Hilmar Þór Björnsson arkitekt segir það ekki ganga lengur að embættismenn Reykjavíkurborgar geti frestað afgreiðslu mála vikum jafnvel mánuðum saman því þeim hafi „yfirsést“ atriði á teikningum sem séu ekki einu sinni notaðar við byggingu húsa. Segir hann í grein sem hann skrifar á Eyjuna að aðalatriðið hjá embættismönnum hjá byggingafulltrúa Reykjavíkur virðist vera að flækja málin af tilefnislausu.
Vitnar Hilmar í viðtal Morgunblaðsins við Jón Ólaf Ólafsson arkitekt sem sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við embætti byggingarfulltrúa og dæmi sé um mál sem hafi beðið í 5 ár eftir afgreiðslu og hafi valdið tjóni upp á milljónir króna. Jón Ólafur hefur starfað sem arkitekt í 30 ár og að mikill munur sé á afgreiðslu byggingarfulltrúa nú og á fyrri árum. Síðan þá hafi verið komið á fót þjónustuver sem hafi slitið tengslin við embættismennina:
„Við eigum ekki lengur beinan aðgang að þeim sem eru með málin hjá fulltrúa. Það sem meira er; enginn er ábyrgur fyrir erindum,“
sagði Jón Ólafur. Hilmar Þór segir reynslu sína vera þá sömu, sama gildi um flesta starfandi arkitekta:
Verkferlarnir eru slæmir og tafsamir hjá embættunum. Svigrúm í reglugerðum er of lítið. Tengsl milli ráðgjafa og embættismanna eru allt of lítil og miklu minni en áður. Sambandið er nánast ekkert. Ekki er hægt að hringja í þann sem er með málið nema á tilteknum stuttum viðtalstímum eins og verið sé að biðja um samtal við ráðherra. Embættismennirnir hringja nánast aldrei þó um smávægilega athugasemd sé að ræða sem hægt er að leysa í stuttu símtali. Líklega voru það líka mistök að sameina bygginganefnd og skipulagsnefnd á sínum tíma,
segir Hilmar. Þar að auki sé málum frestað á forsendum sem komi umsókninni ekkert við og allir þekki að gerðar séu tilefnislausar athugasemdir sem hægi á útgáfu leyfa. Áður fyrr vildu embættismenn að málin fengju afgreiðslu sem fyrst og hringdu í hönnuði ef þeir fundu eitthvað sem þurfti að lagfæra, þá var hægt að afgreiða málið samdægurs. Nú hafi hann orðið var við að ef hönnuður er fastur fyrir og gagnrýnir afgreiðsluna þá sé mikil hætta á að verkið tefjist enn frekar:
Smáatriði á borð við „nf“ merkingu á einu baðherbergi („nf“ er merking um niðurfall) geta líka kostað frestun á samþykkt um 14 daga. Og þegar það hefur verið lagfært kemur jafnvel upp eitthvað nýtt sem embættismanninum „yfirsást“ í fyrra skiptið. Svona getur þetta gengið vikum og jafnvel mánuðum saman þó vitað sé að ekkert hús er byggt samkvæmt aðaluppdráttum, heldur verkteikningum sem taka á öllu sem skiptir gæði og neytendavernd máli. Verkteikningar eru líka yfirfarnar, stimplaðar og áritaðar af embættunum. Það gengur oftast vel.
Hilmar að þetta gangi ekki lengur:
Þó allir séu auðvitað að gera sitt besta þá gengur þetta ekki svona lengur. Aðalatriðið virðist vera að embættin og verkferlar embættanna eru ekki eins lausnamiðaðir og áður. Heldur virðist markmiðið stundum jafnvel vera að flækja málin.
Gæði gagna sem berast fara minnkandi
Eyjan leitaði án árangurs eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um hver bæri ábyrgð á erindum sem bærust byggingarfulltrúa, en fékk þau svör að afgreiðsla mála hjá byggingarfulltrúa taki mjög mislangan tíma, allt eftir stærð og umfangi umsóknar, hvort breyta þurfi deiliskipulagi, og einnig gæði þeirra gagna sem lögð eru inn til byggingafulltrúa. Nikulás Úlfur Másson byggingarfulltrúi Reykjavíkur vísaði gagnrýni á embættið á bug í samtali við Stöð 2 í gærkvöldi. Sagði hann að það væri embættinu í hag að afgreiða umsóknir hratt og vel en mörg embætti kæmu að afgreiðslu umsókna:
Öll eru þessi embætti að vinna samkvæmt lögum og reglum sem þeim ber að framfylgja og þau fara yfir teikningar sem hingað berast og gera við það athugasemdir ef að þurfa þykir,
sagði Nikulás. Mikil þensla sé á framkvæmdum í Reykjavík og mikið að umsóknum hafi borist að undanförnu, þar að auki fari gæði gagna sem embættinu berist minnkandi:
Okkur hefur fundist upp á síðkastið að gæði gagna sem hingað berast eru að minnka.