fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Eyjan
Sunnudaginn 17. ágúst 2025 13:30

Kristur þvær fætur lærisveina sinna í túlkun hollenska málarans Dirck van Baburen (1595–1624).

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vísindamenn veita okkur stundum með rannsóknum sínum nýstárlega og um leið fyllri sýn á málefni líðandi stundar. Grein Margrétar Einarsdóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík, sem birtist í Tímariti Lögréttu vakti slíka athygli í liðinni viku, en Margrét er jafnframt formaður stjórnar Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar skólans. Rannsókn hennar leiðir í ljós að íslensk stjórnvöld veita erlendum ríkisborgurum mun greiðari aðgang að sjúkratryggingakerfinu en þeim er skylt á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í samningnum er ekki gert ráð fyrir því að svokallaðir „efnahagslega óvirkir EES-borgarar“ öðlist umræddan rétt til sjúkratrygginga fyrr en að lokinni fimm ára samfelldri löglegri dvöl í viðkomandi ríki. Hér öðlist menn aftur á móti rétt til trygginga eftir aðeins sex mánaða búsetu. Margrét veltir því upp í grein sinni hvort ekki sé rétt að leggja mat á þann viðbótarkostnað heilbrigðiskerfisins sem af þessu hlýst.

Niðurstöðurnar eru sannarlega umhugsunarverðar á tímum þegar ýmsir hlutar hins opinbera heilbrigðiskerfis eru að sligast vegna álags. Vitaskuld þarf að vera eitthvert samband á milli framlags einstaklingsins til samfélagsins og þeirrar þjónustu sem hann nýtur. Opinber kerfi sem þessi þurfa líka að geta búið við fyrirsjáanleika til langs tíma. Reglan um fimm ára samfellda og löglega dvöl í ríki er því sanngjörn sem lágmarkskrafa. En sú regla sem á hinn bóginn hefur verið innleidd hér kann að hafa í för með sér ranga hvata, jafnvel þannig að menn flytjist beinlínis hingað til lands til að sækja sér læknisþjónustu án endurgjalds.

Við blasir að þessi mál þarfnast rækilegrar skoðunar og ekki ástæða til að ætla annað en stjórnvöld bregðist við en Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra benti á það í viðtali í hlaðvarpsþættinum Einni pælingu, tæpu ári áður en hún við tók við embætti, að opin landamæri og velferðarkerfi færu ekki saman.

Raunar ætti sú staðreynd að vera hverju mannsbarni ljós en mikilsvert að formaður Samfylkingarinnar, sem nú er orðinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins, skyldi ræða þessi mál svo hreint út með tilliti til þess hversu fjarstæðukenndur málflutningur sumra flokksmanna hennar hafði verið um langa hríð þegar kom að umræddum málaflokki. Orðrétt sagði Kristrún að hér yrði raunsæi að ráða för, öðruvísi yrði velferðarkerfið ekki varið.

Borgaralegar skyldur

Ég hygg að flestum þyki eðlilegt að menn sem hingað flytjist ávinni sér réttindi í almannatryggingakerfinu á löngum tíma. Ekki kunni góðri lukku að stýra að þeir öðlist slík réttindi í einu vetfangi. Þetta leiðir aftur hugann að því að í háskattaríki sem okkar snýst pólitísk umræða umfram allt um útdeilingu skattfjár, fréttatímar eru uppfullir af mönnum sem bera fram bænaskjöl og aðrar kröfugerðir á hendur ríki og sveitarfélögum. Mun sjaldnar er rætt um skyldur borgaranna til að taka til hendinni í þágu lands og lýðs.

