gervallan heiminn en beið lægri hlut fyrir ofmetnaði sínum (gr. hybris). Aristóteles, hinn vitrasti allra Grikkja, fóstrar Alexander og honum farnast vel meðan hann hlýðir heilræðum Aristótelesar. Og eins og Lönnroth bendir á í grein sinni þá fellur Gunnar Hámundarson — rétt eins og Alexander — fyrir freistingu sem hann ætti að hafa skynsemi og siðferðisstyrk til að standast.
Við munum að þeir Gunnar og Kolskeggur höfðu á alþingi verið dæmdir útlægir í þrjú ár. Njáll brýnir fyrir Gunnari að halda þessa sætt og segir Lönnroth Njál gegna áþekku hlutverki og Aristóteles í Alexanders sögu. Gunnar fellur fyrir eigin ofmetnaði þegar hann lítur bleika akra — rétt eins og Alexanders heillast af fegurð bleikra akra Asíu. Gefum Lönnroth orðið:
„Þegar höfðinginn íslenski ákveður að snúa aftur kemur fram hjá honum sami ágalli, sami hetjulöstur, sama æði sem heimsdrottnaranum frá Makedóníu þegar hann ákvað að gefa upp fósturland sitt. Fallið af hestbaki er siðferðislegt fall.“
Þetta er vitaskuld á skjön við hina ríkjandi skoðun rómantísku aldarinnar sem birtist okkur í ljóðlínunum Jónasar: „Því Gunnar vildi heldur bíða hel / en horfinn vera fósturjarðar ströndum“. Lönnroth segir fegurðina verða Gunnari að falli, hvort sem það er hlíðin eða Hallgerður og fegurðarástríða hans sameinist metnaðargirnd hans og oftrausti á eigin gæfu. Munum að hann kvænist Hallgerði þrátt fyrir allar aðvaranir.
Í þýðingu Brands ábóta er kvæðið fellt að íslenskri sagnahefð og til að mynda er upphafinu sleppt þar sem segir: „Syngdu sönggyðja um dáðir hins mekedónska herforingja ..“ (l. gesta ducis Macedum, totum digesta per orbem … Musa refer). Svona málskrúð höfðar ekki til manna hér í nyrstu byggðum álfunnar svo íslenska sagan hefst svo: „Daríus hefur konungur heitið er réð fyrir Serklandi …“ Menn snúa sér bara beint að efninu og kynna sögupersónur til leiks. En hvað sem öllum menningarmun líður þá blasir við okkur að Njáls saga verður ekki til í tómarúmi — hún er samin af hálærðum mönnum sem þekktu til fremstu ritverka þess tíma og sitthvað af þeim bókmenntum var til í klaustrunum hér, biskupsstólunum og væntanlega líka á helstu höfuðbólum.
Á samdrykkjunni í Stúdentafélaginu sem ég gat um hér að framan skiptust menn mjög í tvö horn í afstöðu til Hallgerðar og sjálfur á ég erfitt með að fallast á rök þeirra sem halda málstað hennar á lofti. Þetta leiðir aftur hugann að því að svona hefur líklega verið rætt um Íslendingasögur á kvöldvökunni í baðstofunni síðastliðinn átta hundruð ár. Menn hafa mátað sig við sögupersónur, tekið afstöðu með þeim eða á móti, og það í sjálfu sér orðið gagnleg rökfærsluæfing, einkanlega ungum mönnum. Það er einmitt svona sem halda þarf sagnaarfinum við — í lifandi rökræðu og lofsvert framtak Guðna og félaga að fagna einu magnaðasta bókmenntaverki sögunnar með svo verðugum hætti.