Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi og fyrrverandi ritstjóri segir að nýnasistarnir í Charlotteville virki eins og eitthvað hættulítið úr fortíðinni samanborið við Íslendinga, ef marka megi Söruh Palin fyrrverandi ríkisstjóra Alaska. Orð Palin á Fox News, sem sjá má hér fyrir neðan, hafa vakið mikla athygli en hún líkir Íslendingum við nasista Þriðja ríkisins þar sem við séum markvisst að eyða þeim sem séu öðruvísi með því að skima fyrir litningargöllum í fóstrum og rjúfa þungun. Í viðtalinu ræddi Palin um umfjöllun CBS um Downs-heilkenni á Íslandi en þar kom fram að skimanir og þungunarrof hafi gert það að verkum að hér á landi fæðist ekki lengur börn með heilkennið.
Sjá einnig: Líkir Íslendingum við nasista
Gunnar Smári segir á Fésbók að hann hafi endað á þessu viðtali eftir skrans um viðbrögðin við getu- og viljaleysi Donalds Trump Bandaríkjaforseta til að fordæma uppþot rasista og nýnasista í Charlottesville, en Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að standa fastur á þeirri afstöðu sinni að báðir hóparnir í Charlottesville beri sök á uppþotunum:
Viðbrögð við ummælum Trump leggja undir sig allar rásir og alla miðla þar til allt í einu að Sarah Palin lýsir okkur Íslendingum sem siðvillingum sem hafa nýtt erfðafræði til mannkynbóta, eugenics. Eins og við séum tæknivæddir súper-nasistar,
segir Gunnar Smári og bætir við:
Nýnasistarnir í Charlottesville virka eins og eitthvað hættulítið út fortíðinni í samanburði, ef trúa á Palin.