Rannsókn hefur verið hafin á verðbréfamiðstöðinni Nasdaq af Samkeppniseftirlitinu. Nasdaq er með markaðsráðandi stöðu hér á landi, sem eina verðbréfamiðstöðin með starfsleyfi um árabil. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.
Í bréfi Samkeppniseftirlitsins til Nasdaq frá 18. maí segir að:
„Hvers konar aðgerðir sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir að nýir keppinautar geti haslað sér völl á markaði eru að jafnaði metnar alvarlegar í samkeppnisrétti“.
Verðbréfamiðstöð Íslands fékk starfsleyfi síðasta haust. Forsvarsmenn fyrirtækisins kvörtuðu til Samkeppniseftirlitsins og sögðu háttsemi Nasdaq ómálefnalega og til þess fallna að vinna gegn því að nýr aðili gæti haslað sér völl á markaði.
Nasdaq er í eigu kauphallarsamstæðunnar Nasdaq OMX. Forvígismenn Verðbréfamiðstöðvar Íslands vilja meina að Nasdaq hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína er þeir héldu áfram að innheimta vörslugjöld af reikningsstofnunum vegna verðbréfa sem flutt voru frá Nasdaq til Verðbréfamiðstöðvar Íslands.
Eigendur Verðbréfamiðstöðvar Íslands eru fimm lífeyrissjóðir sem eiga rúman helmingshlut, auk Íslandsbanka, Arion banka og einkafjárfesta. Þeir telja að að með háttsemi Nasdaq raskist rekstrarforsendur Verðbréfamiðstöðvarinnar og komi í veg fyrir að viðskiptavinir snúi sér til keppinauta, í þessu tilfelli Verðbréfamiðstöðvarinnar.
Hagnaður Nasdaq eftir skatta árið 2016 nam um 308 milljónum, eða 52% ávöxtun á eigin fé. Tekjur vegna vörslugjalda námu um 459 milljónum.