En hverjar eru þá hinar borgaralegu skyldur? Heimspekingar hafa velt þeirri spurningu fyrir sér frá því í fornöld en ég rakst í liðinni viku á útvarpserindi Sigurðar Nordal prófessors frá árinu 1940 sem fræg urðu og gefin voru út á bók undir yfirskriftinni Líf og dauði. Sigurður taldi hinar borgaralegu skyldur einkum þríþættar. Fyrir það fyrsta skyldu menn inna af höndum starf sem í senn kæmi þjóðfélaginu að gagni og entist til að sjá þeim sjálfum farborða — hagsmunir þjóðfélagsins krefðust þess að menn ynnu meðan þeim entust kraftar til. Í annan stað hefðu menn frá bernsku og uppvaxtarárum skuld að gjalda. Hana skyldu þeir gjalda gagnvart eigin börnum og ættu þeir ekki börn skyldu þeir engu að síður leggja sig með einhverjum hætti fram til uppeldis og framfærslu næstu kynslóða. Í þriðja lagi væri brýnt að menn stefndu að því að bæta þjóðfélagið hver á sínu afmarkaða sviði og „skilja við hvern þann reit, sem okkur hefur verið trúað fyrir, betur ræktaðan en við tókum við honum, hvort sem þessi reitur er lítil ábúðarjörð, einhver atvinnugrein, embætti í ríkisins þjónustu, stjórnmálastarfsemi eða menningarstarf og skapandi andleg vinna“. Þjóðfélagið þarfnaðist þess að alls staðar væri vel unnið og alveg sérstakar skyldur hvíldu á mönnum í jafnfámennu ríki og okkar.

Að lifa fyrir föðurlandið

Sú beina skylda sem mest kveður að í nálægum ríkjum lýtur að landvörnum, að menn gegni herþjónustu, en í upphaflegri gerð lýðveldisstjórnarskrárinnar sagði í 75. gr. að „sérhver vopnfær maður“ væri „skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins, eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt í lögum“. Þessu ákvæði hefði alveg að ósekju mátt halda inni þó svo að vonandi þyrfti aldrei að beita því.

Sigurður Nordal benti þó á að þegar farið væri fram á að menn létu lífið fyrir föðurlandið mætti ekki gleyma því sem mikilvægara væri: að þeir lifðu fyrir það, væru virkir þátttakendur í starfslífi þjóðarinnar. Í gömlu íslensku máltæki segir að sá sem sitji auðum höndum sitji undir sjö djöflum og hampi þeim áttunda. Andstyggð á leti má til dæmis sjá í ómagabálki Grágásar þar sem kveðið er á um að það sé „ómennska ef maður gengur með húsum sakir nenningarleysis eða ókosta annarra, þeirra er góðir menn vilji fyrir þeim sökum eigi við þeim taka“. Slíka menn sé rétt að gelda og varðaði ekki við lög þó þeir fengju af örkuml eða bana.

Hér er nokkuð harkalega að orði kveðið en ég ætla að halda því fram að það sé borgaraleg skylda allra manna að vera starfsamir í hverju því sem þeir taka sér fyrir hendur. Þetta verður þeim mun áleitnara á tímum mikillar samneyslu. Þannig er það ekki einkamál nemanda hvernig hann sinnir námi sínu sem skattgreiðendur kosta (og raunar furðulegt að einkunnir skuli flokkaðar sem persónuupplýsingar rétt eins og um sjúkraskýrslur væri að ræða). Taka þarf líka af festu á hvers kyns bótasvindli og undarlegt að á sama tíma og álagningarskrár liggi frammi skuli ekki vera gert opinbert hvað menn þiggja af opinberu framfæri. Og réttindi til hvers kyns trygginga af almannafé verða menn að ávinna sér og sínum með skattgreiðslum um lengri tíma. Það liggur í hlutarins eðli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri fræðsla, minni hræðsla

Thomas Möller skrifar: Meiri fræðsla, minni hræðsla
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Virðingarleysi fyrir lögreglu

Björn Jón skrifar: Virðingarleysi fyrir lögreglu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?
EyjanFastir pennar
12.07.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald
EyjanFastir pennar
12.07.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér