„Það er óneitanlega skondið að sami maður vilji afnema 10 þúsund króna seðil af því að svo verðmikill seðill stuðli að skattsvikum og glæpum, á sama tíma og hann vill ólmur í evrulandið þar sem 60 þúsund króna seðlar eru daglegt brauð.“
Þetta segir höfundur Staksteina Morgunblaðsins í blaði dagsins, en það er að öllum líkindum Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins. Spyr hann Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann sé með skýringar á þeirri tvíhyggju að vilja taka 10 þúsund króna seðla úr umferð en á sama tíma vilja kasta krónunni og taka upp evru þar sem verðmætasti seðillinn er 500 evrur. Vísar Davíð til stríðs Benedikts gegn skattsvikum og greinar Benedikts í Fréttablaðið í síðustu viku þar sem hann sagði það í lagi fyrir fjármálaráðherra að hafna krónunni.
Sjá frétt: 10 og 5 þúsund króna seðlarnir verði teknir úr umferð
Á sama tíma og fjármálaráðherra amast við notkun íslenskra seðla og vill eingöngu bankamillifærsluviðskipti á íslenska myntsvæðinu, þá er hann öflugur talsmaður þess að íslenska krónan verði lögð niður, en Ísland taki upp evru,
segir Davíð og bætir við:
Nú vill svo til að myntkerfi evrulandana er með þeim hætti að þar er stærsti seðillinn 500 evrur sem samsvarar sextíu þúsund íslenskum krónum miðað við gengi evrunnar 120. Ólíklegt verður að telja að fjármálaráðherra telji sig þess umkominn komi til þess að Ísland taki upp evru að breyta svo greiðslukerfi evrulanda, að notkun myntar já og 500 evra seðilsins verði bönnuð.
Biður hann Benedikt um vitræna skýringu:
Gott væri að fá vitræna skýringu á þessari tvíhyggju fjármálaráðherra.