Óhætt er að fullyrða að mikill titringur sé innan raða sósíalista í aðdraganda aðalfundar flokksins sem fer fram á laugardaginn. Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar, hefur um skeið legið undir þungri gagnrýni frá hluta flokksmanna. Hefur fjölmiðlamaðurinn verið sakaður um ólýðræðisleg vinnubrögð, ofríki, trúnaðarbrot, andlegt ofbeldi og þöggun svo eitthvað sé nefnt.
Búist er við að til uppgjörs komi um helgina og Gunnar Smári tók sig til og hellti olíu á eldinn með færslu á Rauða þræðinum, umræðu vettvangi sósíalista, þar sem hann lét gagnrýnendur sína heyra það.
„Það eru margir hættir að skilja átökin í Sósíalistaflokknum. Þau kraumuðu mánuðum saman innan flokksins vegna óánægju nokkurra einstaklinga sem ekki tókst að fá sitt fram. En sprungu út stuttu eftir að Sósíalistaflokkurinn tók þátt í myndun meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og forðaði borgarbúum frá hægristjórn. Þá skrifaði Karl Héðinn [Kristjánsson, forseti Roða, ungliðadeildar Sósíalistaflokksin] opið bréf til flokksfélaga með ávirðingum um mig persónulega, gagnrýni á skipulag flokksins og ásökunum um þöggun, andlýðræðisleg vinnubrögð og svo framvegis. Karl og félagar fóru með þessar ásakanir í flesta fjölmiðla og tóku yfir Rauða þráðinn á Facebook þar sem þeir lýstu Sósíalistaflokknum sem miklu skaðræði. Og boðuðu lagabreytingar sem myndu lagfæra og lýðræðisvæða skipulag flokksins,“ skrifar Gunnar Smári.
Segir hann að ásökunum Karls og félaga hafi verið svarað og rangfærslur þeirra leiðréttar, en það hafi ekki stöðvað hópinn.
„Tilgangurinn var augljóslega ekki að ræða málin heldur skapa vantraust gagnvart flokknum, líklega til að skapa rými fyrir hóp sem ætlaði að taka yfir stjórn flokksins.
Þegar frestur rann út um að senda inn lagabreytingar fyrir aðalfund kom í ljós að ekkert hafði verið að marka gagnrýni Karls og félaga á skipulag flokksins, enda höfðu þeir líklega áttað sig á að mikill meirihluti flokksfélaga var sáttur við skipulagið. Eina tillaga Roða, félagsskapar Karls Héðins, var að skipa þriggja manna trúnaðarráð sem gæti í raun tekið sér öll völd í flokknum, væri einskonar hugmyndalögga með vald til að reka fólk úr flokknum sem væri ekki á réttri línu að mati þessara þriggja.
Þau sem hafa reynt að fylgjast með málflutningi þessa hóps hafa skiljanlega misst þráðinn. Fyrst bar mest á eins konar me-too feðraveldisásökunum á mig, með orðalagi og hugtakanotkun undirsettra hópa sem hafa afhjúpað valdamismunun í samfélaginu. Allt frekar woke. Síðan kom fram hörð gagnrýni á skipulag flokksins, að valddreifing hans virkaði ekki. Þá komu ásakanir um fjárreiður og ótrúlegustu hlutir gefnir í skyn. Svo birtist allt í einu hugmyndin um að flokkurinn væri of woke og hefði ekki fengið fleiri atkvæði í síðustu þingkosningum af þeim sökum,“ skrifar Gunnar Smári.
Segir hann að þá hafi margir áttað sig á að þarna hafi verið tilraun þröngs hóps til þess að komast til valda og áhrifa innan flokksins.
„….helst að ná flokknum undir sig með því að planta vantrausti meðal flokksfélaga. Það er hin popúlíska leið, að bera út vantraust og kynna sjálfan sig sem lausnina.
