Svarthöfði er staddur í bláu stofunni á heimili sínu og talar að sjálfsögðu bara dönsku, enda er sunnudagur. Á sunnudögum er töluð danska á betri heimilum, eða svo var allavega hér í den, og Svarthöfði heldur að sjálfsögðu í gamlar hefðir. Trakteringarnar eru ekki af verri endanum. Pönnukökur með sultutaui og pískuðum rjóma. Í ofninum er lambasteik og með henni verða bornar fram sykurbrúnaðar kartöflur, grænar baunir og rauðkál, sultutau og sósa. Svona viljum við sannir Íslendingar hafa þetta.
Sýslumaðurinn og presturinn eru væntanlegir. Tilefnið er ærið. Í hreppnum er farið að bera á því að fólk sé farið að tala hrognamál! Herre gud! Við viljum bara að hér sé talað eftir málfræðibókinni; við lútum fyrsta málfræðingnum, sem ritaði fyrstu málfræðiritgerðina í Snorra-Eddu. Við tölum samkvæmt honum.
Mikið þykir Svarthöfða gott að búið sé að festa tungumálið í réttar skorður. Því verður aldrei breytt, gudskelov!
Blessunarlega erum við ekki að fara í sama fasa og Bretar þar sem tungumálið er alls konar, maður áttar sig ekki á neinu! Svarthöfði hefur samúð með Bretum sem eru í þeirri stöðu að þar eru fjörutíu mismunandi mállýskur og sumar ansi skrítnar, allavega erfitt að skilja þær. Hvernig er hægt að sameina slíka þjóð?
Við Íslendingar erum í þeirri öfundsverðu stöðu að við tölum gullaldaríslensku. Hún er okkar akkeri, sverð og skjöldur. Vei þeim sem víkur af vegi okkar dásemdar gullaldaríslensku.
Pælum í þessu. Við Íslendingar getum auðvitað ekki sætt okkur við það að hvers kyns „málvillur“ séu ráðandi í okkar tungumáli. Sjálfstæði Íslands felst auðvitað í réttri notkun tungumálsins. Góður vinur Svarthöfða segir gjarnan: Det skulle bare mangle som vi siger på fransk!