Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjölmálaráðherra, virðist vera höfundurinn af stöðluðum texta sem stjórnarliðar og stuðningsmenn orkupakkans gera að sínum á samfélagsmiðlum án þess að geta heimilda.
Það er Viðar Freyr Guðmundsson, sem var í framboði fyrir Miðflokkinn í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum, sem bendir á þetta á Facebooksíðu sinni um helgina og tekur skjáskot af notkun textans hjá viðkomandi aðilum.
Viðar segir:
„Hér eru 4 aðilar sem tengjast allir ríkisstjórninni nánum böndum að kommenta um sömu fréttina. Einn athugull lesandi tók eftir að ekki aðeins eru kommentin þeirra á sömu nótum, heldur er þetta orð fyrir orð sami textinn (sem ég higlighta í tveimur litum). Þetta fólk er sem sagt að endurtaka eins og páfagaukar einhvern áróður sem búið er að skrifa fyrir þau. Sem er nokkuð áhugavert.“
Skjáskot Viðars má sjá neðst í fréttinni.
Textinn virðist fyrst hafa verið birtur hjá Ólafi Teiti þann 28. maí á Facebooksíðu hans, sem viðbrögð við pistli Arnars Þórs Jónssonar, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Arnar taldi að einhliða fyrirvarar ríkisstjórnarinnar við orkupakkanum hefðu enga þýðingu ef fjárfestar vildu leggja sæstreng milli Íslands og Evrópu, því ef höfðað yrði samningsbrotamál vegna þess, myndi Ísland ávallt tapa því máli, þar sem orka er neysluvara, samanber fjórfrelsisákvæði um frjálst flæði vara.
Þeir sem notað hafa textann frá Ólafi Teiti, líkt og um eigin sjálfstæð skrif sé að ræða, eru Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Kristinn Karl Brynjarsson, 2. varaformaður verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins og Þorkell Sigurlaugsson, formaður Velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins, sem einnig á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd.
Textinn sem um ræðir er eftirfarandi:
„Mér sýnist hér gæta misskilnings. Fyrivararnir lúta að heimildum ESA til að taka ákvarðanir um skilyrði og skilmála fyrir flutningi raforku þegar millilandatenging er til staðar. Þau ákvæði munu ekki eiga við nema við ákveðum að tengjast. Ekkert í 3ja orkupakkanum hróflar á nokkurn hátt við því að leyfisveitingin er sjálfstæð ákvörðun Íslendinga, eins og staðfest hefur verið af sjálfum framkvæmdastjóra orkumála ESB. Fyrirvörunum er ekki ætlað að hindra málsókn eins og þarna er haldið fram eða amk gefið í skyn. Það getur auðvitað hver sem er farið í mál ef honum sýnist svo. Valdheimildir ESA ná hins vegar ekki til ákvörðunar um að leggja strenginn, það liggur alveg fyrir. Ef menn telja sig geta knúið íslenska ríkið til að tengjast sæstreng þá hefur sú hætta verið fyrir hendi í 25 ár án þess að neinn hafi velt því fyrir sér eða talið það áhyggjuefni. Þriðji orkupakkinn breytir nákvæmlega engu þar um. Vangaveltur um að svo væri kallaði Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við lagadeild HÍ „lögræðilega loftfimleika“ á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis. Ekki eitt einasta dæmi er til um það að EES-ríki hafi verið þvingað til að tengjast streng gegn vilja sínum. Vangaveltur um að einn dýrasti og lengsti strengur heims verði sá fyrsti þar sem slíkt gerist – strengur sem auk þess hefur verið sýnt fram á að borgar sig ekki á markaðslegum forsendum – það mætti þá kannski kalla slíkar vangaveltur loftfimleika fyrir lengra komna.“