Þetta hefði öllum átt að vera ljóst frá upphafi. Að baki þessum undirróðri standa menn sem hafa sóst eftir áhrifum innan flokksins og fengið þar nokkuð pláss, en ekki nægt að eigin mati. Þarna eru menn sem sögðu sig frá öllu starfi vegna þess að þeir voru ósáttir við að hafa ekki fengið forystusæti á lista fyrir síðustu kosningar. Eða voru ásáttir við hverjir fengu slík sæti. Menn sem hafa sagt sig úr stjórnum þegar þeir hafa ekki fengið sitt fram. Og menn sem hafa sagt sig frá trúnaðarstörfum af ýmsum ástæðum öðrum. Og alltaf var öðrum um að kenna, að þeirra sögn,“ skrifar Gunnar Smári.
Vísar hann því til föðurhúsanna að flokknum hafi stýrt öðruvísi en félagsmenn hafi viljað og óskaði eftir því hvaða stefnu gagnrýnendur hans vilja sá.
„En hvað vilja yfirtökumennirnir? Þeir hafa ekki sagt félögum sínum það. En ég hef svo sem orðið var við hvað þeir vilja. Þarna eru menn sem hafa skammað mig fyrir að hafa ekki tekið upp hanskann fyrir Stalín þegar einhver viðmælandi við Rauða borðið tók hann sem dæmi um mann sem ekki var treystandi fyrir völdum. Þarna eru menn sem vilja að Samstöðin verði eintóna áróðursstöð, kannski svipuð og þættirnir Marxískir mánudagar eru, þar sem Sæþór Benjamín [Randalsson, stjórnarmaður í Eflingu] er á eintali á youtube. Hugmyndir þeirra um flokksstarf eru að flokkurinn sé mótaður að þeirra hugmyndum, vegna þess að þeir telja sig vera best að sér um sósíalisma (sem þeir eru sannarlega ekki), en ekki að vilja og væntingum yfir þrjú þúsund flokksfélaga. Þetta eru í raun klassískir sófakommar sem vita allt best og vilja þröngva hugmyndum sínum upp á annað fólk. Þeir gætu aldrei byggt upp félag á borð við Sósíalistaflokkinn og vilja því freista þess að taka flokkinn yfir,“ skrifar Gunnar Smári.
Segir hann að yfirtökumenn hafi lítinn hljómgrunn meðal almennra félagsmanna. Því til sönnunar segir Gunnar Smári að því hafi verið lekið til hans skjáskoti þar sem sést að Karl Héðinn vilji að Sæþór Benjamín taki við stjórnartaumum innan flokksins. „Fólk í innsta kjarna yfirtökumanna finnst söguþráðurinn orðinn að hálfgerðum farsa,“ skrifar fjölmiðlamaðurinn.
Eins og gefur að skilja fór þessi færsla Gunnars Smára fyrir brjóstið á gagnrýnendum hans og var Karl Héðinn fljótur til að svara honum fullum hálsi.
„ Við í ROÐA lögðum ekki fram fleiri lagabreytingar því við teljum slíkt þurfa að byggjast á víðtæku samtali við félagsmenn um allt land. Gagnrýni okkar á skipulag flokksins er raunveruleg — en við viljum gera breytingar með fólkinu, ekki yfir því. Þú sviptir fólk launum, beitir andlegu ofbeldi og ferð með félögin eins og þinn einkaklúbb. Þú hefur barist gegn valddreifingu, gegn svæðisfélögum og gegn því að félagsmenn fái reglulega upplýsingar og rödd í eigin hreyfingu. Ég vona að flokksmenn sjái í gegnum þetta leikrit og kjósi nýja forystu. Þá getum við farið í þá nauðsynlegu uppbyggingarvinnu sem þú hefur staðið í vegi fyrir,“ skrifaði hann.
Gunnar Smári var ekki lengi að bregðast við gusunni.
„Allt sem þú skrifar hér er lygi. Ég vorkenni fólki sem hefur trúað frásögnum þínum. Og þér svo sem líka. Þér tókst ekki að afla skoðunum þínum fylgi og fékkst ekki þann framgang sem þú óskaðir þér, og vilt kenna mér um það. Og nú sækist þú eftir framgangi með þessum aðferðum, að grafa undan flokknum og ráðast að félagsfólki með lygum og illyrðum. Þetta er hlægilegasta kosningabarátta sögunnar,“ skrifar Gunnar Smári.