Meirihluti ráðherra í ríkisstjórninni styrktu Hinsegin daga 2017 með skúffufé sínu. Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Jón Gunnarsson samgönguráðherra styrktu ekki Hinsegin daga 2017 með skúffufé sínu. Á mbl.is í dag má finna sundurliðun útgjalda af ráðstöfunarfé ráðherra það sem af er þessu ári, á fjárlögum eru samtals rúmar 40 milljónir til ráðherra en engar samræmdar reglur eru um úthlutun á féinu. Það sem af er þessu ári hafa ráðherrar úthlutað tæpum 7,5 milljónum króna, hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála úthlutað mest, eða 2,2 milljónum króna.
1,35 milljón af skúffufé til Hinsegin daga
Athygli vekur að sex ráðherrar af ellefu úthluta Hinsegin dögum 2017 fé. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra úthlutaði 200 þúsund krónum, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra 300 þúsund krónum, Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra úthlutaði 350 þúsund krónum og er það hans eina úthlutun. Óttarr Proppé úthlutaði 200 þúsund krónum, Þórdís Kolbrún úthlutaði Hinsegin dögum 150 þúsund krónum sem og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Alls 1.350.000 krónur.
Þrír ráðherrar ekki úthlutað neinu
Björt Ólafsdóttir hefur úthlutað 950 þúsund krónum af skúffufé sínu það sem af er ári, 350 þúsund krónum til Kvikmyndahátíðar í Reykjavík, 200 þúsund til ráðstefnu um jólatrjáarækt, 100 þúsund krónum til Landbúnaðarháskólans vegna málþings um landnotkun og 300 þúsund krónum til Ólafs Sveinssonar vegna dagskrár í tilefni 10 ára afmælis Kárahnúkavirkjunar. Kristján Þór hefur aðeins úthlutað 200 þúsund krónum það sem af er árinu, var það styrkur til Sveins Elíasar Jónssonar vegna minnisvarða um Látra-Björgu. Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson og Sigríður Á. Andersen hafa ekki úthlutað neinu á árinu.