Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýr framkvæmdastjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, ODIHR í Varsjá, segir það erfitt að takast á við hatursorðræðu fyrir dómstólum því það verði að virða tjáningarfrelsið. Í viðtali í DV segir hún að ODIHR sjái þess merki að hatursorðræða sé að þróast hér á landi. Aðspurð um hvort orðræðan beinist þá fyrst og fremst gegn múslimum segir Ingibjörg Sólrún:
„Já, hún beinist kannski fyrst og fremst gegn þeim. Ýmsir hafa enn fordóma gagnvart samkynhneigðum, en sú andúð er ekki mjög áberandi í opinberri umræðu. Fordómar gagnvart gyðingum finnast líka en eru heldur ekki áberandi í umræðunni.“
Finnst þér sjálfsagt að draga fólk fyrir dóm fyrir hatursfull ummæli til dæmis í garð múslima?
Það er erfitt að takast á við hatursorðræðuna fyrir dómstólum því það verður að virða tjáningarfrelsið. Ef fólk er með fordóma og tjáir þá í orði þá verðum við að mæta því öðruvísi en hjá dómstólum. Það er ekki hægt að banna fólki að hafa fordóma en það er hægt að vinna gegn þeim.