fbpx
Föstudagur 11.júlí 2025
Eyjan

„Við tökum ekki þátt í pólitísku leikriti ríkisstjórnarinnar“

Eyjan
Fimmtudaginn 10. júlí 2025 18:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins segir að ríkisstjórnin hafi sakað stjórnarandstöðuna um valdarán. Það sé erfitt að halda ró sinni andspænis slíkum ásökunum, enda eru þingmenn líka manneskjur með fjölskyldur. Þetta kemur fram í færslu Guðrúnar á Facebook.

Ummælin sem fóru fyrir brjóstið á Guðrúnu komu frá Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra, sem kallaði í dag eftir afsögn Hildar Sverrisdóttur eftir að hún sleit þingfundi án umboðs í gærkvöldi.

Guðmundur sagði:

„Um það sem ég varð vitni að í gærkvöldi verð ég að segja að viðkomandi forseti [Hildur Sverrisdóttir] var að gera það sem ég tel vera valdarán hér í þinginu, ætti hreinlega að segja af sér vegna þess að þetta er grafalvarlegt mál.“

Aðrir ráðherrar sökuðu stjórnarandstöðuna fyrst og fremst um að viðurkenna ekki niðurstöður kosninganna með því að freista þess að stýra þinginu þrátt fyrir að vera þar ekki með meirihluta og fyrir að vanvirða lýðræðið með málþófi.

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokks kallaði eftir því að forseti Alþingis ávítti Guðmund fyrir valdaránsummælin og skömmu síðar beindi forseti því til þingmanna að gæta orða sinna.

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar:

„Ríkisstjórnin sakaði stjórnarandstöðuna um að fremja valdarán í dag. Lýðræðið sjálft hefur verið sagt í hættu og nú síðast spurði Inga Sæland hvort ég og aðrir stjórnarandstæðingar viljum að hér á landi ríki slíkt ástand að skjóta þurfi valdhafa undir húsvegg til að valdaskipti geti átt sér stað. Svona ummæli eiga einfaldlega ekki heima í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Á örskömmum tíma hefur ríkisstjórnin umturnað pólitískri umræðu og fært hana út fyrir öll velsæmismörk. Á sama tíma og hún málar sig upp sem bjargvætt lýðveldisins hefur Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra beitt andlýðræðislegri orðræðu sem elur á ótta og skautun. Samhliða því saka ráðherrar í ríkisstjórn hennar stjórnarandstöðuna um valdarán, glæp sem varðar allt að lífstíðarfangelsi samkvæmt hegningarlögum.

Slík orðræða dæmir sig sjálf.“

Eðlilegt sé að fólki greini á um pólitík og eðlilegt að tekist sé hart á um deilumál. En það sé hvorki eðlilegt né boðlegt að stilla þingmönnum upp sem ógn við þjóðaröryggi eða líkja við ofbeldismenn líkt og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hafi gert í sinni ræðu þegar hún sagði:

„Hvers vegna er það svo að meginreglan er sú að á fjögurra ára fresti getum við skipt um valdhafa án þess að þurfa að draga þá undir húsvegg og skjóta þá eins og er í mörgum löndum þar sem í rauninni ríkir algjört kaos? Er það þangað sem hæstvirtur minnihlutinn vill draga Alþingi Íslendinga? Er það í stjórnleysi, kaos og lítilsvirðingu við þingræðið og lýðræðið í landinu?“

Guðrún segir ummæli á borð við þau sem Inga og Guðmundur komu með á Alþingi í dag grafa undan trausti og virðingu Alþingis.

„Eins og aðrir þingmenn hef ég boðið mig fram og fengið lýðræðislegt umboð til að vinna í þágu þjóðarinnar. En fyrir utan þingið er ég líka manneskja, sem á fjölskyldu og ástvini sem þurfa að heyra mig sakaða um að ógna lýðræðinu í landinu. Það er algerlega óásættanlegt.

Það þarf kjark til að halda ró sinni þegar verið er að ásaka okkur um valdarán. En kjarkur er ekki að hrópa hærra, heldur að standa fast á sannfæringu sinni. Við látum ekki slíkar ásakanir óáreittar, en við tökum ekki þátt í pólitísku leikriti ríkisstjórnarinnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Í gær

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sjáðu kostulega ræðu flissandi Guðlaugs á Alþingi í dag „ÞETTA ER GEGGJAÐUR DAGUR“

Sjáðu kostulega ræðu flissandi Guðlaugs á Alþingi í dag „ÞETTA ER GEGGJAÐUR DAGUR“