„Bíllinn er allsstaðar í forgangi og helmingur borgarlandsins fer í að þjónusta hann. Þeir sem ferðast öðruvísi þurfa að sýna útsjónarsemi og þolinmæði til að komast leiðar sinnar og gera það venjulega með jákvæði að leiðarljósi,“
segir Gísli Marteinn Baldursson fjölmiðlamaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Fésbók, en þar deilir Gísli Marteinn skopmynd Halldórs Baldurssonar úr Fréttablaðinu þar sem Gísli er sýndur hjólandi umkringdur þéttri umferð. Gísli Marteinn hefur vakið mikla athygli og fengið á sig harða gagnrýni fyrir málflutning sinn um að engum hópi hafi verið þjónað betur en bílaeigendum í Reykjavík síðustu sex áratugi.
Stefán Einar Stefánsson blaðamaður Morgunblaðinu og fyrrverandi formaður VR svarar Gísla Marteini:
Þurfa aðrir að sýna útsjónarsemi og þolinmæði? Voðaleg dramatík er þetta. Ég ferðast mikið á einkabíl (reyndar rafbíl þannig að ekki menga ég jafn mikið og strætófarþegarnir) en ég hjóla einnig töluvert, ma stundum til og frá vinnu eða tek strætó. Mér sýnist mun meira gert til að stuðla að hinu síðastnefnda og fyrir hjólreiðarnar fremur en þá sem fara um á bíl. Þetta er upplifun mjög margra og þess vegna er umræðan á þennan veg, hversu mjög sem hamrað er á hinu gagnstæða.