Aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu (ESB) frá árinu 2009 er enn virk að sögn forseta framkvæmdastjórnar sambandsins, Ursula von der Leyen. Þetta tók von der Leyen fram á blaðamannafundi með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í gær. Ummælin hafa vakið töluverða athygli og var meðal annars slegið upp í fyrirsögn hjá mbl.is.
Atli Thor Fanndal, fjölmiðlamaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency, segir Íslendinga þurfa alvarlega á fjölmiðlum að halda sem muna lengra aftur en til síðustu viku, enda hafi von der Leyen ekki verið að segja nokkuð sem ekki hefur ítrekað komið fram í gegnum árin.
„Það getur ekki verið stórfrétt líkt og um nýjan veruleika sé að ræða í hvert sinn sem EU staðfestir að umsókn Íslands er opin en í dvala. Ísland dró umsóknina aldrei formlega til baka. Þingið ákvað að sækja um en Gunnar Bragi sendi bréf án umboðs. EU hefur ávallt og alltaf sagt það sama um þetta mál.“
Þetta skrifar Atli Thor á Facebook þar sem hann furðar sig á gullfiskaminni þjóðarinnar.
„Nú þegar Guðrún Hafsteins peddlar einhverju nöttara samsærisbulli um að verið sé að undirbúa einhverjar leynilegar aðildarumræður þá er gott að muna bara þetta. Ísland er og hefur í rúman áratug verið með umsókn í Brussel. Hún hefur legið í dvala vegna þess að við völd hefur verið fólk sem nennti ekki einu sinni að fá þingið í málið. Það er algjör óþarfi að láta eins og Sjálfstæðisflokkurinn ákveði veruleikann fyrir okkur líka. Ef formaður XD er bara að segja bull þá er skýringin bara að hún trúir bulli en ekki að það þurfi að endurskrifa og stroka út síðasta áratug svo við getum öll brosandi undirgengist lygi. Ps… Það er svo að sjálfsögðu ekki eingöngu við fjölmiðla að sakast því það er líka gert ráð fyrir því þegar verið er að reka samfélag að stjórnmálaflokkar velji sér fúnkerandi og læsa leiðtoga en ekki einhverja nonsens peddlers.“
Með færslunni lætur Atli fylgja skjáskot af fjórum fréttum um að aðildarumsóknin sé enn virk, einni frá því í janúar á þessu ári, annari frá árinu 2023 og loks tveimur sem birtust árið 2015.