Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir það sæta furðu að kallað sé eftir því að hann svari fyrir um uppreist æru Roberts Downey og neiti að svara fyrir það. Í færslu á Fésbók svarar Bjarni leiðara Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu í dag þar sem stóð meðal annars að svo virtist sem Bjarni ætli að bíða af sér storminn og vona að raddir fórnarlamba Roberts þagni.
Sjá einnig: „Bjarni virðist ætla að hafa íslenska háttinn á og bíða af sér storminn og vona að raddirnar þagni“
Staðreynd málsins er sú að ég gegndi ekki embætti fyrir innanríkisráðherra þegar þessi mál voru til lykta leidd í ráðuneytinu. Ekki heldur þegar þau fóru fyrir ríkisstjórn eða voru lögð fyrir forseta Íslands til staðfestingar. Það sætir því furðu að kallað sé eftir því að ég svari fyrir þá ákvörðun. Enn undarlegra er að sjá skrif um að ég forðist umræðu um málið,
segir Bjarni og bætir við:
Tillaga þáverandi innanríkisráðherra var kynnt á ríkisstjórnarfundi 15. september 2016, af þáverandi forsætisráðherra, en slík mál koma einungis til kynningar en ekki samþykktar í ríkisstjórn. Innanríkisráðuneytið sendi tillöguna til forseta sem samþykkti hana 16. september.
Undir í þessu máli séu fordæmanleg brot sem taka eigi hart á. Þegar hann sjálfur var formaður í allsherjarnefnd árið 2006 hafi þáverandi dómsmálaráðherra lagt fram frumvarp til breytinga á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna:
Góð samstaða tókst á Alþingi um öll meginatriði. Nauðgunarhugtakið var útvíkkað, fyrningarfrestir lengdir, sem skipti sérstaklega miklu í tilfelli brota gegn ólögráða, ýmsar refsiþyngingarástæður voru lögfestar og refsingar vegna kynferðisbrota þyngdar. Þau sjónarmið sem ég talaði fyrir í þeirri umræðu eru vel skjalfest í þingtíðindum.
Varðandi hugtakið uppreist æru þá komi það spánskt fyrir sjónir þegar um sé að ræða brot sem erfitt sé að fyrirgefa:
Á undanförnum áratugum hefur undantekningarlaust verið fallist á beiðni um uppreist æru séu tiltekin lögformleg skilyrði uppfyllt. Ég tel að breytt viðhorf, sem m.a. koma fram í hertum viðurlögum við kynferðisbrotum, kalli á að við tökum nú þessa áralöngu framkvæmd til endurskoðunar. Fram kemur í viðtali við dómsmálaráðherra í dag að vinna er hafin við að endurskoða reglur um efnið, m.a. hvernig fara eigi með endurheimt borgaralegra réttinda manna sem hlotið hafa dóma, skýra reglurnar og auka gagnsæi. Ég styð ráðherrann heilshugar í þeirri vinnu og tel mikilvægt að hraða henni.