Svarthöfði sér ekki betur en óhamingju stjórnarandstöðunnar á Alþingi verði allt að vopni um þessar mundir. Vikulangar ræður um veiðigjöld og fundarstjórn forseta duga til að saxa á fylgi stjórnarandstöðuflokkanna samkvæmt skoðanakönnunum og afflutningur staðreynda, svo sem um að veiðigjöld séu skattar, hjálpar svo til. Morgunblaðið leggst síðan á sveif með ólukkunni og kyndir bálið með bjöguðum fréttum og fullyrðingum sem í besta falli eru byggðar á misskilningi eða rangminni. Er nú svo komið að blaðið gengur undir nafninu „Andrésblað“ meðal manna, eftir höfundi flestra greina um efnið í því.
Við svo bætist að málþófsmenn í þinginu eiga verulegra og sérstakra hagsmuna að gæta í málinu eins og greint var frá á þessum miðli í gær, og þar á sjálfur varaformaður forystuflokks stjórnarandstöðunnar í hlut. Sá telur það heilaga skyldu – svo notuð séu hans orð – að standa fyrir málþófi og sveipar sig með skikkju hetjunnar sem berst fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar og fjölskyldnanna í landinu. Þegar það svo afhjúpast að hann er eingöngu að gæta hagsmuna barna sinna sem eru stórefnafólk.
Svarthöfði getur í þessu sambandi ekki varist því að hugsa til ömmu sinnar sem sagði þegar henni þótti fram af sér gengið: „sei sei“.
Svarthöfði er helst á því að ekki sé hægt að skálda svona atburðarás upp – svo lygileg er hún. Þótt að það kunni að vera klisja er Svarthöfði viss um að svona lagað liðist ekki í öðrum löndum, jafnvel þótt langt væri leitað.