Þær miklu afurðaverðslækkanir sem boðaðar hafa verið í haust auk seinkana á greiðslum munu valda bændum verulegum vanda á næstu mánuðum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Bændasamtaka Íslands sem lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu sauðfjárræktar í landinu
Segir stjórn BÍ að ljóst sé að sauðfjárbændur munu eiga í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar. Í boðuðum lækkunum felist meira en þriðjungs tekjuskerðing samhliða hærri fjármagnskostnaði sökum dráttar á greiðslum. Verði lækkunin öll að veruleika setji hún afurðaverðið aftur á þann stað sem það var fyrir áratug sem er ekkert minna en stórfelld kjaraskerðing. Á sama tíma hafi hagur neytenda batnað verulega því sá sem keypti lambakjöt fyrir andvirði klukkustundar vinnu árið 2008 er nú aðeins 37 mínútur að vinna fyrir sama magni.
Hvetur stjórnin félagsmenn sína til að ræða strax við sína birgja og viðskiptabanka um stöðuna og leita með þeim lausna. Munu Bændasamtökin veita þeim allan þann stuðning sem þeim er fært í þeirri baráttu.
Rætt hafi verið við stjórnvöld um mögulegar aðgerðir til að draga úr framleiðslu til lengri tíma litið. Vonir standa til þess að þar náist niðurstaða, en hún tekur ekki á þeim bráðavanda sem uppi er. Stjórn BÍ telur skynsamlegast að taka á honum með sambærilegum aðferðum og tíðkast í samanburðarlöndum okkar í samskonar tilvikum þar sem gripið er inn í markaðinn ef aðstæður sem þessar koma upp.
Uppfært 16:45
Stjórn BÍ hefur skipt út orðinu „stórkostlegt“ fyrir orðið „stórfellt“ í yfirlýsingu sinni.