Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra lét þingmann Miðflokksins, Karl Gauta Hjaltason, heyra það á Alþingi í dag þegar sá síðarnefndi gekk á eftir svörum um starfslok lögreglustjórans á Suðurnesjum, Úlfars Lúðvíkssonar. Úlfar ákvað að láta þegar af störfum eftir að dómsmálaráðuneytið tilkynnti honum að embætti hans yrði auglýst.
Samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn ber að auglýsa laus embætti, en í embætti er skipað til fimm ára í senn. Ef ákveðið er að auglýsa laust embætti þarf að tilkynna embættismanni það eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út, annars framlengist skipunartími sjálfkrafa um fimm ár. Úlfar var skipaður lögreglustjóri í nóvember árið 2020, svo skipunartími hans hefði runnið út í nóvember á þessu ári.
Karl Gauti beindi fyrirspurn til dómsmálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hann vísaði til þess að ákvörðunin um að auglýsa embættið hafi verið tekin vegna pólitískrar sýnar ríkisstjórnarinnar og áherslubreytinga hjá embættinu. Karl Gauti benti á að Úlfar hafi unnið sér inn traust og virðingu fyrir framgöngu sína í embætti, einkum á sviði almannavarna og á landamærunum. Sjálfur hafi Úlfar ákveðið að nýta sér þær heimildir sem hann hafði til að herða tökin á landamærum þegar „stjórnvöld höfðu ekki kjark eða getu til að gera slíkt“ og eins hafi Úlfar bent á brotalamir varðandi þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu og fleira.
„Hvað var það við störf hans sem ekki samrýmdist pólitík hæstvirts dómsmálaráðherra og Viðreisnar? Hvers vegna var hann rekinn? Var það vegna þess að ráðherra er svo annt um Schengen og Evrópusambandið að ekki mátti gagnrýna hin opnu landamæri? Er það kannski vegna þess að hæstvirtur ráðherra var beittur þrýstingi frá þeim sem vilja opna Ísland upp á gátt? Hvaða pólitík var það sem ráðherrann treysti lögreglustjóranum ekki til að fylgja eftir?“
Karl Gauti spurði loks um raunverulega ástæðu fyrir brottrekstri lögreglustjórans á Suðurnesjum, en að tilkynna embættismanni að starf hans verði auglýst jafngildi brottrekstri.
Þorbjörg Sigríður sagði að stóru tíðindin í þessu máli væru þau að nú standi til að efla og stækka lögregluembættið á Suðurnesjum og það verulega. Til standi að efla landamærin og koma upp móttöku- og greiningarstöð og brottfararstöð.
„Og hvað gerist þá? Miðflokkurinn, hann ærist. Hér er ríkisstjórn sem er að samræma reglur um útlendinga við nágrannaríki okkar. Ísland er sem stendur t.d. eina Schengen-ríkið sem er ekki með brottfararstöð og fólk í staðinn vistað í fangelsum. Glæpamenn komast fyrir vikið ekki fyrir í fangelsum landsins.“
Þorbjörg Sigríður segir að þjóðin muni hvernig síðustu 7 ár hafa verið, þar sem voru linnulaus átök innan ríkisstjórnarinnar um útlendingamál.
„Miðflokkurinn er auðvitað í tilvistarkreppu núna þegar ríkisstjórn er fram komin sem framkvæmir í útlendingamálum því þetta er eina stefnumál Miðflokksins. Jú, jú, flokkurinn skilgreinir sig til hægri, talar um hagræðingarkeisara og annað í þeim dúr, en þeir hafa ekki stutt eina einustu hagræðingartillögu hér í þessum þingsal. Ekki einn þingmaður mætti í umræðu þegar ég lagði fram útlendingafrumvarp fyrir skemmstu, ekki einn. Þar erum við að taka úr sambandi kostnaðarsamar séríslenskar reglur. Áhugi Miðflokksins var enginn.“
Þorbjörg Sigríður segist ekki betur getað séð en að áhugi Miðflokksins á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum helgist af þeirri afstöðu að ríkisstarfsmenn eigi að vera æviráðnir.
„Flokkar sem skilgreina sig til hægri tala svona, gott og vel. Er þetta kannski nýja stefna Miðflokksins að þeir séu orðnir að sérlegum hagsmunasamtökum opinberra embættismanna? Viðkomandi lögreglustjóri var sannarlega ekki rekinn og ég ber traust til hans enda bauð ég honum annað embætti. Stóra málið sem Miðflokkurinn vill ekki ræða hér í dag er þetta: Það er verið að efla landamæraeftirlit, efla lögregluna á Suðurnesjum, skoða að lögreglan reki brottfararstöð og framkvæmi brottvísanir og frávísanir, vinnu sem í dag er hjá ríkislögreglustjóra. Þarna undir eru tugir starfa sem munu flytjast yfir. Þetta eru hin pólitísku tíðindi. Um þetta vill Miðflokkurinn ekki ræða.“
Karl Gauti steig aftur upp í pontu og sagðist engu nær um hvers vegna ráðherra ákvað að auglýsa embætti lögreglustjóra.
„Ráðherra hefur ekki gefið neinar fullnægjandi skýringar á tilefni þessa brottrekstrar, engar. Jú, það hefur komið fram að hún hafi boðið honum starf á Austurlandi. Átti sem sagt að senda lögreglustjórann í einhvern Lokinhamradal þar sem hæstvirtur ráðherra Viðreisnar gat ekki þolað að landamæraeftirliti eyþjóðarinnar væri sinnt af einhverri vigt á þessum mikilvægustu landamærum landsins? Þetta vekur auðvitað upp alvarlegar spurningar um stefnu Viðreisnar í þessum málaflokki. Þessi brottrekstur á þessum embættismanni er ekki til þess fallinn að vekja traust á stefnu Viðreisnar og ráðherrans í þessum málaflokki og flokkast frekar undir pólitískt sjálfsmark.“
Karl Gauti spurði nú hvenær auglýsa ætti embættið og hvenær það lægi fyrir hvaða breytingar eigi að gera „þarna suður frá“.
Þorbjörg Sigríður skaut aftur fast á móti.
„Ég get auðvitað ekki borið ábyrgð á því að Miðflokkurinn sé engu nær, það er ekkert nýtt. Þegar stórar og miklar breytingar eru gerðar á embættum þá er eðlilegt að auglýsa. Lögin mæla beinlínis fyrir um þetta og ég hvet þingmann til að lesa þau. Enginn á að teljast í áskrift að embætti, hvorki ráðherra né æðstu embættismenn, jafnvel þó þeir hafi sinnt störfum sínum vel.“
Ráðherra benti á að hún hafi tilkynnt Úlfari að hann gæti sótt um embættið aftur en eins stæði honum til boða að flytja sig yfir í annað embætti. Í stuttu máli standi til að styrkja lögregluna á Suðurnesjum verulega og styrkja landamæraeftirlit.
„En auðvitað vekur það athygli að fulltrúar Miðflokksins hafa ekkert tjáð sig um þessa pólitísku hlið málsins enda held ég að í þessu máli sem öðrum sé þetta flokkur orða, engra aðgerða og fyrst og fremst óbreytts ástands.“