Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, ætlar ekki að bjóða sig fram til Alþingis á nýjan leik þegar kjörtímabilinu lýkur. Hún segir það ekki skipta máli hvort kjörtímabilið verði stutt eða langt. Hún hefur setið á þingi frá 2009. Fyrst fyrir Borgarahreyfinguna, sem varð skammlíf, en síðan undir merkjum Hreyfingarinnar. Hún kom að stofnun Pírata og var í fararbroddi hjá flokknum í þingkosningunum 2013. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Birgittu að það sé ekki hollt að sitja of lengi á þingi og enginn sé ómissandi. Fyrir síðustu kosningar sagði Birgitta að hún ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri en henni snerist hugur og var aftur kjörin á þing. Hún sagði að þekking hennar gæti nýst nýjum þingmönnum Pírata sem væru reynslulausir hvað varðar þingstörf.
Birgitta sagði í samtali við Fréttablaðið að þingmannsstarfið sé samfélagsþjónusta og að hún vonist til að hún hafi gert gagn. Hún sagði að ný verkefni bíði hennar að þingmennsku lokinni en skýrt verði frá hver þau eru síðar.