Rétt fyrir frestun þings las þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, Hildur Sverrisdóttir, upp sameiginlega yfirlýsingu þingflokka stjórnarandstöðunnar þar sem forseti Alþingis, Þórunn Sveinbjarnardóttir, var sökuð um alvarlegan trúnaðarbrest.
Framganga hæstvirts þingforseta með beitingu 71. gr. þingskapalaga með fordæmalausum hætti án nokkurrar umræðu þar um skapaði trúnaðarbrest á milli stjórnarandstöðunnar og forseta. Valdbeiting kallar á viðbrögð og varkárni þess sem verður fyrir henni. Forseta hlýtur að hafa verið ljóst að sú ákvörðun er ekki án afleiðinga og mun ekki verða án afleiðinga, lita samskipti okkar og setja svip á þinghald kjörtímabilsins. Hér varð alvarlegur trúnaðarbrestur á milli stjórnarandstöðunnar og forseta. Við komumst ekki hjá því að líta svo á að forseti sé fyrst og fremst fulltrúi meiri hlutans en ekki forseti alls þingsins.
Rétt er að geta þess að lögum samkvæmt skal bera tillögu forseta um að beita 71. gr. umræðulaust undir atkvæði, en í niðurlagi 2. mgr. 71. gr. segir:
„ Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.“
Svipuð ákvæði má finna í þingskapalögum hinna Norðurlandanna, en þar eru málþóf þó fátíð. Í Danmörku er málþóf í raun útilokað þar sem strangar og nákvæmar reglur gilda um ræðutíma. Í Finnlandi má finna ákvæði þar sem þingforseta er gert skylt að gæta þess að þingmenn haldi sig við efnið þegar þeir taka til máls og hefur forseti heimild til að hindra þingmenn í að halda ræðum áfram ef þær fara út fyrir efnið. Eins hefur forsætisnefnd þingsins heimild til að úthluta ræðutíma fyrir ákveðna hluta umræðu og ákvarða hámarkslengd einstakra ræðna innan þeirra. Í Noregi getur forseti að eigin frumkvæði, eða samkvæmt beiðni minnst 10 þingmanna, stytt tímamörk hvað varðar ræður og lagt til við upphaf umræðu heildartímamörk fyrir umræðu. Hver þingmaður má þar almennt taka til máls tvisvar. Í Svíþjóð er málþóf sjaldgæft og engin dæmi um slíkt á árunum 2000-2020. Þar er rík hefð fyrir almennu samkomulagi og skilvirkum þingstörfum. Forseti hefur þar heimild til að leggja til takmarkanir á hversu oft þingmaður má taka til máls og um lengd ræðutíma.
Nánar má lesa um málþóf og þingskapalög Norðurlandanna í svari Rannsóknar- og upplýsingaþjónustu Alþingis til Ástu Guðrúnar Helgadóttur, fyrrum þingmanns Pírata, en svarið fékk hún í hendurnar þann 16. júní og hefur deilt á Facebook.