Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins segir nauðsynlegt að ráðast í heildarstefnumótun á bankakerfinu sem fyrst, það séu góðar fréttir að vogunarsjóðirnir sem keyptu 30% hluti í Arion banka í vor muni ekki nýta sér forkaupsrétt sinn til að eignast meirihluta í bankanum en óvissan um framhaldið geti gert það að verkum að stefnumótunin verði í höndum vogunarsjóða en ekki íslenskra stjórnvalda.
Af því að stjórnvöld eru ekki búin að leggja í þessa vinnu, að ákveða hvernig fjármálakerfið eigi að virka, það sem gerist er, til dæmis ef vogunarsjóðirnir hefðu fengið helminginn, þá sjá þeir um stefnumótunina. Af því að vogunarsjóðirnir upplýsa ekki algjörlega um eignarhaldið þá eiga þeir ekki að eiga meirihluta í kerfislega mikilvægum banka á Íslandi,
segir Lilja í samtali við Eyjuna. Ríkissjóður á í kringum 70% af öllum fjármálastofnunum og segir Lilja að það þurfi sem fyrst að móta sýn á það hvernig eignarhaldið á að vera, hvort það eigi að aðskilja fjárfestinga- og viðskiptabanka. Það sé kæruleysi af hálfu stjórnvalda að gera ekkert því það gæti rýrt virði eignanna:
Þetta þolir enga bið.
Það sem þurfi að gera núna sé að setja ákveðin grundvallarviðmið í samráði við þingið:
Í fyrsta gagnsætt eignarhald, í öðru lagi að þetta séu traustir fjárhagslegir bakhjarlar, hafi mikla bankareynslu. Þetta er stefnumótun sem verður að eiga sér stað, sem fyrst.