Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks er í námsleyfi frá þingstörfum og býr nú í New York þar sem hún leggur stund á MPA-nám við Columbia-háskóla. Þingi var frestað í gær en Heimildin bendir á að við það víki allir varaþingmenn af þingi og aðalmenn taka aftur sæti. Þar með hefur Áslaug Arna aftur tekið sæti á þingi og fær greidd laun þar til þing kemur saman á ný og varamaður hennar tekur aftur sæti.
Þingfarakaup er í dag 1.611.288 kr. á mánuði en það eru grunnlaunin og þingmenn fá oft aukagreiðslur því til viðbótar. Áslaug fær til dæmis greiddan fastan ferðakostnað í kjördæmi upp á 43.500 kr og fastan starfskostnað sem er 58.000 kr. á mánuði. Heimildinni reiknast að Áslaug fái því um 3,1 milljón greiddar frá Alþingi þar til varamaður hennar tekur aftur sæti 9. september.
Áslaug tilkynnti um fyrirhugað námsleyfi í vor og fær hún greidda nokkra daga í júlí í laun þrátt fyrir að hún hafi þá verið flutt til New York. Varaþingmaður hennar tók ekki sæti fyrr en fimmta virka dag eftir að hún hélt út. Heimildin rekur að raunar hafi Áslaug verið skráð fjarverandi við allar atkvæðagreiðslur á Alþingi frá 20. júní.