Vefurinn Sandkassinn mun hætta að birta nýtt efni frá og með deginum í dag, þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Gunnari Waage, sem var ritstjóri vefsins frá opnun hans 2013 til júlímánaðar 2017. Segir Gunnar að álagið hafi verið gríðarlegt vegna hótana og skemmdarverka, þar að auki fari mikil vinna í vefinn. Einnig hafi það valdið honum vonbrigðum að árangur vefsins hafi ekki verið meiri, markmiðið hafi verið að berjast gegn rasisma, en nú sé rasismi og þjóðernishyggja í stórsókn:
Ég skal viðurkenna að mér þykir forvitnilegt að sjá hvernig mál munu þróast án Sandkassans. Ég er ánægður þegar ég lít yfir farin veg. Sandkassinn er og hefur verið harðlínumiðill og er ég sáttur við þá stefnu,
segir Gunnar í yfirlýsingunni. Gunnar og Útvarp Saga hafa lengi eldað grátt silfur. Segir Gunnar að á stöðinni þrífist hatursáróður en forsvarsmenn stöðvarinnar hafa sagt á móti að Gunnar fari fram með ærumeiðingar, rógburð og níð. Nýverið hefur Sandkassinn einnig átt í deilum við Ingu Sæland formann Flokks fólksins, var hún kölluð „nasista amma“ í grein á Sandkassanum og svaraði hún því fullum hálsi.
Sjá einnig: Lokað á Sandkassann vegna kvartana
Sjá einnig: Gunnar hætti sem ritstjóri eftir að hann kallaði Ingu Sæland „Nasista ömmu“
Sjá einnig: „Dómstólar munu kenna þessum manni að skammast sín“
Að lokum þakkar Gunnar stuðningsmönnum sínum, sérstaklega þeim Carynu Bolívar, Gunnari Hjartarsyni, Haraldi Davíðssyni, Kolbrúnu Ósk Óskarsdóttur, Semu Erlu Serdar formanns Solaris og Halldóri Auðari Svanssyni borgarfulltrúa Pírata.