Stjórnarandstaðan hefur nú varið um klukkustund í að ræða um fundarstjórn forseta að hafa varið nokkrum klukkustundum í umræðu um strandveiðifrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi. Umræðunni um fundarstjórn var einkum varið í að kvarta undan færslu sem Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, birti á Facebook í hádeginu þar sem hún varaði við því að ef strandveiðifrumvarpið losni ekki undan málþófi minnihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks þá stöðvast strandveiðar um miðja næstu viku með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir strandveiðimenn og fjölskyldur þeirra.
Stjórnarandstöðunni sárnaði það töluvert að vera sökuð um málþóf, enda hafði 2. umræða um frumvarpið aðeins staðið yfir í um tvær klukkustundir þegar ráðherra birti færsluna.
Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, sárnaði sérstaklega og velti fyrir sér hvort stjórnarandstaðan ætti ekki bara að fara heim.
„Virðulegi forseti. Ef það er orðið svo að stjórnarþingmenn koma ekki hér til umræðu um málin, koma ekki til að ræða málin efnislega. Að vísu vil ég segja það að þegar að hæstvirtur atvinnuvegaráðherra sakar okkur um að vera með málþóf í strandveiðimálinu var held ég stjórnarmeirihlutinn búinn að ræða um helminginn af þeim tíma, flutti nefndarálit meirihlutans og fór í andsvör við nefndarálit minnihlutans og þá var farið að kalla málþóf.
En ef þetta er svona og það fær ekkert að starfa neitt í nefndunum um málin, af hverju erum við með þrjár umræður? Eigum við ekki bara að hafa 1. umræðu hér eins og í sveitarstjórnum, láta kjósa um þetta? Það þarf ekkert lýðræðislegt ferli hér hjá þessari ríkisstjórn. Hættum að eyða tímanum í þrjár umræður og einhver nefndarstörf ef það skiptir engu máli og það á ekki að hlusta á umsagnir og minnihlutinn er bara að misnota rétt sinn um leið og hann talar hérna. Við skulum bara fara heim, virðulegi forseti.“
Stjórnarandstaðan gagnrýnir eins þingmenn meirihlutans fyrir að vera ekki í þingsal, en þá steig Inga Sæland félags- og húsnæðisráðherra upp í pontu og minnti á að í morgun var kosið um dagskrártillögu stjórnarandstöðunnar, en þá voru aðeins þrír andstöðuliðar í salnum en 33 þingmenn frá meirihlutanum.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagðist fagna því að stjórnarandstaðan virtist nú gera sér grein fyrir hvað málþóf er alvarlegt, fyrst hún móðgist svona svakalega að vera sökuð um slíkt að meintri ósekju. Hann sagði það á sama tíma áhugavert að stjórnarandstaðan ætlaði ekki að láta sér nægja að reyna að segja meirihlutanum hvaða mál hann má leggja fram, hvaða mál hann megi afgreiða og hver dagskrá þingsins eigi að vera. Nú eigi líka að skipta sér af færslum ráðherra á samfélagsmiðlum.
Umræðu um strandveiðifrumvarpið hefur nú verið frestað og aftur er hafin 2. umræða um leiðréttingu veiðigjölda en samkvæmt vefsíðunni malthof.is sló umræðan Íslandsmet í málþófi skömmu fyrir eftir klukkan 17 í dag.
althingi-clip-1751988819