Viktor Orri Valgarðsson varaþingmaður Pírata segir að svo virðist sem skrifstofa Alþingis sé ekki samkvæm sjálfri sér þegar kemur að því hvort bannað sé að taka myndir inn í þingsalinn eða ekki. Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis sagði við Fréttablaðið í dag að strangt til tekið væri ljósmynd af Björtu Ólafsdóttur í þingsalnum ekki brot á reglunum, myndatökur í einkaþágu væru óheimilar í þingsalnum en það megi taka myndir inn í salinn úr hliðarsölum eða gangi.
Viktor Orri segir á Fésbók að þegar hann tók myndir inn um hliðarsalinn þá hafi hann fengið áminningu:
Svo virðist sem skrifstofa þingsins sé ekki samkvæm sjálfri sér varðandi þessar reglur. Ég fékk amk. frekar pirraða áminningu frá þingverði á sínum tíma þegar ég var að taka myndir inn um hliðarsalinn (og eftir að ég hafði birt eina slíka flipp-mynd sem rataði í DV) og lofaði að birta þær ekki opinberlega,
segir Viktor og vísar til myndar af honum sjálfum þegar hann „tók sæti á Alþingi“ í orðsins fyllstu merkingu þegar hann tók sæti á Alþingi í fjarveru Gunnars Hrafns Jónssonar.
Björt gerði grín að gagnrýninni í morgun og sagði að næst yrði hún með bindi til að hvetja karlkyns samþingmenn mína til að bera það í þingsalnum en það gæti endanlega farið með feðraveldið eins og það leggur sig. Stuttu síðar sagði Björt á Fésbók að hún skildi að fólk fyndist Alþingi helgur staður en ítrekaði að hún hefði ekki brotið neinar reglur. Viktor segir þetta ekki í lagi og það komi feðraveldinu ekkert við:
Sorrý, Björt, en þetta er eiginlega ekki í lagi og það hefur ekkert með feðraveldið að gera. Aðeins ráðherrar og þingmenn (og tilteknir starfsmenn þingsins) mega yfirhöfuð stíga inn í þingsalinn og þú hefur sérstakt aðgengi að honum í krafti pólitískrar forréttindastöðu þinnar. Að nýta það aðgengi til að auglýsa einkafyrirtæki í eigu vinkonu þinnar er ekkert annað en misbeiting á þeirri stöðu.