Fimmtán umsækjendur eru um embætti skrifstofustjóra á skrifstofu hagmála og fjárlaga í heilbrigðisráðuneytinu sem auglýst var laust til umsóknar 8. febrúar síðastliðinn.
Heilbrigðisráðherra mun skipa í embættið til fimm ára að undangengnu mati hæfnisnefndar sem er ráðgefandi við skipun í embætti, samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands. Hæfnisnefndina skipa Guðríður Þorsteinsdóttir hrl. sem er formaður nefndarinnar, Gísli Þór Magnússon, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu og Ásta Bjarnadóttir mannauðsstjóri á Landspítala. Starfsmaður nefndarinnar er Sigríður Jakobínudóttir. Nefndinni er ætlað að skila niðurstöðu eigi síðar en 20. mars næstkomandi.