Jared Kushner, ráðgjafi í Hvíta húsinu og tengdasonur Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segist ekki hafa vitað fyrirfram um tilgang fundar síns og fleiri nátengdum Trump við rússneskan lögfræðing kosningabaráttunni í fyrra. Markmið fundarins, sem Kushner sat ásamt Donald Trump yngri og fleiri í innsta hring kosningabaráttu Trump, mun hafa verið að fá upplýsingar frá rússneskum embættismanni í gengum lögfræðing með tengsl við Kreml til þess að koma höggi á Hillary Clinton forsetaframbjóðanda Demókrata. Fundurinn átti sér stað í Trump turninum í New York í júní í fyrra og hefur Donald Trump yngri játað að fundurinn hafi átt sér stað og að hann hafi átt í samskiptum við valdamikla aðila í Rússlandi en þvertekur hann fyrir að fundurinn hafi skilað neinu.
Sjá frétt: New York Times segist hafa tölvupósta frá Rússlandi til Trump
Sjá frétt: Trump yngri segist ekki hafa sagt föður sínum frá Rússafundinum
Í yfirlýsingu sem Kushner sendi frá sér í morgun í aðdraganda vitnisburðar hans fyrir leyniþjónustunefndar Bandaríkjaþings í dag, og greint er frá á vef New York Times, hafnar hann því alfarið að hafa staðið í leynimakki í kosningabaráttunni og að hann hafi ekki vitað fyrirfram um tilgang fundarins með lögmanninum Nataliu Veselnitskayu, sem mun hafa tengsl við stjórnvöld í Kreml:
Ég átti ekki neina óviðeigandi tengiliði. Ég stóð ekki í leynimakki, né veit um neinn í kosningabaráttunni sem átti í leynimakki með neinni erlendri ríkisstjórn,
segir Kushner í yfirlýsingu sinni. Fundur þingnefndarinnar verður lokaður fjölmiðlum en yfirlýsingin felur í sér það sem hann mun koma til með að segja. Til að rökstyðja að hann hafi ekki átt neinum samskiptum við Rússa bendir Kushner á að eftir kosningarnar hafi hann unnið að því að koma á tengslum við Kreml og Pútín Rússlandsforseta til að geta rætt málefni Sýrlands:
Staðreyndin er sú að daginn eftir kosningarnar var ég að leitast eftir því að koma á tengslum [við Kreml] og það er sterk sönnun fyrir því að ég vissi ekki af neinum slíkum tengslum fyrir kosningarnar.