Rússland setti innflutningsbann á íslenskar vörur árið 2015 í kjölfar þess að Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, ákvað að styðja viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Rússum fyrir Íslands hönd, vegna hernaðarbrölts Rússa á Krímskaga.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir í Fréttablaðinu í dag, á þjóðhátíðardegi Rússlands, að ákvörðun Gunnars Braga, sem var ákaflega umdeild á sínum tíma, gæti hafa reynst blessun í dulargervi, því þegar þær dyr hafi lokast, hafi aðrar opnast:
„Brátt verða fjögur ár liðin frá því að stjórnvöld í Rússlandi settu innflutningsbann á íslenska matvöru út af þátttöku í afmörkuðum þvingunaraðgerðum vegna Úkraínudeilunnar og brota á alþjóðalögum sem skipta okkur miklu. Bannið hafði í för með sér mikinn samdrátt á útflutningi til Rússlands enda mun umfangsmeira en aðgerðirnar sem Ísland tekur þátt í.
Stundum er sagt að þegar einar dyr lokist opnist aðrar. Þannig hafa ný markaðstækifæri opnast í Rússlandi, ekki síst vegna sívaxandi fjárfestinga Rússa í landbúnaði og sjávarútvegi – meðal annars vegna þess að lokað var fyrir innflutning á vestrænum matvælum!“
Skilja má á orðum Guðlaugs að hin nýju markaðstækifæri hefðu ekki opnast nema ef til innflutningsbannsins hefði komið, sem hlýtur að teljast hæpið, þar sem ómögulegt er að spá fyrir um hvað hefði gerst ef ekkert viðskiptabann hefði komið til, en hann segir sérlega ánægjulegt að hin nýju tækifæri séu á sviði nýsköpunar og hátækni, sem séu þeir atvinnuvegir sem íslensk stjórnvöld leggi áherslu á að byggja upp til framtíðar:
„Íslensk þekkingarfyrirtæki sem framleiða búnað fyrir matvælavinnslu og fiskveiðar hasla sér nú völl í Rússlandi. Nú þegar hafa nokkur gert eða eru við það að ganga frá milljarðasamningum um sölu á tækni og búnaði til nýrra skipa eða vinnslu í landi.
Tækifæri eru líka á sviði landbúnaðar. Þótt íslensk mjólk komi reyndar hvergi nærri hófu íslenskir aðilar nýverið í gegnum samstarfssamning við rússnesk mjólkurbú skyrframleiðslu eftir íslenskri uppskrift.“
Þá minnist Guðlaugur einnig á stofnfund Rússnesks-íslensks viðskiptaráðs og samvinnu ríkjanna í ferðaþjónustu, en rússneskt flugfélag býður upp á beint flug til Íslands í sumar.
„Síðast en ekki síst skiptir miklu að þótt íslensk og rússnesk stjórnvöld greini á um ýmislegt fara samskiptin batnandi. Forsetar landanna hittust fyrr á árinu og í maí, þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu, átti ég fund með utanríkisráðherra Rússlands, þar sem gott samstarf á vettvangi norðurslóða var undirstrikað.
Í dag – á þjóðhátíðardegi Rússlands – er því gott að muna að þrátt fyrir allt eiga Rússland og Ísland langa sögu góðra samskipta á mörgum sviðum, ekki síst milliríkjaviðskipta. Að þessu sambandi vil ég áfram hlúa.“