Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur komið á fót starfshóp til þess að kanna hvernig hátta megi umfangsmiklum framkvæmdum á stofnleiðum út frá höfuðborgarsvæðinu. Líkt og komið hefur fram er eitt verkefna hópsins er að skoða þann kost að koma upp vegtollahliðum á fjölförnum leiðum í kringum höfðborgarsvæðið. Í samtali við DV í dag segir Jón að hann viti ekki hvað gjaldið verði hátt, en ekki hærra en 400 krónur. Segir hann að aðallega sé verið að skoða þrjár leiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu:
Það eru leiðirnar austur fyrir fjall að Selfossi, norður að Borgarnesi og suður að Keflavíkurflugvelli. Meginleiðirnar inn og út úr höfuðborgarsvæðinu á þessu svæði. Þar sem umferðin er mest og slysatíðnin hæst,
sagði Jón við DV. Erfitt reyndist að fá upplýsingar um hvar vegatollarnir eiga að vera, hvort það þurfi að keyra í gengum tollhlið áður en beygt er út á Þingvallarafleggjarann á norðurleiðinni eða hvort keyra verði í gengum tollhlið áður en hægt er að beyja í átt að Nesjavöllum á suðurleiðinni. Jón hafnar því hins vegar að höfuðborgarsvæðinu verði lokað alfarið og segir að hægt verði að keyra Krýsuvíkurleiðina til og frá Hafnarfirði til að komast á Suðurlandið og á Reykjanesið. Margir vilja þó meina að þetta sé aðferð ráðherra til að setja þrýsting á fjárveitingarvaldið í kjölfar niðurskurðar til samgöngumála á síðustu fjárlögum, ef ekki verði sett aukið fjármagn til samgöngumála þurfi hann að afla tekna með aðgerðum sem þessum.
Miðað við orð ráðherra hefur Eyjan útbúið kort sem sýnir hvar tollhliðin gætu verið og leiðina sem hægt er að keyra til að sleppa við vegatolla Jóns Gunnarssonar:
Ef svo fer að tollhliðin á suður- og norðurleiðinni verði handan afleggjaranna til Nesjavalla og Þingvalla þá bætast við fleiri möguleikar: