Í síðustu viku sagði Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður fjárlaganefndar að heildarútgjöld til málaflokks hælisleitenda og útlendingamála hefðu vaxið mikið og væru farin fram úr áætlunum sem hafðar voru til viðmiðunar við fjárlagagerð.
Þar var gert ráð fyrir 2,5 milljörðum króna til málaflokksins en kostnaðurinn er að sögn Haraldar nær sex milljörðum.
Höfundur Staksteina í Morgunblaðinu í dag segir ljóst að kostnaðurinn sé farinn úr böndunum.
Að mati höfundar er þessi aukni kostnaður augljós vísbending um að ríkisvaldið sé að missa tök á málaflokknum. Það sé löngu orðið tímabært að ná betur utan um hann og koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur gefið það út að til standi að ráða 10 sérfræðinga til starfa hjá Útlendingastofnun til að vinna úr umsóknum um hæli hér á landi en mikil aukning hefur verið á síðastliðnum árum í slíkum umsóknum sem höfundur Staksteina segi að kunni að leiða til aukins kostnaðar til skamms tíma en sparnaðar þegar til lengri tíma er litið vegna hraðari afgreiðslutíma.
Íslendingar verða að taka á þess- um málum af alvöru, að öðrum kosti fer kostnaður úr böndum auk annarra afleiðinga sem mikill straumur flóttamanna getur haft á samfélagið.
Ein augljós afleiðing sem þegar hefur komið fram er aukinn þrýstingur á húsnæðismarkaði, þar sem skortur er fyrir,
segir í Staksteinum dagsins.