Börkur Gunnarson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í velferðar- og innkauparáði Reykjavíkurborgar lét þá Gunnar Smára Egilsson fyrrum ritstjóra Fréttatímans og Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar Erfðagreiningar heyra það á Facebook síðu sinni í gær.
Tilefnið var frétt Eyjunnar um stórviðskipti Kára í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands en þar kom fram að fyrirtæki græddi þrjá milljarða króna í gengishagnað samkvæmt sérfróðum aðilum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrum forsætisráðherra og núverandi þingmaður Framsóknarflokks tjáði sig um þetta í gær og skaut þar á Kára fyrir að hagnast gríðarlega á þessari umdeildu fjárfestingarleið en ausa sífellt úr skálum reiði sinnar yfir þá sem ekki leggi sitt til samfélagsins.
Nú hefur Börkur Gunnarson lagt orð í belg og segir hann á Facebook síðu sinni:
Afhverju eru það alltaf menn sem veifa sósíalískum fána sem eru hvað mest að hugsa um rassgatið á sjálfum sér?
Gunnar Smári er gott dæmi, einhver mesti ævintýramaður í útrásinni sem hefur síðan fordæmt þá sem tóku þátt í útrásinni og er svo ósvífinn að hann mætir í viðtöl í útvarpinu og talar um að hinir hafi verið ógeð því þeir fóru með bólupeninga til útlanda á meðan hann var fremstur í flokki í því dæmi.
Þetta Káradæmi er ekki beint sörpræs.
Í ummælum við færslu Barkar er spurt hvort Kári sé í raun sósíalisti, er hann ekki flokksbundinn Sjálfstæðisflokknum og þar með samflokksmaður Barkar? Það telur varaborgarfulltrúinn ólíklegt og segir:
Ég held hann hafi ansi oft sagt frá því að hann væri sósíalisti og ég hef aldrei heyrt hann segjast vera sjálfstæðismann.